Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:02:44 (2906)

1996-02-12 18:02:44# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:02]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mun vera líffræðingur að mennt. (SJS: Nei, jarðfræðingur.) Jarðfræðingur, þar fór í verra. Ef hann hefði verið líffræðingur hefði hann skilið betur þróunarhugtakið. Hann vildi leggja það út á þann veg að það væri ósamkvæmni í því að ráðherra Alþfl., viðskrh., skyldi leggja fram þetta stjfrv. á sínum tíma en nú viljum við ganga lengra. Frv. er ekki um annað en að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar sem við sömdum um á sínum tíma, þ.e. laga þetta að EES-veruleikanum. Annað dæmi: Við sömdum um það á sínum tíma að fá fram varanlega fyrirvara varðandi fjárfestingarrétt útlendinga í sjávarútvegi. Það gerðum við einfaldlega til þess að það væri í höndum Íslendinga sjálfra að taka ákvarðanir um það hvort við vildum beita honum til hins ýtrasta eða hvort við vildum víkja frá því. Það var einfaldlega innlent ákvörðunarefni að við værum ekki seldir undir forræði annarra í því efni. Og af því að óhjákvæmileiki hægfara þróunar er sósíaldemókratískt prinsipp, hv. þm., er eðlilegt að við endurmetum það nú í ljósi reynslunnar. Nú virðist það vera svo að skoðanamyndun í landinu er smám saman að breytast, líka í þessu efni. Í stað banns, og þegar við sjáum að við getum ekki einu sinni framfylgt ákvæðum um hina óbeinu fjárfestingu sjálfir, eru menn víða reiðubúnir til að ganga smám saman lengra en við ákváðum í upphafi. Það er engin ósamkvæmni í þessu. Þetta er fyrst og fremst spurning um það hvernig við viljum halda á samningum okkar við aðrar þjóðir, áskilja okkur vald og forræði yfir hlutunum eins og við erum sammála um að við eigum að gera, bæði að því er varðar orkulindirnar og fiskimiðin. Hitt er svo annað mál að við þurfum ekki að setja þessa fyrirvara sem hengingaról um hálsinn á sjálfum okkur.