Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:07:12 (2908)

1996-02-12 18:07:12# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:07]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið eru hér til umræðu þrjú mál í senn sem öll lúta að eignaraðild útlendinga í íslensku atvinnulífi með einum eða öðrum hætti. Ég vil vekja á því athygli, herra forseti, í þessari umræðu að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa undanfarið verið ótrúlega dugleg við að sprengja af sér þau höft sem niðurskurður veiðiheimilda hefur sett þau í. Þau hafa í fyrsta lagi stefnt skipum sínum á úthafsmið og bætt sér þannig upp að hluta minni veiðiheimildir innan lögsögunnar og þau hafa einnig með slíkum veiðum, sem í sumum tilfellum er brautryðjendastarf, opnað möguleika til framtíðarveiða íslenskra skipa á viðkomandi miðum. Þau hafa í öðru lagi efnt til samvinnu við önnur fyrirtæki í greininni landshorna á milli og hafa jafnvel stofnað til nýrra til að nýta sem best bæði veiðiheimildir og fjárfestingar og þau hafa í þriðja lagi leitað út fyrir landsteinana með fjárfestingar sínar, sölu á hugviti, reynslu og þekkingu. Í kjölfarið hafa þeir íslensku aðilar í iðnaði sem á undanförnum árum hafa verið að byggja upp sérhæfðan þjónustuiðnað við sjávarútveg markaðssett og selt vöru sína og þjónustu. Það er því eðlilegt að mikið hefur verið fjallað um landvinninga íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og sölusamtaka erlendis og ljóst að ekkert lát er á dirfsku okkar manna og áræði þegar kemur að samstarfi við útlendinga erlendis og er það vel. Við höfum löngum þóst vita að íslenskt hugvit og dugnaður mætti sín nokkurs í samkeppni við erlenda aðila, ekki síst á sviði sjávarútvegs. Það leiðir hugann að fjárfestingum útlendinga hérlendis og því samstarfi sem eðlilega ætti að geta átt sér stað hér á landi á sama hátt. Sú reynsla sem íslensk fyrirtæki hafa öðlast af fjárfestingum erlendis og viðskiptum við erlend sjávarútvegsfyrirtæki gerir það að verkum að menn hafa endurmetið þá stöðu sem er hér heima og í mörgum tilfellum komist að þeirri niðurstöðu að hér væri breytinga þörf. Menn hafa þrátt fyrir þann fyrirvara sem samið var um í EES-viðræðunum komist að þeirri niðurstöðu að e.t.v. væri hann orðinn okkur myllusteinn, e.t.v. væri að lágmarki rétt að lögfesta a.m.k. þá óbeinu eignaraðild sem þegar er til staðar. Auðvitað endurspeglast þetta endurmat í því að nú liggja hér fyrir hinu háa Alþingi þessi þrjú frv. sem eru hér til umræðu.

Eins og fram hefur komið hafa fjárfestingar erlendra aðila í atvinnulífi á Íslandi verið afar litlar undanfarna áratugi og miklu minni hér en á hinum Norðurlöndunum sem við gjarnan berum okkur saman við. Fjárfestingar hafa verið alveg bannaðar í íslenskum sjávarútvegi undanfarin ár en í ljós hefur hins vegar komið að bannið heldur ekki og við því þarf auðvitað að bregðast, annaðhvort með því að leyfa erlenda eignaraðild í fyrirtækjum eða að skera upp herör gegn þeirri þróun í átt til óbeinnar eignaraðildar sem verið hefur og fylgja þá banninu eftir af fullri hörku. Til þess hafa menn ekki treyst sér og e.t.v. er eðlilegt í því samhengi að efast um að það yrði tekið á jaðartilvikunum sem rætt var um hér áðan af þeirri festu sem menn væntanlega reikna með. En af sögulegum ástæðum eins og menn þekkja hefur verið mikil tortryggni gagnvart erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Ekki síst hefur þetta átt við í sjávarútvegsfyrirtækjum. Eins og hér hefur komið fram þá tengist það eðlilega þeim hluta sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem sneri að fullum yfirráðum yfir auðlindinni. Söguleg rök í þessu máli eru ekki minna virði en önnur og fyrir þjóð sem að stórum hluta til er alin upp við Íslandssögu Jónasar Jónssonar og lærði ung að meta íslenska hagsmuni út frá því sjónarhorni sem þar er sett á hlutina, er svo sannarlega ekki óþarfi að gæta að sögulegum ástæðum þegar verið er að fjalla um samvinnu við útlendinga.

