Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 17:19:02 (2899)

1996-02-12 17:19:02# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[17:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nokkur tímamótaumræða sem hér fer fram af ýmsum ástæðum, bæði hvað varðar innihald og form. Satt best að segja er nokkuð óvenjulegt að hér skuli vera rædd saman í kippu þrenns konar frumvörp. Það er í fyrsta lagi stjfrv. sem var lagt fram án nokkurra fyrirvara af einu eða neinu tagi, þ.e. sem venjulegt stjfrv. stutt af báðum stjórnarflokkunum. Í öðru lagi er rætt frv. stjórnarandstæðinga með stjfrv. og það er fremur óvenjulegt en þó kannski ekki einsdæmi en ég hygg að það sé algert met að í þriðja lagi er svo rætt hér frv. sem fjórir hv. þingmenn úr stjórnarliðinu flytja, úr flokki sjútvrh., sem er ekki bara stigsmunur á og stjfrv. heldur eðlismunur. Það að þetta skuli allt tekið saman í kippu eru held ég mikil tímamót, herra forseti. Maður spyr sig að því hvaða fordæmi þetta gefur í þingstörfunum. Er það þar með svo að við stjórnarandstæðingar megum almennt treysta því að frumvörp okkar verði tekin til umræðu með stjórnarfrumvörpum ef þau fjalla um sama efni? Er okkur t.d. óhætt að treysta því að öll frumvörp okkar um tekjuskatt og eignarskatt verði alltaf tekin til umræðu um leið og stjfrv. á því sviði? Ég held að þetta geti verið nokkuð góð tíðindi fyrir stjórnarandstöðuna og þar með lýsi ég yfir vissri ánægju með það að þetta nýmæli og þessi tíðindi eru uppi.

Óhjákvæmilegt er að vekja athygli á þessari sérkennilegu stöðu í ríkisstjórnarsamstarfinu og þegar það bætist svo við að fram hefur komið að hæstv. viðskrh. var ekki látinn vita af því að hópur þingmanna úr samstarfsflokknum hygðist flytja frv. um allt annað efni á þessu sviði, ekki einu sinni aðvaraður af ráðherrum samstarfsflokksins, heldur birtist þetta bara á borðunum í þinginu. Þetta er með ólíkindum og maður spyr sig hvernig andrúmsloftið hljóti að vera á stjórnarheimilinu í þessu sambandi.

Enn kostulegra er það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vakti athygli á áðan í umræðum um fundarstjórn forseta að einn af flutningsmönnum í hópi stjórnarliða er formaður efh.- og viðskn., sérstakur trúnaðarmaður stjórnarflokkanna á því sviði, er flutningsmaður að frv. sem gengur í allt aðra átt en stjfrv. Hverjar verða áherslur hv. þm. Vilhjálms Egilssonar? Þykir hann ekki trúr sannfæringu sinni að reyna að berja sínu máli brautargengi í nefndinni og verður þá ekki stjfrv. næsta munaðarlaust inni í hv. efh.- og viðskn.? Þó er aldrei að vita nema einhverjir skynsamir menn taki það upp á arma sína og kem ég að því síðar.

Herra forseti. Ég held að þessi kostulega uppákoma sé næsta einstæð þegar það bætist við að þeir stjórnarþingmenn fjórir ganga býsna langt í þessu efni. Þeir leggja í reynd til að útlendingum verði heimiluð ráðandi staða í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum ef svo ber undir. Það liggur í hlutarins eðli að ef einn einstakur fjársterkur aðili á 49% hlutafjár í fyrirtæki á móti dreifðri aðild meðeiganda getur hann verið gersamlega ráðandi aðili í fyrirtækinu. Sumir vilja meina að ónefnt flutningafyrirtæki í landinu hafi ráðandi undirtök í ónefndu flugfélagi með því að þeir eiga 34%, eru yfir samþykktum og hafa þá stöðu að eiga þetta móti dreifðri aðild fjölmargra aðila, það þurfi jafnvel ekki meira til. Oft er í samkeppnislöggjöf erlendis miðað við þessi mörk frekar en helming.

