Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 17:56:20 (2903)

1996-02-12 17:56:20# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[17:56]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti áðan ágæta ræðu. Kannski kom ekki margt á óvart miðað við það sem ég hef heyrt frá honum í dag að hann er einfaldlega á móti því að leyfa beina aðild að sjávarútvegi í gegnum erlenda aðila. Mér fannst eima dálítið af sambærilegum málflutningi og maður heyrði úr sölum Alþingis þegar rætt var um inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið, þegar rætt var um að við mundum missa dalina okkar, fjöllin og fossana til útlendinga vegna þess að þeir mundu strax koma og kaupa þetta og við sætum eftir slyppir og snauðir. Sama virðist mér vera þegar talað er um þetta frv. um að heimila 49% beina aðild, að þá séu komnir hingað matvælahringar, hafnir, markaðir og japanskir aðilar til að kaupa upp allan kvótann og allar veiðiheimildir.

Mér finnst sorglegt að umræðan skuli þróast svona því að ekkert bendir til þess í reynslusögu Íslendinga í samskiptum við erlenda aðila að þeir mundu haga sér svona þó að þeir gætu. Þeir gátu hugsanlega haft þessa stöðu með Evrópska efnahagssvæðinu en það er ekki hægt að sjá það neins staðar í þeim samskiptum að þeir séu að reyna það. Í 70 ára sögu þeirra laga sem giltu allt frá árinu 1922 til 1971 þar sem erlendir aðilar höfðu heimild til þess að eiga 49,9% í útgerðarfyrirtækjum virtist ekkert benda til þess að þeir hefðu hug á því að sölsa undir sig útgerð á Íslandi með einhverjum annarlegum hætti. Ég held því að öll rök og reynsla okkar af samskiptum við þessa aðila bendi ekki til þess að við þurfum að óttast nánara samstarf. Það er eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni ein af bestu leiðunum til þess að öðlast meiri víðsýni og meiri möguleika í framtíð fjárfestingar og atvinnulífs í íslensku þjóðfélagi.