Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:41:55 (2898)

1996-02-12 16:41:55# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:41]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Stærsta skrefið sem stigið hefur verið á seinni árum í þá átt að aðlaga íslenskan þjóðarbúskap og efnahagskerfi að nútímaháttum og þeim almennu reglum sem gilda í heimsviðskiptum var án efa innganga okkar í Evrópska efnahagssvæðið. Þar áður voru stærstu umbæturnar sem gerðar hafa verið á efnahagskerfi okkar í upphafi 7. áratugarins undir svonefndri viðreisn þegar skipt var um efnahagskerfi frá því hafta- og skömmtunarkerfi sem var smám saman innleitt á Íslandi upp úr fyrri heimsstyrjöld og stóð allan þann tíma. Engu að síður erum við Íslendingar í alþjóðlegum samanburði skemmra á veg komnir en flestar þjóðir í kringum okkur að því er varðar frjálsræði í efnahagsmálum og almenn samkeppnisskilyrði.

Þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu vorum við að gerast aðilar að hinu svokallaða fjórfrelsi, þ.e. við vorum að leiða í lög að hér skyldi ríkja fríverslunarstefna, hér skyldu gilda frjáls viðskipti með vörur, þjónustu, fjármagn og hér skyldi einnig ríkja frjáls för launafólks. En þetta eru þau grundvallaratriði Evrópusambandsins sem heyra undir aukið frjálsræði og öflugari markaðsbúskap. Engu að síður þá settum við ákveðna fyrirvara að því er varðar stór mál. Fyrsta málið var það að Evrópusambandið tók út af borðinu upphaflegar kröfur sínar í samningum við okkur um að fá veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu í staðinn fyrir markaðsaðgang. Evrópusambandið féll frá þeim kröfum sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt fordæmi í öllum framtíðarsamskiptum okkar við Evrópusambandið. Í annan stað náðum við varanlegum fyrirvara frá almennu reglunni um fjárfestingarrétt að því er varðar íslenskan sjávarútveg. Í þriðja lagi fengum við tímabundinn fyrirvara að því er varðaði fjárfestingarréttindi í orkugeiranum.

Loks má nefna að tímabundinn fyrirvari var einnig að því er varðaði landbúnað og reyndar eignarhald á landi. Við brugðumst við því með því að boða breytingar á innlendri löggjöf, sem okkur var að sjálfsögðu heimilt, með því að setja svonefnd girðingarlög varðandi eignarhald á bújörðum. Allt var þetta gert á þeim pólitísku forsendum að ástæða væri til að óttast ásókn erlends fjármagns inn í íslenskt efnahagslíf, ekki hvað síst á þessum sviðum. Nú erum við reynslunni ríkari. Við vitum að erlendir fjárfestar biðu ekki í röðum fyrir utan íslenska lögsögu til þess að reiða fram digra sjóði til fjárfestingar í arðbæru íslensku atvinnulífi. Það hefur ekki orðið nein eftirspurn eftir eignarhaldi á íslensku landi eða bújörðum svo orð sé á gerandi. Girðingarlöggjöfin hefur því fyrst og fremst bitnað með neikvæðum hætti á íslenskum bændum.

Að því er varðar orkugeirann rifja ég upp að við jafnaðarmenn sögðum þá þegar að við teldum að við ættum að nýta aðlögunartímann til að lögleiða heildstæða löggjöf um sameign þjóðarinnar á orkulindunum, fallvötnum og jarðhita, til þess að tryggja forræðið yfir auðlindinni. Með nákvæmlega sama hætti og Norðmenn lögðu á það höfuðáherslu í samningum sínum við Evrópusambandið þegar þeir stóðu í aðildarsamningum að tryggja óbreytt forræði Norðmanna yfir olíu- og jarðgasauðlindum þeirra sem þeim tókst. Þeir hefðu getað búið áfram við óbreytta skipan, t.d. ríkisrekstur og ákvarðanir stjórnvalda um heimildir, leigu á leyfum til erlendra aðila við nýtingu á þeirri auðlind en algerlega á þeirra forræði.