Eins og ég gat um, herra forseti, hefur óbein eignaraðild erlendra aðila fengið að þróast víða í íslenskum sjávarútvegi þrátt fyrir bann, t.d. í gegnum þá hluti sem olíufélögin eiga í mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum. Það er staðreynd að íslensk fyrirtæki hafa líka þurft að bægja frá möguleikum sem þeim hafa boðist á erlendu áhættufé og viðskiptasamböndum vegna bannsins. Ekki veit ég í hve miklum mæli það er en þess eru dæmi. Það er vandséð hvernig unnt er að komast hjá eignaraðild erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi miðað við þá óbeinu eignaraðild sem þegar er til staðar og þess að við viljum gjarnan fá meiri erlenda fjárfestingu inn í landið í ýmsum greinum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins í okkar þjóðarbúskap er e.t.v. verjandi að vera með þrengri löggjöf varðandi áhrif erlendra aðila í þeirri grein en öðrum en það má þó ekki ganga svo langt að það svipti greinina möguleikum til uppbyggingar, þróunar og fjárhagslegrar styrkingar. Jafnframt ættum við að huga að því hvort það að leyfa erlendum aðilum að fjárfesta takmarkað í sjávarútvegsfyrirtækjum gæti laðað þá að fjárfestingum á öðrum sviðum atvinnulífsins og hvort sjávarútvegurinn gæti þá orðið sú beita sem þarf til að laða að frekari erlenda fjárfestingu.

Þá er vert að benda á öryggisákvæði það í stjfrv. er heimilar viðskrh. að stöðva erlenda fjárfestingu ef hún ógnar öryggi landsins eða gengur gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.

Þess misskilnings hefur gætt jafnvel hjá forsvarsmönnum hagsmunasamtaka í sjávarútvegi að með því að rýmka þau lagaákvæði er varða fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum sé verið að heimila erlendum aðilum aðgang að auðlindinni, að verið sé að afsala forræði yfir auðlindinni. Slíkir aðilar spyrja til hvers hafi þá verið barist, til hvers hafi lögsagan verið færð út. Þessir aðilar hafa ekki lýst stuðningi við það að þjóðareign á auðlindinni væri styrkt með upptöku veiðileyfagjalds en viðbrögð af þessum toga sýna ótrúlega vanþekkingu sem þessum aðilum er ekki samboðin. Nærtækara er þó, virðulegi forseti, að álykta að verið sé að hafa uppi hræðsluáróður til að rugla þá í ríminu sem minna kunna fyrir sér í lögum um hlutafélög og áhrif í krafti eignahluta þar.

[18:15]

Athyglisvert er að sömu aðilar telja í lagi að útlendir peningar séu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem lánsfé eða ef þeir hafa verið þvegnir með því að fara í gegnum íslensk fyrirtæki. En það hlýtur að vera okkur öllum íhugunarefni af hverju forsvarsmenn hagsmunasamtaka, sem samkvæmt því sem fram kom í máli viðskrh. eru búnir að skrifa upp á stjfrv., bregðast við eins og þeir gera í viðtali við Morgunblaðið frá 16. nóvember sl. þar sem þessi mál voru reifuð. Viðbrögð þeirra eru af allt öðrum toga en margra sem vinna úti í fyrirtækjunum og taka þátt í þeirri merkilegu þróun sem ég rakti í upphafi. Þar á bæ hafa menn öðlast það sjálfstraust sem þarf til að þora að hugsa sig inn í nýjan veruleika og eiga ekki sömu hagsmuna að gæta í óbreyttu ástandi. Starfandi menn í greininni hafa margir hverjir ekki talið það til kosta í íslenskum sjávarútvegi að fjárfestingar erlendra aðila séu bannaðar. Þvert á móti vísa þeir gjarnan til reynslunnar af samstarfinu erlendis og óeðlilegt sé að greina á milli fiskvinnslu og annarrar matvælaframleiðslu og gera þannig upp á milli þessara tveggja greina sem eðlilegt væri að flokka báðar til iðnaðar.

Í stjfrv. er reynt að taka á því hvað er vinnsla. Þar er það ekki talin vinnsla að umpakka afurðum í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða en þar er getið um. Ég á eftir að sjá, virðulegi forseti, að hægt sé að kljúfa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki upp með þeim hætti að sá angi þeirra, sem menn hafa verið að þróa undanfarin ár til þess að bregðast við bæði minni veiðiheimildum og erfiðleikum sem hafa verið á markaði með hefðbundnar afurðir, verði klofinn frá vegna þess að einungis þar megi koma inn erlent fjármagn. Ég þykist þó skilja mætavel þau rök sem eru að baki og finnst þau fyrir sitt leyti eðlileg. Hins vegar held ég að okkur sé nauðsynlegt að efna til enn frekara samstarfs við útlendinga en þegar er og að það eigi að gera það mögulegt fyrir fleiri fyrirtæki en þau sem eru það stór að þau vogi sér sjálf á erlenda markaði.

