Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:39:56 (2913)

1996-02-12 18:39:56# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:39]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn sem ég ætlaði að veita andsvar við hvarf úr salnum en klukkan gengur þannig að ég verð að vera fljótur til.

Hv. þm. nefndi nokkur rök varðandi ákvæði okkar um 20%, þ.e. að fara varlega í þessi mál og sögulegar ástæður sem mér fannst hún taka undir. Ég vil reyndar geta um ein viðbótarrök í málinu sem ég nefndi í framsögu minni að 20% hlutur er alls ekki ráðandi hlutur. 49% hlutur er hins vegar alráðandi í félögum að langmestu leyti. Oft og tíðum er 30--40% hlutur nægjanlegur til að ráða ferð í félögum. Menn þurfa að átta sig á því að það er grundvallarmunur á 20% eins og við leggjum til og 49% reglunni sem sjálfstæðismenn leggja til.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að fara varlega í þetta. Það á að fá reynslu af þessu máli. Ég er ekki reiðubúinn til að taka skrefið lengra en nemur nokkurn veginn þeim 20% af þessum ástæðum sem ég nefndi. Ég vona að hafi komið skýrt fram í afstöðu minni og málflutningi að hér er um verulegan efnislegan mun að ræða á þessum tveimur frumvörpum.