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þá meginhugsun sem liggur að baki stjfrv. Ég tel að það sé tiltölulega skynsamlega í það farið eins og þar er lagt til að taka á því vandamáli sem uppi er og er ekki gott til afspurnar. Það ríkir ólögmætt ástand í fjölmörgum tilvikum sem við vitum öll að er þó nokkur óbein eignaraðild í íslenskum sjávarútvegi í veiðum og frumvinnslu og er ekki við öðru að búast í því umhverfi sem við störfum í dag með frelsi fjármagnshreyfinga milli landa og fjárfestingarfrelsi erlendra aðila í efnahagslífi okkar. Þetta er auðvitað ekki gott og engum til sóma að þetta ástand hefur varað nú um nokkurra ára skeið. Það er löngu tímabært að taka á því með því að setja skynsamlegar og hófsamlegar reglur sem gera ráð fyrir því að tiltekin slík óbein eignaraðild geti átt sér stað. Ég hygg að menn líti almennt ekki á hana sem vandamál og það hvar menn draga akkúrat þau mörk er umræðuefni út af fyrir sig. Frv. leggur til að þar verði miðað við 25% í óbeina eignaraðild útlendinga í öðrum lið gegnum einn innlendan lögaðila.

Ég held að það sem skipti langmestu máli í umræðum um þessi mál sé að menn reyni að glögga sig svolítið á framtíðinni, hver sé líkleg þróun þessara mála og hver yrði möguleg afleiðing af því að útlendingar kæmu með umtalsvert fjármagn inn í veiðar og frumvinnslu íslenskra sjávarafurða. Ég held að það gerist engin ósköp í núinu og hef ekki miklar áhyggjur af því. Ég spyr mig að því hver þróunin gæti orðið. Liggja hættur í því máli fyrir þróunina til lengri tíma litið að erlent fjármagn komist til áhrifa gagnvart uppsprettu þessara verðmæta og nýtingu auðlindarinnar sjálfrar. Þar liggja þeir þættir sem ég tel að við eigum að varast og vera á varðbergi gagnvart, ekki í því að samstarf við erlenda aðila af ýmsu tagi í sjávarútvegi og t.d. samstarfsfyrirtæki með erlendum aðilum á sviði frumvinnslu og markaðsmála geti ekki verið af hinu góða. Lögin og frv. gera reyndar ráð fyrir því að slíkt verði heimilt. Þar held ég að sé eftir miklu að slægjast. Þar geti einmitt legið þeir álitlegu möguleikar sem menn hafa verið að gera dálítið að umtalsefni. En ég held að það sé misskilningur að við Íslendingar þurfum á einhverri sérstakri hjálp að halda við að gera það sem við gerum sannanlega betur en nokkur önnur þjóð í heiminum og það er að veiða fisk. Þar eru satt best að segja ekki margir sem geta kennt okkur mikið, a.m.k. ekki hvað varðar afköst og tækni við veiðar á miðum okkar. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Hitt er ljóst að á ýmsum framhaldsstigum í ferlinu getum við notið mjög góðs af samstarfi við útlendinga og það eigum við að nýta okkur. Það eru ýmsir álitlegir kostir fyrir okkur varðandi fjárfestingar í þessari grein á alþjóðavísu. Ég held að í sambandi við það hvort hér sé ekki þörf á að ganga hægt um gleðinnar dyr sé ástæða til þess að spyrja sig að því hvaðan fjármagn gæti komið inn í veiðar og frumvinnslu íslenskra sjávarafurða ef það kæmi og í hvaða tilgangi. Þar liggur í raun og veru hundurinn grafinn. Ég segi ,,ef`` því að ég er ekki að fullyrða að það kæmi einhver holskefla erlendrar fjárfestingar inn strax þó að það væri opnað fyrir það. Við skulum þar af leiðandi einfaldlega ræða þetta út frá þeim fyrirvara. En ef það kæmi, hvaðan er líklegt að það kæmi? Hverjir gætu haft áhuga á því að koma inn í íslenskan sjávarútveg, sérstaklega inn í veiðarnar? Jú, þeir sem hefðu augastað á þessari hráefnisuppsprettu, þeir sem sæju sér hugsanlega hag í því að komast til áhrifa gagnvart því hvernig þetta hráefni yrði meðhöndlað og hvert því yrði beint til frekari vinnslu og verðmætisauka. Ég fullyrði að mikil misskilningur kemur fram í greinargerð með frv. hv. þingmanna Ágústs Einarssonar og Svanfríðar Jónasdóttur þar sem segir að engin ástæða sé til að ætla annað en útlendingar sem vilja eignast lítinn hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum séu fyrst og fremst að hugsa um arð af fjárfestingu sinni. Ég óttast mjög að lítið mundi fara fyrir hlutlausri erlendri fjárfestingu sem ætlaði sér ekkert annað með fjárfestingunni hér en arð af fénu. Ég óttast að það yrði ekki mikið um það.