[16:45]

Nú er þetta stjfrv. um það að standa við skuldbindingar okkar í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið. T.d. að búa okkur undir að hinn tímabundni fyrirvari varðandi orkugeirann er liðinn. En þá kemur að því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vakti athygli á með fyrirspurn fyrr í dag að enn bólar ekkert á þeirri heildstæðu lagasetningu sem við höfum verið að gera okkur vonir um að nái fram að ganga að því er varðar eignarhald þjóðarinnar á orkulindunum. Það er gríðarlega mikilvægt mál og ég tek undir með hv. þm. að það er kominn tími til og reyndar löngu síðan að það mál verði lagt fyrir Alþingi.

Fyrir utan þetta má segja að stjfrv. er fyrst og fremst um það, að því er sjávarútveginn varðar, að lögleiða óbreytt ástand, að heimila óbeina fjárfestingu sem allir vita að er staðreynd eins og fram hefur komið í umræðunum. Í raun og veru er því þannig háttað að hinn varanlegi fyrirvari okkar sem við settum af öryggisástæðum í EES-samninginn er í fyrsta lagi óþarfur og í annan stað óframkvæmanlegur.

Síðan liggja fyrir önnur frv. Annars vegar frá hv. þm. Þjóðvaka og hins vegar fjórum stjórnarþingmönnum í Sjálfstfl. sem vilja ganga lengra en þetta stjfrv.

Það ætti ekki að koma neinum manni á óvart þótt umræður um fjárfestingarrétt í sjávarútvegi, hvort heldur í fiskveiðum eða fiskvinnslu, þyki viðkvæmara mál af sögulegum og pólitískum ástæðum hér á landi en umræður um margt annað. Í hugum sumra er eins og Ísland sé eingöngu verstöð og aðrir atvinnuvegir skipti engu máli. Það skyldi maður ætla t.d. af þeirri gríðarlegu umfjöllun um málefni sjávarútvegsins sem t.d. einkennir íslenska fjölmiðla. Samt sem áður er það staðreynd að um það bil 87% Íslendingum vinna í öðrum atvinnugreinum en við fiskveiðar og fiskvinnslu. Það er líka staðreynd að svona um það bil 44% af gjaldeyristekjum Íslendinga af útflutningi, vöru og þjónustu koma úr öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi. Engu að síður er það að sjálfsögðu staðreynd að sjávarútvegurinn er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein. En þegar menn ræða hann eru menn fyrst og fremst að spyrja einnar spurningar, þ.e. um forræðið yfir auðlindinni.

Eins og fram hefur komið í þessum umræðum er það svo að auðlindin er að íslenskum lögum sameign þjóðarinnar og veiðiheimildir eru bundnar íslenskum aðilum. Hér er ekki lagt til að því verði á nokkurn máta breytt. Það breytir því engu hvort eignaraðild í fyrirtækjum er að einhverjum hluta erlend eignaraðild. Þessi fyrirtæki eru íslensk. Þau lúta íslenskum lögum og íslenskum reglum og veiðileyfin verða ekki látin öðrum í té. Spurningin um erlent fjármagn í fyrirtækjum í sjávarútvegi er því nákvæmlega sú sama og spurningin um erlent fjármagn í öðrum fyrirtækjum. Er það okkur í hag, er það okkur eftirsóknarvert eða er það ekki svo? Af hálfu okkar jafnaðarmanna leggjum við að sjálfsögðu áherslu á að það sem við eigum að gera að því er varðar sjávarútveginn er að festa í sessi gildandi löggjöf um eignarhald á auðlindinni og tryggja jafnframt að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum til þeirra sem veiðiheimildir hafa í íslenskri lögsögu, þ.e. íslenskra aðila, verði ekki framvegis ókeypis heldur verði veiðileyfagjald tekið fyrir þær. Það er m.a. af þeim hagstjórnarástæðum að við verðum að tryggja að Ísland geti í framtíðinni byggt upp fjölbreytt nútímalegt atvinnulíf þannig að aðrar greinar eins og iðnaður, þjónusta, verslun og viðskipti geti þróast við hlið sjávarútvegsins en fari ekki á vonarvöl vegna þess að hágengi sem sjávarútvegurinn skilgreinir kemur í veg fyrir að þau hafi starfsskilyrði.