Þeir sem vinna í greininni benda á að nú þegar séu möguleikar erlendra aðila til áhrifa í íslenskum sjávarútvegi umtalsverðir og engin takmörk fyrir því hve mörg erlend lán greinin megi taka né heldur hvert afurðirnar eru seldar eða til hve langs tíma sölusamningar eru gerðir. Stóru matvælahringirnir sem hér var getið um áðan geta því sem best gert þau viðskipti við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að lána þeim peninga með þeim skilyrðum að tilteknar afurðir fari annaðhvort í gegnum þeirra sölukerfi eða til frekari vinnslu á þeirra vegum. Það er ekkert sem bannar það og ekkert sem bannar þau áhrif.

Jafnframt hefur verið á það bent, ekki síst af forsvarsmönnum iðnaðarins, að ef við viljum markaðssetja Ísland sé leiðin e.t.v. sú að leyfa meira áhættufjármagn í sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem landið er þekktast fyrir sjávarútveg, en vanþekking erlendra fjárfesta á kostum Íslands sé stærsti þröskuldur í vegi þess að erlendir fjárfestar þori að setja fé í íslenskt atvinnulíf. Reynsla af fjárfestingum í sjávarútvegsfyrirtækjum kynni því að leiða til frekari fjárfestinga í öðrum greinum.

Kostir erlendrar eignaraðildar geta verið margvíslegir eins og hér hefur verið rakið. Fyrirtæki geta sótt sér erlent áhættufé sem hlutafé og verða þá í minna mæli háð lánsfé sem nú er að sliga mörg þeirra. Einnig má ætla að slíkt samstarf geti örvað markaðssamstarf og gefið ýmsa nýja möguleika. Við leggjum mikla áherslu á og vinnu í að fá erlenda fjárfesta til samstarfs hér á landi, ekki síst út á matvælaiðnað því að það er ímynd okkar sem matvælaframleiðenda sem við reynum í flestum tilvikum að selja. Það er því kaldhæðnislegt ef við ætlum að undanskilja þar aðalmatvælaiðnaðinn, sem er sjávarútvegurinn eða fiskvinnslan. Það er ekki rétt skref að löggilda óbeina eignaraðild og löggilda þannig óbreytt ástand eða skapa aðstæður sem kalla jafnvel á stofnun leppfyrirtækja ef við viljum skapa okkur nýja möguleika. Til þess þyrftum við að leyfa beina eignaraðild, kaup erlendra aðila á skilgreindum hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. 20% hlutur eins og lagt er til sem fyrsta varfærna skrefið, m.a. af sögulegum ástæðum, í því frv. sem sú sem hér stendur er flm. að ræður ekki úrslitum um stjórn fyrirtækja eða þær ákvarðanir sem stjórnendur þess taka en gæti, ef vel tekst til, nægt til að gefa fjárhagslega og viðskiptalega nýja möguleika fyrir viðkomandi fyrirtæki, jafnvel erlendis.

Þá má geta þess að eftirlit með beinni eignaraðild er auðveldara en óbeinni og því betri möguleikar á að fylgjast með framvindu mála og grípa inn í með takmarkandi aðgerðum ef þurfa þykir. Ég tel rétt, herra forseti, að benda á þetta þrátt fyrir það sem fram hefur komið um það að eftirlit verði erfitt hvort sem bein eignaraðild er leyfð eða ekki vegna þess að ég lít svo á að stjórnarfrumvarpið sem hér liggur fyrir og heimilar óbeina eignaraðild beinlínis hvetji til hennar með einum eða öðrum hætti og sé varasamt að hluta til fyrir þær sakir. En það er ekki síst nauðsynlegt í ljósi umsvifa íslenskra fyrirtækja erlendis og þeirrar áherslu sem lögð er á aukin alþjóðleg viðskipti að teknar verði ákvarðanir af hálfu löggjafans sem horfi til framtíðar, ekki vegna sjávarútvegsins í þrengsta skilningi heldur fyrir atvinnulíf allt og þróun þess. Ég held að við verðum að reyna að hafa í huga í þessari umræðu að ef við leyfum óbeina eignaraðild, 20% eða hvar sem við staðnæmumst með það, erum við þar í öllum tilfellum að tala um íslensk fyrirtæki sem lúta íslenskri löggjöf. Fyrst við erum að breyta henni á annað borð varðandi sjávarútveginn og okkur er ljóst að sú sem við búum við núna hefur ekki haldið, er mikilvægt að sú löggjöf sem við setjum núna geri meira en að staðfesta ríkjandi ástand, að hún sé þannig að hún haldi, að hægt sé að vinna eftir henni og hún styðji við framþróun í íslensku atvinnulífi.