Til marks um það nefni ég afkomuna í íslenskum sjávarútvegi og arðsemi eigin fjár sem hefur verið bundið í íslenskum sjávarútvegi að undanförnu og er því miður allt of lítið. Menn telja það miklar upphæðir þegar stærstu íslensku sjávarútvegsfyrirtækin eru að hagnast um hundruð eða 150 millj. kr. en hvað er það í hlutfalli við veltu og eigið fé sem í þeim er bundið? Það er ekki líklegt að erlendir fjárfestar sem væru eingöngu að hugsa um arðsemina standi á höndum út af því. En ef þessir erlendu fjárfestar hefðu annað í huga, ef þetta væri til að mynda erlendir vinnsluaðilar, við skulum segja á meginlandi Evrópu sem ofan í kaupið njóta ríkisstyrkja og styrkja úr sjóðum Evrópusambandsins, eru hungraðir í hráefni, vantar hráefni, þá getur málið farið að líta öðruvísi út. Þá geta aðrir hagsmunir komið til sögunnar sem réttlæta fullkomlega það að kaupa sig inn til áhrifa í íslensk fiskveiðifyrirtæki og fyrirtæki sem ættu myndarlegan kvóta, 20--30 þús. þorskígildi. Þau geta verið býsna spennandi fjárfestingarkostur fyrir slíka aðila sem á hálftóma ríkisstyrkta fiskvinnslu úti á meginlandi Evrópu.

Við skulum hugsa okkur í öðru lagi að þessi erlendi fjárfestingaraðili væri fiskmarkaður eða samtök um fiskmarkaði eða fjármagn á bak við fiskmarkað á meginlandi Evrópu eða á Humber-svæðinu í Bretlandi þar sem það er mikið hagsmunamál viðkomandi reksturs, viðkomandi byggðarlags að ná auknu hráefni gegn. Þekkja menn það ekki?

[17:30]

Við skulum hugsa okkur í þriðja lagi að þessi aðili væri fjársterk erlend höfn eða aðilar á bak við rekstur slíkrar hafnar. Hafnirnar í Cuxhaven og Bremerhaven eru ekki nein smásmíði. Þeir senda menn á sjávarútvegssýningar og kynna starfsemi sína og bjóða mönnum til viðskipta. Þeir hafa reyndar gert meira, þeir ágætu menn. Ég kem að því síðar.

Við skulum hugsa okkur í fjórða lagi að hinn erlendi aðili væri ekki fjárfestingarfélag, banki eða eitthvað því um líkt, heldur væri þetta matvælahringur, mjög stór og öflugur, svo stór og öflugur að hann velti margföldum íslenskum fjárlögum, svo stór og öflugur að hagnaðurinn á fyrsta ársfjórðungi sé nóg til þess að kaupa upp fjögur stærstu íslensku sjávarútvegsfyrirtækin með húð og hári, taka þau í nefið án þess að hnerra. Þá gæti dæmið snúið öðruvísi við. Þessi aðili getur átt hagsmuna að gæta í því að tryggja sér aðgang að einhverju besta fáanlega hráefni í heiminum inn í sína vinnslu. Auðvitað getur vel verið að hann komist að þeirri niðurstöðu að það sé hagkvæmt að vinna vöruna á Íslandi en það er ekkert sjálfgefið í því. Um leið og hann hefði tangarhald á hráefninu ræður hann því í gegnum ákvarðanir stjórna viðkomandi fyrirtækja. Þó að það séu íslensk fyrirtæki að nafninu til skráð hér og jafnvel að 51% í innlendri eigu gæti hinn erlendi hluti fullkomlega nægt til þess að ráða ferðinni í slíkum málum.