Það vefst fyrir mörgum að skilja þessi mál. Þó er athyglisvert að efnahagslegur árangur þjóða er ekki endilega bundinn því hversu ríkulega þeim hafa verið látnar í té auðsuppsprettur í formi náttúrulegra auðlinda. Það er t.d. athyglisvert að því er okkur sjálfa varðar að hlutfall útflutnings af vergri landsframleiðslu hjá okkur Íslendingum hefur að mestu leyti staðið í stað allt frá stríðslokum. Í raun og veru má segja ef nokkuð er að hlutur sjávarútvegsins hafi fremur aukist heldur en hitt á seinni árum. Það er einnig athyglisvert að þannig háttar til með mörg ríki sem byggja efnahag sinn og atvinnustarfsemi fyrst og fremst á hagnýtingu auðlinda. Það er athyglisvert að þannig háttar til með Noreg t.d. Þetta hlutfall útflutnings af þjóðarframleiðslu er þýðingarmikill mælikvarði á framþróun í hagkerfinu vegna þess að í alþjóðavæðingu nútímaviðskipta hefur hlutfallið vaxið hraðast hjá þeim þjóðum sem hafa bætt hag sinn hvað best. En þetta hlutfall hefur staðnað hjá okkur og Norðmönnum. Þannig má nefna fjöldamörg dæmi um þjóðir sem byggja efnahag sinn á hagnýtingu einnar eða tiltölulega mjög fárra auðlinda að þeim hefur ekki vegnað að sama skapi vel. Við getum litið á dæmi eins og Nígeríu svo við nefnum nú ekki land eins og Saudi-Arabíu eða hinn efnahagslega ófarnað fyrrum Sovétríkja sem voru þó vissulega þannig útbúin frá náttúrunnar hendi að naumast var hægt að nefna þær náttúruauðlindir sem ekki var þar að finna.

Með öðrum orðum erum við hér að ræða ákaflega þýðingarmikið mál, þ.e. spurninguna um erlent fjármagn almennt í okkar þjóðarbúskap. Það hefur komið fram í þessum umræðum áður að það er hægt að nefna fáar þjóðir sem ekki hafa þurft á að halda og notið atbeina erlends fjármagns á uppbyggingarskeiði. Íslendingar voru þar engin undantekning. Frá seinustu áratugum nítjándu aldar og fram yfir fyrra stríð er hægt að nefna mörg jákvæð dæmi um atbeina erlends fjármagns við uppbyggingu okkar atvinnulífs. Í þeim fjármagnsskorti sem háði okkur var þessi innflutningur á erlendu fjármagni, erlendri tæknikunnáttu, lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf. Á þetta var hins vegar síðan bundinn endi með haftabúskapnum um miðja öldina. Þetta er nú sú regla sem gildir um efnahagsþróun þjóða ekki síst þegar þær eru að brjótast úr fátækt til bargálna eða fara í gegnum tæknilega byltingu í atvinnuháttum.

Það er ástæða til að biðja hv. þm. að staldra við það að ef ekki hefðu orðið þau umskipti sem áttu sér stað fyrir atbeina viðreisnarstjórnarinnar í upphafi sjöunda áratugarins þá eru engar líkur á því að það væri neitt erlent fjármagn á Íslandi. Þar sem ríkir miðstýrt skömmtunarkerfi stjórnmálamanna þannig að efnahagsstarfsemin byggir fyrst og fremst á miðstjórnarboðum og bönnum frá stjórnvöldum, þar sem innflutningur er annaðhvort bannaður eða hindraður með ofurháum innflutningstollum og síðan stundað millifærslukerfi, fjár er aflað með fjáröflunartollum á innflutning til þess síðan að útdeila styrkjum til útflutningsatvinnuveganna og forðast þannig að hafa hreint gengi, boðið er raunverulega upp á margvíslegt gengi sem byggt er á pólitískum geðþóttaákvörðunum, þá þróast smám saman hagkerfi sem reyndar var komið hér á vonarvöl undir lok sjötta áratugarins. Það hefði að lokum ekki bara þýtt algjöra stöðnun á Íslandi heldur jafnframt komið með öllu í veg fyrir, ef það ástand hefði haldið áfram, að nokkur erlendur aðili hefði fjárfest í slíku hagkerfi. Þannig að um erlenda fjárfestingu þýddi nánast ekki að ræða fyrr en þær umbætur sem viðreisnarstjórnin kom á voru farnar að hafa áhrif. Þeim var síðan fylgt eftir með aðild okkar að EFTA árið 1970.

