Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:01:11 (2905)

1996-02-12 18:01:11# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:01]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni varðandi þann möguleika að hægt væri að hækka kaup íslensks fiskverkafólks með því að fá erlenda aðila inn í landið og fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að það mundi fyrst og fremst gerast þannig að hægt væri að auka eigið fé fyrirtækjanna, styrkja stöðu þeirra fjárhagslega. Við gætum opnað fyrir markaðssetningu með öðrum hætti og náð þannig meiri virðisauka út úr framleiðslunni. Ég talaði einnig um að það væri fyrst og fremst í botnfiskvinnslunni sem við gætum nýtt okkur þessa möguleika. Í útgerð eða við skulum segja veiðum er ég sammála hv. þm. um það að sennilega standa engar þjóðir okkur framar á því sviði. Ég tók sérstaklega fram að við gætum líklega lært mikið af Dönum í þeim efnum. Þeir hafa getað borgað mun hærri laun en við og hafa þá trúlega fengið betri og hærri greiðslu fyrir afurðir sínar. Ég held að við höfum með ýmsum rökum bent á hvernig þetta væri hægt og íslensk alþýða og íslenskt fiskverkafólk gæti hagnast á því að erlendir aðilar kæmu inn í íslenskan sjávarútveg.