Við gætum haldið áfram með þessi dæmi. Við skulum hugsa okkur í fimmta og síðasta lagi að hinn erlendi fjárfestingaraðili væri keðja af fyrirtækjum í sjávarútvegsvinnslu og dreifingu í Japan. Gæti það ekki verið býsna freistandi fyrir slíka aðila að komast inn í nokkur stykki af kvótasterkustu tegundunum af loðnu og síld?

Við getum líka spurt okkur, herra forseti, hvar er líklegt að hið erlenda fjármagn ef til sögunnar kæmi að það yrði ekki á ferðinni? Ég held að það yrði ekki á ferðinni í gustukaskyni til þess að bera tapið af hefðbundinni íslenskri landvinnslu eins og hún er rekin í dag. Ég held að það sé ægilegur misskilningur hjá flutningsmönnum frv., hv. þm. Kristjáni Pálssyni og félögum að það sé líklegt að erlent fjármagn streymi inn í íslensk frystihús til þess að hækka kaupið hjá fiskvinnslufólkinu eins og látið er að liggja í greinargerð með frv. og 1. flm. sagði beinlínis í útvarpinu í morgun. Ég held að sé óskaplegur misskilningur að útlendingar bíði í röðum með peninga í buddunni til þess að hækka kaupið í íslenskum fiskiðnaði. Það er ekki þannig. Erlenda fjármagnið færi ekki þangað að mínu mati. Áhuginn yrði fyrst og fremst á því að fjárfesta í veiðunum, að komast sem næst uppsprettunni sjálfri og geta haft áhrif á meðferð mála.

Þannig er það, herra forseti, það er spurningin um þróunina í kjölfarið sem mestu máli skiptir. Íslenskir heildarhagsmunir í þessu dæmi snúast fyrst og fremst um eitt: Það er að tryggja að þróunin og uppbyggingin í íslenskum sjávarútvegi verði þannig til lengri tíma litið að verðmætisaukinn sé á hverjum tíma hámarkaður innan lands. Það sé unnið eins mikið úr vörunni og hægt er hér heima og það sé gerður eins mikill verðmætisauki úr viðskiptunum og nokkur kostur er í þágu íslenskra hagsmuna en ekki erlendra. Til þess að geta haft áhrif á þessa þróun megum við ekki missa vissa hluti út úr höndunum á okkur. Hér er ekki lítið í húfi, ein meginundirstaða efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar er hér á ferðinni. Það er ósambærilegt að tala um þessa hluti eins og tvær hliðar á sama peningnum, þ.e. annars vegar sjávarútveginn á Íslandi og hvaða reglur við reynum að hafa um hann og hins vegar fjárfestingar okkar í sjávarútvegi erlendis vegna þess að þar sem við erum að fjárfesta er sjávarútvegurinn allt önnur atvinnugrein í þeim löndum en sjávarútvegurinn er hér. Þar er hann víðast hvar aukabúgrein, jafnvel ríkisstyrkt aukabúgrein sem menn eru yfirleitt dauðfegnir að fá erlenda samstarfsaðila með sér til þess að reyna að lappa upp á reksturinn. Er ekki ástæðan fyrir því að Íslendingar eru komnir inn í sjávarútveg víða erlendis að sá rekstur var á hnjánum? Þýsku einkavæðingarfyrirtækin voru auðvitað dauðfegin því að fá samstarfsaðila á móti sér sem höfðu eitthvert vit á sjávarútvegi í nútímaumhverfi og í markaðshagkerfi. Hver er ástæðan fyrir því að Íslenskar sjávarafurðir eru komnar inn í rekstur á Kamtsjatka? Ástæðan er sú að menn voru í þrot með þann rekstur. Menn komu skipunum ekki út og þeir þurftu að fá bæði fjármagn, þekkingu, aðstoð og hjálp til þess að geta rekið þann sjávarútveg í nútímaumhverfi. Þær aðstæður gilda ekki hér, eða er það? Það er sem betur fer ekki þannig ástatt í sjávarútvegi okkar. Sjávarútvegurinn eru kolanámur Íslands. Hann er eins og skógar Finnlands eða einhver önnur sambærileg undirstöðuauðlind í atvinnulífi okkar og þess vegna er ekki hægt að leggja það að jöfnu að mörgu leyti við aðra hluti.

