Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 17:52:45 (2901)

1996-02-12 17:52:45# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég bjóst alveg við svona svörum. Ég hef svo oft áður upplifað sambærilegan þvætting og útúrsnúning að ég er þessu ekkert óvanur. Þetta er afar algeng aðferð til þess að reyna að afgreiða þá sem vilja vara við hlutum og hvetja til þess að menn fari rólega yfir málin. Ég reyndi að ræða þetta mál með rökum og mér þætti vænna um að hv. þm. hefði t.d. reynt að sannfæra mig um að áhyggjur mínar væru ástæðulausar en hann færi með þvætting og útúrsnúninga af því tagi sem hann gerði hér eða brigslyrði eins og að ég sé fyrst og fremst að ganga erinda annarlegra hagsmuna úti í bæ, ég sé senditík Kristjáns Ragnarssonar eða Þorsteins Pálssonar, hæstv. sjútvrh., eða einhverra slíkra manna.

Þegar ég reyndi að draga upp þá mynd að við reyndum að átta okkur á því hvaða hagsmunir og hvaða hvatir gætu stýrt þróuninni til lengri tíma litið þegar fjárfesting erlendra aðila, sem horfðu á hlutina og ættu annarra hagsmuna að gæta en þeirra sem við þurfum að passa upp á, hámarka virðisaukann innan lands. Hver urðu þá svör hv. þm.? Engin önnur en að fara með brigslyrði. Þetta er lágkúrulegur málflutningur og dæmir sig sjálfur og ég þarf ekki að hafa um hann fleiri orð.

Ég þarf ekki að svara því hvort einhver samstaða eða áskorun um stöðnun í íslenskum sjávarútvegi felist í afstöðu af mínu tagi. Það er svo hlálegt. Sjútvn. Alþingis var í morgun í heimsókn hjá Íslenskum sjávarafurðum. Ég held að sú heimsókn hafi ekki gefið okkur þá tilfinningu að stöðnun ríkti í íslenskum sjávarútvegi, að það væri alger stöðnun vegna þess að frv. hv. þm. væri ekki komið fram. Þeir minntust ekki mikið á að það stæði þeim fyrir þrifum (Gripið fram í: En veiðileyfagjaldið?) né þeim aðilum sem þeir starfa fyrir. Þvert á móti var þar allt á fullri ferð og flestir starfsmenn með tvo síma við eyrun því að það er svo mikið að gera í loðnufrystingunni. Ég held að málflutningur af þessu tagi, herra forseti, dæmi sig sjálfur. Ég þarf ekki aftur í andsvar.