Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:53:42 (2917)

1996-02-12 18:53:42# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:53]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom mér nú á óvart að heyra í hv. þm. Ágústi Einarssyni. Ég ætla ekki að eyða tímanum í að svara því heldur vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að það frv. sem fjórir þingmenn Sjálfstfl. lögðu fram gengur lengra en stjfrv. og það er flutt þess vegna. Það er samt hægt að ítreka það að við samþykktum frv. hæstv. viðskrh. og munum að sjálfsögðu styðja það ef okkar frv. nær ekki fram að ganga og standa á bak við það ef það frv. sem við teljum að gangi lengra nær ekki fram. (Gripið fram í: Er þetta svona varafrumvarp?) Stefna Sjálfstfl. hlýtur að kristallast í því að stjfrv. er lagt fram en ekki okkar af hálfu Sjálfstfl. Það eru fjórir óbreyttir þingmenn, ef mætti orða það þannig, sem leggja fram frv. (ÖS: Í hvaða flokki eru þeir?) en ekki ráðherrar flokksins. (ÖS: Í hvaða flokki eru þeir?) Þið farið ekkert í neinar grafgötur með það úr hvaða flokki þessir þingmenn eru. Þeir eru skráðir hér í þingbækur í ákveðinn stjórnmálaflokk sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn, ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson skyldi hafa gleymt því. (Gripið fram í.)

Það er ýmislegt sem hv. þm. Magnús Stefánsson beindi til okkar sem er kannski erfitt að svara í svo stuttu máli. (Gripið fram í: Ég er ekkert hissa á því.) Eigi að síður vil ég bara segja eitt. Hann vildi meina að við sem flytjum frv. værum að gera málflutning þeirra sem vilja halda í gamla fyrirkomulagið ómerkilegan með því að kalla hann hræðsluáróður. Ég veit ekki til að ég hafi verið með þann málflutning en samt sem áður læðist dálítið að manni sá grunur að menn séu að reyna það. Ef þessi umræða er borin saman við umræðu sem hefur farið fram t.d. um Evrópska efnahagssvæðið og aðrar, þá er þetta í svipuðum stíl. Það er verið að höfða til þeirrar kenndar fólks að verða hrætt við breytingar og sá málflutningur finnst mér hafa verið dálítið uppi. Ég ætla samt ekkert að væna einn eða neinn um neitt.