Með þessu er ekki verið að tala gegn erlendri fjárfestingu í sjávarútveginum sem slíkum og það er misskilningur sem hér bar aðeins á í máli framsögumanna frumvarpanna að svo sé. Við erum ekki að því. Við erum hins vegar að draga ákveðna markalínu um það hvar við viljum hafa þá fjárfestingu. Með þessu er ekki verið að reka einangrunarstefnu eða leggjast gegn því að íslenskur sjávarútvegur alþjóðavæðist sem slíkur enda er hann að því á fullri ferð og hefur þó þetta fjárfestingarbann verið algert þannig að það hefur ekki staðið honum fyrir þrifum. Út af fyrir sig breytir stjfrv. sem löggildir tiltekna óbeina eignaraðild ekki miklu, það er alveg hárrétt. En það er þó a.m.k. mun þrifalegra að hafa reglurnar þannig úr garði gerðar að þær taki á því ástandi sem við búum við.

Ég held því að menn megi enn að því hyggja hvað íslenska hagkerfið er agnarsmátt þegar verið er að ræða um þessa hluti. Íslensku sjávarútvegsfyrirtækin sem okkur er tamt að líta á frá okkar sjónarhóli sem risa og stórar einingar eru agnarsmáar, eru pínulítil og mega sín í sjálfu sér mjög lítils ef út í það er farið, hvað efnahagslegt bolmagn og styrk snertir. Ég get aftur vitnað til dæmis til stóru matvælahringanna sem ráða lögum og lofum þrír eða fjórir talsins á meginlandi Evrópu og að miklu leyti í Bandaríkjunum.

Herra forseti. Ég held að það séu kannski tvær efnislegar meginundirstöður fyrir efnahagslífi þjóðarinnar sem okkur ber nauðsyn til að halda skynsamlega utan um öllu öðru fremur og það eru fiskimiðin og orkan. Fyrir utan fólkið sjálft og þekkinguna held ég að þetta sé það mikilvægasta fyrir okkar framtíðarhagsmuni og er þar ekki verið að gera lítið úr svo mörgu öðru sem dafnar og blómgast sem betur fer enda nefni ég þetta hina efnislegu undirstöðu eða auðlindir sem stundum eru kallaðar. Þetta frv. snýr reyndar líka að orkumálunum með tilteknum hætti. Það verður að segjast alveg eins og er að því miður hafa menn ekki unnið heimavinnuna sína. Því miður hefur ekki verið farið í þá lagasetningu sem hefur þó verið lofað sem tryggir stöðu okkar og þjóðareign á orkulindunum, sem er auðvitað eina vitið, eins og gengið er frá þessu gagnvart fiskimiðunum. Það er ekkert annað hægt en hvetja til þess að menn hysji upp um sig í þeim efnum. Ég held að hæstv. iðnrh. og viðskrh. hafi ekkert annað þarfara að gera í vetur en að drífa þessa vinnu áfram þannig að það frv. geti helst orðið samferða þessu hér, líka vegna þess að þeir fyrirvarar sem gengið var frá í samningnum um EES hafa fallið niður nú um áramótin.

Ég held að það sé eins með orkuna og fiskimiðin að áhugi erlendra fjárefsta gæti vel beinst að því að komast nálægt orkunni ef menn kæmust að þeim krana. Það skyldi ekki vera að þeir sælu Irving-feðgar, sem þjóðinni var talin trú um að blóðlangaði svona óskaplega til þess að reka tvær bensíndælur eða sjoppur uppi á Íslandi hefðu hugsanlega eitthvað meira í huga, þeir hefðu hugsanlega verið að kíkja á fyrirtækið Ísland hf. t.d. með orkuna í huga einhvers staðar á bak við.

