Umræða um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 13:34:09 (2923)

1996-02-13 13:34:09# 120. lþ. 89.91 fundur 189#B umræða um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri# (aths. um störf þingsins), SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[13:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Áður en fundur hefst samkvæmt dagskrá og gengið verður til umræðna um fyrsta dagskrármál vil ég taka það fram vegna þeirra dagskrármála sem eru næst á eftir hinu fyrsta, þ.e. næst á eftir vegáætlun, þrjú frv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, að ég held að það sé nauðsynlegt vegna þeirrar umræðu að forseti geri ráðstafanir til þess að forustumenn stjórnarflokkanna verði viðstaddir upphaf umræðunnar. Vegna upplýsinga sem hér komu fram í gær og vegna þeirrar sérkennilegu stöðu sem er að verða uppi á Alþingi hvað varðar umfjöllun um þessi mál þá er ekki annað hægt en að hlutirnir skýrist við 1. umr. málanna. Hér er eins og forseta er kunnugt á ferðinni sú sérkennilega staða að stjórnarfrumvörp, flutt annars vegar af hæstv. iðnaðar- og viðskrh. og hins vegar af sjútvrh., um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri og um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, boða tiltekna stefnu, tiltekna stjórnarstefnu að við héldum í þeim efnum. Hins vegar liggja á borðum þingmanna tvö frv. þar af annað flutt af fjórum hv. þm. Sjálfstfl., sem er annar stjórnarflokkurinn eins og kunnugt er og flokkur hæstv. sjútvrh., sem boða í grundvallaratriðum gjörólíka stefnu varðandi þessi mál, þ.e. með hvaða hætti skuli gengið frá í lögum reglum um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi.

Nú er ætlunin væntanlega að vísa öllum þessum málum til nefndar og ég held að það gangi ekki að þingnefndir fari að vinna að málinu án þess að fá einhvern botn í það hver stjórnarstefnan er. Standa þingmenn Sjálfstfl. að stjórnarfrumvörpunum eða gera þeir það ekki? Er flutningur frumvarps fjórmenninganna sýndarmennska eða er þar alvara á ferðinni? Ætla þeir, þar á meðal formaður efh.- og viðskn., að beita sér hér innan þings fyrir því að afla sínu frv. stuðnings, og þar með að grafa undan stjfrv., eða hvað er hér á ferðinni, herra forseti?

Ég held að það sé útilokað að við látum þessa umræðu fara fram hér í dag öðruvísi en að þessi mál skýrist og það gefist kostur á að ræða þetta við forustumenn stjórnarliðsins og leggja spurningar fyrir hæstv. sjútvrh., hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., formann Framsfl.

Ég vil koma þessu hér á framfæri, herra forseti, í byrjun fundar til þess að að forseti hafi tíma til að gera tiltækar ráðstafanir þannig að af þessu megi verða.