Enn er það svo þrátt fyrir allt að þrátt fyrir þær umbætur sem orðið hafa í tíð viðreisnarstjórnarinnar og í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og þá ekki síst í tengslum við EES-samninginn og með einstökum aðgerðum öðrum, endurskipulagningu á fjármagnsmarkaði og frelsi í fjármagnsflutningum, að við erum miklu skemmra komnir á þeirri leið að skapa viðunandi umhverfi fyrir atvinnustarfsemi en flestir aðrir. Það sem er hvað athyglisverðast í því efni er þó fyrst og fremst það að hinn örsmái íslenski heimamarkaður er enn mjög mótaður af fákeppni og einokun.

Í úttekt sem gerð er í seinasta hefti Fjármálatíðinda undir heitinu Erlend fjárfesting á Íslandi eftir Jón Óskar Þorsteinsson hagfræðing sem starfar á vegum hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, er m.a. vakin athygli á því einkenni íslensks þjóðarbúskapar að samkeppni gætir lítt eða ekki í mjög mörgum greinum og að hagkerfið einkennist af einokun, oft ríkisverndaðri og fákeppni sem hefur þekktar afleiðingar fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þannig segir, með leyfi forseta:

,,Í bankakerfinu fara 75% viðskipta um ríkisreknu bankana. Langtímalán til atvinnureksturs eru öll í höndum opinberra fjárfestingarlánasjóða. 90% íslenskra skuldabréfa eru með ríkisábyrgð. Raforkuiðnaður er ríkisrekinn án samkeppni. Flest fjarskiptakerfi eru í eigu hins opinbera. Langstærsta fjölmiðlafyrirtækið er ríkisfyrirtæki. Póstþjónusta er ríkisrekin. Landbúnaður er bundinn í fjötra og innflutningur óheimill eða skattlagður eins mikið og mögulega má. Afleiðingar þessa rekstrarfyrirkomulags eru minni hagvöxtur, hár kostnaður, lægri framleiðni og lakari lífskjör.``

Ég held að þessi lýsing á fortíðareinkennum íslensks þjóðarbúskapar skýri að mörgu leyti hvers vegna laun á Íslandi eru miklu lægri en í nálægum löndum; hvers vegna framleiðni í íslenskum fyrirtækjum er miklu lægri en í samanburðarlöndunum; hvers vegna framlegð á vinnustund er að nálgast botninni í samanburðarlöndunum innan OECD og hvers vegna arðsemi íslenskra fyrirtækja er lítil, eiginfjárstaða þeirra er tæp og hagnaður sem hlutfall af tekjum er lítill.

Allt eru þetta sígild einkenni efnahagskerfis þar sem samkeppni ríkir ekki, þar sem fákeppni eða einokun er ríkjandi. Þetta eru meginskýringarnar á því hvernig komið er fyrir okkur, þ.e. að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er því miður á heildina litið afar bág í samanburði við aðrar þjóðir og frelsi í íslensku efnahagslífi er svona um miðbik í heimssamanburðinum. Þetta eitt með öðru getur auðvitað orðið að vítahring.