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson sagði í framsöguræðu sinni um að stjfrv. eða einhver sambærilegur frágangur á málum hvað varðar óbeina eignaraðild væri óframkvæmanlegt. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að endalaust væri hægt að finna dæmi eins og hv. þm. var að taka. Einhvers staðar draga menn mörkin og þá er auðvitað líklegt að einhverjir lendi aðeins yfir þeim mörkum o.s.frv. og það koma upp slík jaðartilvik og þá er eðlilegast að taka á þeim með tilteknum sveigjanleika og aðlögunartíma að mínu mati. Hv. þingmenn leggja til 20% beina eignaraðild. Kæmi ekki upp nákvæmlega eins tilvik í því sambandi innan skamms? Ef fyrirtæki fjárfestu fyrir tilviljun hvort í sínu lagi í innlendu fyrirtæki og allt í einu væri eignaraðildin orðin 23%, er það þá eitthvað öðruvísi en eign Olís eða Texaco í Síldarvinnslunni? Ég sé það ekki sem neitt stórkostlegt vandamál þótt þessir aðilar stæðu frammi fyrir því að að tilteknum aðlögunartíma liðnum hefðu þeir orðið að samræma eign sína þessum reglum svo lengi sem þær séu skýrar, liggi ljóst fyrir og ferlið sem að þeim liggur sé klárt. Þá er mönnum engin vorkunn í slíku. Bankarnir mega ekki eiga í atvinnurekstri almennt talað en þeir hafa heimildir til þess að leysa til sín fyrirtæki til þess að gæta hagsmuna sinna samkvæmt vissum reglum og hvað gerist þá? Hvað gerist þá? Þeim ber að afsetja þá eign aftur samkvæmt tilteknum reglum og hafa til þess tiltekinn tíma. Svo einfalt er það. Með nákvæmlega sama hætti er hægt að ganga frá slíkum jaðartilvikum sem koma upp og menn eru að drepa málinu á dreif með því að gera úr því eitthvert óskaplegt vandamál. Ég lít ekki svo á að svo sé.

Vissulega er hægt að taka dæmi af því tagi sem hér voru tekin í gegnum olíufélögin, Olís og Skeljung, og sýna fram á að það er ekki endilega þar með fullt samræmi í hinni eiginlegu erlendu eign þegar reglur af þessu tagi eru settar. Að Texaco eigi 33% í Olís, svo að notuð séu dæmin sem hv. þm. var með, síðan aftur 7% í Síldarvinnslunni og þar með sé það ekki nema 2% eiginlega erlend eign er út af fyrir sig rétt og reiknað svo það dæmi út að fyrirtæki sem lendir rétt niður fyrir 25% mörkin, á 24% í innlendum lögaðila eða 17% eins og er víst í tilviki Skeljungs en á svo sjávarútvegsfyrirtæki að fullu, sé þá með meiri raunverulega erlenda eign og þá það. En þetta er óhjákvæmileg afleiðing af því að draga einhvers staðar mörkin. Og hv. flm. eru sammála því að það verði að draga mörkin einhvers staðar. Hv. þingmenn hafa valið að gera það við 20% af beinni eignaraðild. Sú rökræða öll sömul er á sínum stað þannig að ég held að hv. þm. hafi þar lent í ógöngum að ætla að fara að drepa stjfrv. með því að segja að svona mörk af einhverju tagi sköpuðu alls konar vandamál, einhver lendi fyrir ofan og einhver fyrir neðan en mæla svo í framhaldinu fyrir öðru frv. sem kveður á um tiltölulega sambærileg mörk, að vísu bara um beina fjárfestingu í staðinn fyrir óbeina.

Ég var búinn að ræða þá fullyrðingu hv. flm. frv. á þskj. 547 að erlendar fjárfestingar í veiðum mundu sérstaklega lækna erfiðleika fiskvinnslunnar eins og þeir standa nú um stundir og ætla ekki að hafa um það fleiri orð.

Ræða formanns Alþfl., hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, var stórkostlega skemmtileg í ljósi þess að hv. þm. er nýkominn út úr ríkisstjórn sem ég man ekki hvort frekar tvisvar eða þrisvar heldur en einu sinni lagði fram nánast nákvæmlega sams konar stjfrv. og hér hefur verið mælt fyrir af hæstv. viðskrh. Þá hlýtur hugur að hafa fylgt hugur máli hjá jafnheilsteyptum flokki og Alþfl. að styðja slíkt frv. Ég er að vona að ekki hafi verið upplýst að Alþfl. hafi staðið að því máli algerlega gegn betri samvisku, betri vitund. Ég hélt að það gerðist ekki í þeim merka flokki að menn opinberuðu slíkt þannig að þetta var hin skemmtilegasta leikflétta eða hinn fallegasti kollhnís sem hv. þm. fór hér. Rökfimi hans var mikil þegar hann útskýrði að auðvitað hefði Alþfl. alltaf einarðlega barist fyrir öðrum hlutum þó hann hefði að vísu staðið að því að leggja fram þetta stjfrv. um nákvæmlega þennan frágang á málinu. Mikið meira er ekki um það að segja, satt best að segja.

