Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 17:58:54 (2904)

1996-02-12 17:58:54# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[17:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kýs að fá að svara þessari ræðu því að hún var tiltölulega málefnaleg. Ég nefndi fyrst og fremst dæmi um erlenda aðila til þess að reyna að útskýra það sjónarmið mitt að það gætu fundist erlendir aðilar, erlent fjármagn sem hefði sértækra hagsmuna að gæta gagnvart því að ná áhrifum í íslenskum sjávarútvegi, fyrst og fremst ná forræði á veiðiheimildum af hráefni. Það var það dæmasafn sem ég taldi upp. Við þurfum ekki að fara í grafgötur um að þetta er svona vegna þess að þetta hefur gerst. Vita menn ekki af því að það er mál í gangi út af því að þýskir peningar voru að reyna að lauma sér bakdyramegin inn í íslenskan sjávarútveg --- til hvers? Hvaðan voru þeir? Þeir voru af því tagi sem ég nefndi. Það voru þýskir aðilar sem vildu ná sér í og tryggja sér hráefni í sína þágu þannig að reynslan talar skýru máli í þessum efnum.

[18:00]

Ég er þeirrar skoðunar ef um væri að ræða það sem kalla mætti fjárfesta eða hlutlaust erlent fjármagn sem kæmi inn í íslenskan sjávarútveg á hreinum arðsemisforsendum þá gegndi það allt öðru máli. Ef þeir aðilar væru fjárfestar sem ættu engra hagsmuna að gæta í sjávarútvegi, úrvinnslu eða dreifingu sjávarafurða á heimsmarkaði væri sú hætta ekki fyrir hendi sem ég vara hér við. Enda væri þá ekki ástæða til að ætla annað en hinir erlendu aðilar vildu fyrst og fremst gera þetta vegna þess að þeir vildu hafa arð af fé sínu. Ég óttast hins vegar að slíkir aðilar kæmu því miður ekki og það segir auðvitað sína sögu. En síðan sakna ég þess og kannski kemur að því síðar í umræðunni að hv. þm. Kristján Pálsson upplýsi okkur betur um það hverjir þessu erlendu aðilar eru sem naga þröskuldinn og bíða eftir því að komast inn til þess að hækka kaupið á Íslandi.