Ég nefndi það áðan að það hefði ekki hvarflað að neinum erlendum fjárfestum að fjárfesta í því hagkerfi sem ríkti á Íslandi fyrir árið 1960. Frá þeim tíma hefur þó þrátt fyrir allt þokast nokkuð í rétta átt en samt sem áður með nánast hraða snigilsins þegar við berum þetta saman við hraða breytinganna sem eiga sér stað í löndunum allt í kringum okkur. Ef við lítum nú á það hversu vænlegt Ísland er sem fjárfestingarkostur fer ekki hjá því að þeir sem hefðu kannski hug á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi spyrja ekki síst spurninga eins og þeirra sem ég fór yfir áðan. Þ.e. þeir spyrja: Hversu frjálst er rekstrarumhverfið? Hversu vel má treysta því að almennar leikreglur séu virtar fremur en boð og bönn eða höft stjórnvalda? Hversu traustur er stöðugleikinn? Er gengið stöðugt í landi þar sem hafa orðið 29 gengisfellingar á 20 árum? Það er að sjálfsögðu spurt um vinnumarkaðinn og það er spurt um hversu gott framboð er af menntuðu vinnuafli. Eða eins og nú er þegar Ísland er orðið að láglaunalandi þá er spurt um hversu gott er framboðið af ódýru vinnuafli. Því næst er að sjálfsögðu spurt um arðsemi atvinnurekstrar og um allan laga- og stofnanarammann utan um það.

Það kom fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar áðan að í alþjóðlegum samanburði eru veikleikarnir í íslensku efnahagslífi því miður allt of fyrirferðarmiklir þrátt fyrir þann árangur sem t.d. náðist á síðasta kjörtímabili í því að auka stöðugleika, lækka verðbólgu, skapa skilyrði fyrir fyrirtæki til að greiða niður skuldir, stöðugleika í gengi, tiltölulega hagstætt gengi. En þrátt fyrir allt er ótti manna mjög mikill um að þetta hvíli á tiltölulega veikum grunni.

Það er kannski ekki úr vegi að nefna eitt dæmi um það sem var umræðan sem fór hér fram áðan þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson 1. þm. Vestf. beindi fyrirspurnum til viðskrh. um það hvernig á því stæði að vextir færu hækkandi á Íslandi. Bæði fyrirspyrjandinn og viðskrh. töldu að það væru allar efnahagslegar forsendur fyrir því að vextir færu nú lækkandi. Þeir bentu á staðreyndir um það að þrátt fyrir allt hefur eitthvað mjatlast í því að draga úr hallarekstri í ríkisbúskapnum, að lánsfjárþörf hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga fer minnkandi, að verðbólga í samanburði við nágrannalöndin er tiltölulega lág og rekstrarkostnaður bankakerfis fer lækkandi. Engu að síður er það svo að vextir á Íslandi fara allt í einu hækkandi. Þá spyr maður: Er það þá svo að markaðskerfið á Íslandi skili allt öðrum skilaboðum en þessar efnahagsstærðir gefa til kynna? Vextir fara lækkandi í grannlöndunum en þeir fara hækkandi hér. Hvers vegna? Á að skilja það svo að ef hér er markaðskerfi að markaðurinn sé að koma þeim boðum áleiðis að hann trúi því ekki þegar hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að þessi ríkisstjórn muni ná jafnvægi í ríkisfjármálum á tveimur árum? Skyldi ekki vera eitthvað hæft í því, því að þær yfirlýsingar hafa verið gefnar áður. Og ég hygg að raunsætt mat þeirra sem standa í viðskiptum og rekstri sé að þeir treysti því ekki að núv. stjórnarmeirihluti valdi því verkefni.