Herra forseti. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt að fara fram hófsamlega og með gát. Við erum nánast með meginfjöregg þjóðarinnar í höndunum. Það er svo, hversu oft sem menn ræða um mikilvægi þess að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnulífi, að sjávarútvegurinn er enn að afla um 80% gjaldeyristeknanna fyrir vöruútflutning og um 55% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar í heild. Það hlýtur því að liggja í hlutarins eðli að menn fari varlega gagnvart breytingum á starfsumhverfi slíkrar greinar og ég tala ekki um ósköpin þegar á spýtunni hangir aðgangur að mikilvægustu auðlind landsmanna.

[17:45]

Rétturinn til að nýta fiskimiðin umhverfis landið, sem við höfum barist harðri baráttu fyrir að helga okkur í gegnum tíðina, er mönnum væntanlega fyrst og fremst hugleikinn. Hvað með vinnsluna? Er ekki nóg að binda þetta við veiðarnar? Þá kemur að þeirri staðreynd, herra forseti, að yfirgnæfandi meiri hluti stærri fyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi eru blönduð. Þau stunda bæði veiðar og einhverja vinnslu sjávarafurða og einhvern tíma var sagt að nota sem viðmiðun að 70% útgerðarinnar væri annaðhvort í tengslum í sömu fyrirtækjum og stunduðu fiskvinnslu eða í beinum tengslum við fyrirtæki sem stunduðu fiskvinnslu. Þar af leiðir að það er hægara sagt en gert að skilja þarna á milli. Ég er því þeirrar skoðunar að sú skilgreining sem lögin um stjórn fiskveiða, sem fyrirvarinn í EES-samningnum og sem stjfrv. gengur út frá, sé skynsamleg. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta sé eina færa leiðin, þetta séu einu landamærin sem hægt er að nota í þessu sambandi. Augljóslega er ekki hægt að draga slíka takmörkun þvert í gegnum efnahagsreikning fyrirtækjanna eða í gegnum miðjuna á þeim ef þau stunda bæði veiðar og vinnslu. Þau þjóðhagslegu rök eru líka fyrir þessu að mínu mati að við eigum miklu meiri möguleika og það er eftir miklu meiru að slægjast í framhaldsferlinu. Þar held ég að þekking og reynsla og jafnvel fé útlendinga geti nýst okkur, ýmist til uppbyggingar hér heima eða erlendis í samstarfsfyrirtækjum eins og enn er að gerast. Það er ekki nýtt að Íslendingar byggi upp annaðhvort algerlega á eigin vegum eða í samstarfi við aðra slík fyrirtæki bæði innan lands og utan.

En mikilvægast af öllu í er spurningin um þróunina í þessum efnum. Það er mjög auðvelt að benda á hættu sem gæti falist í því að erlendir hagsmunir og erlend sjónarmið kæmust þannig til áhrifa varðandi þróun og uppbyggingu greinarinnar til framtíðar litið að aðrir hagsmunir en þeir og þeir einir sem ég tel að eigi að leggja þarna til grundvallar ráði ferðinni. Þeir myndu ætíð hámarka á hverjum tíma virðisaukann innan lands út úr þessari grein eða það sem fellur íslenskum aðilum í skaut vegna vinnslu hér og út af fyrir sig einnig vegna umsvifa erlendis frá sem geta skilað hingað tekjum, fært mönnum störf og skapað mönnum veruleika. Það er kannski eitt af því ánægjulegasta sem hefur verið að gerast í íslenskum sjávarútvegi upp á síðkastið á allra síðustu árum að við erum í reynd í vissri yfirfærðri merkingu þess orðs að færa landhelgina út á nýjaleik í gegnum umsvif íslenskra fyrirtækja og sölusamtaka erlendis og í gegnum veiðar íslenskra skipa á fjarlægari miðum utan efnahagslögsögunnar. Við eigum að styðja og hlúa að þróun í þá átt. Hins vegar fannst mér mikill misskilningur koma fram í máli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar að vegna þess að þjóðin væri skuldsett, sjávarútvegsfyrirtækin illa stödd og við ættum í erfiðleikum, væri tímabært að selja frá sér það dýrmætasta sem menn eiga.