Annað dæmi má nefna sem er athyglisvert. Það er að íslensk fyrirtæki eru í stórum stíl að kaupa gjaldeyri á hagstæðum kjörum --- það eru lágir vextir í útlöndum, mun lægri en hér --- m.a. til að greiða niður skuldir, sem er jákvætt, en einnig kannski til að afla sér fjár ef ske kynni að hinn rómaði stöðugleiki á Íslandi reyndist nú á veikum grunni. Þetta eru þá skilaboð markaðarins. Hann trúir ekki skilaboðum stjórnvalda, lýsingu stjórnvalda um það að góðæri sé gengið í garð. Það geta ekki verið nema tvær skýringar. Annaðhvort er skýringin sú að það er enginn opin samkeppnishæfur markaður á Íslandi heldur tiltölulega lokaður, þröngur fákeppnismarkaður sem tekur ekkert mark á því sem gerist á markaðnum heldur tekur geðþóttaákvarðanir meira og minna af pólitískum ástæðum. Eða þá að það er markaðskerfi en menn treysta ekki að fenginni reynslu lýsingu stjórnvalda á því að sá árangur sem þeir keppast við að lýsa sé að nást.

[17:00]

Það er nú einu sinni svo að það er ekki hending að erlent fjármagn er afar takmarkað á Íslandi. Það voru nefndar hér tölur áðan. Fyrir ekki mjög mörgum árum var hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu á bilinu 30--35%. Það er komið niður í 15--16% núna. Það er undir þeim mörkum sem þarf til þess að endurnýja fastafjármuni. Þetta er þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefur í að lækka verðbólgu, auka stöðugleika og þrátt fyrir það að gengið er, eins og afar fátítt hefur verið í okkar sögu, tiltölulega hagstætt. Kannski er það m.a. þess vegna að erlendur fjárfestir, sem lítur raunverulega eitthvað undir yfirborð íslensks efnahagskerfis, er sennilega ekkert mjög ginnkeyptur fyrir því að fjárfesta. Ef íslensk fyrirtæki eru svona skuldug, ef eiginfjárstaða þeirra er svona bág, ef arðsemi þeirra er svona lítil, ef framleiðnin í atvinnulífinu er svona lítil, eftir hverju er að slægjast? Það er sennilega ekki eftir mjög miklu.

Í ljósi þessarar greiningar er ég þeirrar skoðunar að því miður beri að harma að þær umbætur, sem hófust í tíð viðreisnarstjórnarinnar og var haldið áfram í tíð fyrri ríkisstjórnar en með mjög takmörkuðum hætti þó þrátt fyrir allt, hafa verið allt of hægar. Íslenska þjóðfélagið einkennist af því að það býr við úreltan skipulagsramma á mjög veigamiklum sviðum. Hér yrði allt öðruvísi um að litast ef búið væri t.d. að taka ákvarðanir um að spretta upp hinu lamandi ríkisforsjárkerfi í landbúnaði. Ef hér væru við völd stjórnvöld sem tækju ákvarðanir um nauðsyn þess að taka upp veiðileyfagjald fyrir veiðiheimildirnar, ef hér væri búið að koma á miklu víðtækari einkavæðingu á fjármagnsmarkaðnum, í bankakerfinu. Þetta eru skipulagsumbætur. Vafalaust mætti nefna vinnumarkaðinn líka. Á hverju hafa þær strandað? Þær hafa strandað vegna þess að ráðandi hagsmunaöfl, sérhagsmunaöfl, sem hafa þvílík heljartök í stjórnarflokkunum báðum telja sig hafa beinna hagsmuna að gæta af óbreyttu ástandi og það er skýringin á því hvers vegna lífskjör á Íslandi eru miklu lakari en þau ella ættu að vera.

Þess vegna er alveg dæmigert að þetta málamiðlunarfrv. sem hér er flutt milli hæstv. sjútvrh., sem er fulltrúi útgerðaraðilanna í landinu, og hins vegar hæstv. viðskrh., sem á að vera fulltrúi yngri kynslóðarinnar í Framsfl., er ekki meira en það er. Það er samkomulag um óbreytt ástand. (Gripið fram í: Sama frv. og þið fluttuð í fyrra?) Af kvöð og skyldu vegna þess að það bar okkur einfaldlega að gera. Það er alveg rétt. Af hverju er það sama frv.? Það liggur alveg í augum uppi að ekki var samkomulag milli stjórnarflokkanna að ganga miklu lengra.

Spurningin um það hvort við eigum að gera eitthvað til þess að fá erlent áhættufjármagn inn í íslenskt atvinnulíf birtist okkur m.a. vegna þess að við erum nú þegar sokknir í skuldir. Sú þjóð, sem reynir að halda sér gangandi án þátttöku erlends fjármagns, gerir það að sjálfsögðu í formi erlendra lána af því að fjármagn á Íslandi er lítið, hlutfall sparifjármyndunar í landinu er lítið og við höfum þegar gengið þá slóð á enda. Opinberi geirinn á Íslandi greiðir á ári hverju um það bil 60% af ráðstöfunarfé sínu í afborganir og vexti af erlendum skuldum. Fyrirtækin í landinu eru skuldug, heimilin í landinu eru skuldug og við erum komin á enda þeirrar vegferðar. Jafnvel þótt hér yrði tímabundið örlítill efnahagsbati sem sóttur er í Smuguna, úthafsveiðar og um eitthvert skeið í erlendri stórfjárfestingu í eitt skipti fyrir öll í formi álvers, jafnvel þótt hér yrði einhver tímabundinn efnahagsbati af því tagi, erum við í þeirri stöðu að afrakstur efnahagsbatans á í raun og veru allur að fara í að greiða niður erlendar skuldir og verður að gera það fremur en standa undir bættum lífskjörum. Sá er reginmunurinn á okkur og Norðmönnum sem á síðasta ári greiddu upp allar erlendar skuldir sínar, auðlindaþjóðfélagið norska og okkur sem höfum haldið áfram að hlaða upp skuldum bæði í góðæri og eins þegar á móti blæs. Það er í ljósi þessarar reynslu sem við hljótum einfaldlega að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hvers vegna ættum við ekki í fyrsta lagi að reyna að framkvæma þær skipulagsbreytingar sem þarf til þess að íslenska efnahagsumhverfið verði eins opið, eins frjálslegt og eins nútímalegt eins og þjóðirnar í kringum okkur eiga að gera? Í annan stað hvers vegna ættum við ekki að sækjast með virkum hætti eftir erlendu fjármagni og erlendri tæknikunnáttu og samstarfi í markaðsmálum eins og allar aðrar þjóðir eru að gera í kringum okkur? Er ástæðan sú að við erum verstöð og við verðum að útiloka það fyrir sjávarútveginn sérstaklega? Svarið við því er nei. Við erum ekki að taka neina áhættu með því að stíga stærri skref en við höfum gert í því efni. Við ættum satt að segja á þessum tíma að líta á þjóðfélagsumbæturnar sem framkvæmdar hafa verið í Austur-Evrópu sl. fimm ár, í sumum þessara þjóðfélaga með miklu meiri hraða en nokkuð það sem hér hefur sést. Þeir eru komnir lengra í mörgum þessara þjóðfélaga í að stokka upp þjóðfélag sitt og efnahagskerfi en við.

Við erum í alþjóðavæddu samfélagi þar sem spurningin um það hvort þjóðir dragast aftur úr eða hvort þær eiga að gera sér vonir um að geta haldið sínum hlut er ekki hvað síst um þetta. Ekki bara um aðgang að erlendu fjármagni heldur um þær skipulagsreglur að hér sé raunverulega heilsteypt markaðskerfi þar sem markaðskerfi ríkir í stað leifanna af gamla skömmtunarkerfinu með ríkisforsjánni og boðunum og bönnunum. Þetta er ekki hvað síst sjónarmið manna sem gera sér grein fyrir því að ef við viljum standa undir velferðarþjónustu á Íslandi sem rís undir nafni og ef við viljum af pólitískum og siðferðilegum ástæðum ekki aðeins halda til jafns við aðrar þjóðir í lífskjörum heldur einnig tryggja aukinn jöfnuð í lífskjörum þá verðum við að koma þessari efnahagsvél í gang vegna þess að þar verða til þau verðmæti sem við getum ekki sótt annað til þess að borga reikninga velferðarþjóðfélagsins.

Virðulegi forseti. Það er mjög algengt meðal Íslendinga að ræða samskiptin við útlendinga fyrst og fremst út frá sjónarmiðinu: Hvað er að varast? Hverjar eru hætturnar? Þess vegna er fróðlegt að líta á umfjöllunina sem ég vitnaði til áðan, þ.e. þessarar ítarlegu greinar um erlenda fjárfestingu á Íslandi eftir Jón Óskar Þorsteinsson en hann telur þar upp jákvæð og neikvæð áhrif. Meðal hinna jákvæðu áhrifa má nefna, með leyfi forseta: Aukið fjármagn og aukna fjármagnsmyndun, aukna atvinnu, innflutning á framleiðslu og stjórnunartækni nýrri, aukna samkeppni, jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð, markaðsaðgengi, aukna fjölbreytni í útflutningi, framþróun í landshlutum.

Meðal neikvæðra áhrifa, sem ber að skoða og kanna, getur verið um að ræða of mikil áhrif eins erlends aðila af því að þjóðfélagið er smátt. Getur verið um að ræða minni samkeppni ef um er að ræða fyrirferðarmikinn aðila sem hefur einhvers konar einokunaraðstöðu, tæknileg bönd, óæskileg menningaráhrif, arður fari úr landi o.s.frv. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þegar menn kynna sér þessa þætti og meta það sem jákvætt er í samanburði við það sem er að óttast eru hin jákvæðu áhrif yfirgnæfandi enda bendir reynsla allra annarra þjóða alveg eindregið til þess.

[17:15]

Að lokum, virðulegi forseti. Sjónarmið okkar jafnaðarmanna eru að sjálfsögðu kunn í þessu efni. Við höfum allt frá tímanum um 1960 verið fulltrúar þeirra stjórnmálaafla á Íslandi sem hafa viljað ganga lengst í frjálsræðisátt við þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs og höfum sýnt það í verki í hverju stórmálinu á fætur öðru. Við erum þess vegna afar jákvæðir gagnvart þeim breytingum að opna þjóðfélag okkar meira en verið hefur fyrir erlendu fjármagni. Það hefur þegar komið fram í þessum umræðum að stjfrv. sjálft gengur allt of skammt. Það er ekkert annað en einfaldlega málamiðlum fulltrúa sérhagsmunaaðila um staðfestingu á óbreyttu ástandi. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar eru engin sóknarfæri í því. Það er bara stimpill á óbreyttu ástandi. Það gengur ekki nógu langt.

Það er ástæða til að spyrja: Er einhver tæknileg eða efnahagsleg ástæða til fyrir því að við þurfum að setja takmörk sérstaklega að því er varðar sjávarútveginn? Hér tala menn um 20% eða 49%. Að sjálfsögðu ber að staldra við það hvort menn eigi að viðhafa almenna varúðarreglu, þ.e. við eigum að opna landið og við viljum feta þessa slóð í áföngum og setjum okkur því af pólitískum ástæðum þá varúðarreglu að segja: Við áskiljum okkur meiri hluta innlendra aðila íslenskra ríkisborgara og meirihlutaeign í fyrirtækjum. Eru einhverjar tæknilegar ástæður fyrir því að við ætlum að fara þar eitthvert millibil? Út af fyrir sig er það ekki. Ég geri ráð fyrir því að það sé bara eðlilega sagt eins og fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar að hann hafi sagt: Þetta er bara almenn varúðarregla sem við skulum skoða í ljósi reynslunnar þegar á reynir síðar. Ég er út af fyrir sig sammála því. Það eru engin tæknileg rök eða efnahagsleg rök fyrir því að setja þessu sérstakar skorður. Það kann að vera skynsamlegt út frá bara almennu varúðarsjónarmiði vegna þess að þarna erum við að reyna að fitja upp á breytingum og meta þær svo í ljósi reynslunnar. Þess vegna munum við í efh.- og viðskn. fyrst og fremst beina umræðunni að því hver þörf sé á því að setja slík takmarkandi ákvæði og hvort það er þá eitthvað sem er okkur hulið á þessari stundu sérstaklega sem mælir með því að þau takmarkandi áhrif séu skilgreind við meirihlutaeign eða eitthvert annað hlutfall.