Umræða um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 13:37:17 (2924)

1996-02-13 13:37:17# 120. lþ. 89.91 fundur 189#B umræða um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[13:37]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e. og vekja jafnframt athygli þingheims á þeirri sérkennilegu og óvenjulegu stöðu sem komin er upp. Ég hef tekið eftir því að landsmenn sem hafa fylgst með störfum þingsins hafa talið að þetta þing hafi að mörgu leyti verið nokkuð sérkennilegt varðandi upplegg mála og vinnubrögð að ýmsu leyti. Skýringarnar á því efni hafa ekki verið sýnilegar í raun og veru en þær eru það núna. Það er satt að segja alveg ótrúlegt ráðleysi, verkleysi og verkstjórnarleysi sem virðist einkenna ríkisstjórnina í þeim málum sem hv. þm. bað um að yrðu rædd sérstaklega að viðstöddum ráðherrum hér síðar í dag eða síðar á þessum sólarhring.

Það er alveg með ólíkindum að formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sé sjálfur flutningsmaður að frv. sem þingmennirnir fjórir flytja undir forustu hv. þm. Kristjáns Pálssonar og hlýtur þess vegna að taka það mál fyrir við hliðina á stjfrv., eða hvað? Og það er líka með ólíkindum og algjörlega einstakt að þingmenn stjórnarflokks sem telja sig bíða lægri hlut í málamiðlun við annan stjórnarflokk skuli taka sig út úr með þeim hætti sem hér er um að ræða og í rauninni stofna sína eigin ríkisstjórn, minnihlutastjórn Kristjáns Pálssonar, af því að þeir eru óánægðir með ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh. Enda er staðan þannig að því er hann varðar að það er sagt að hugur hans sé a.m.k. hálfur á Bessastöðum, handan við Skerjafjörðinn.

Hér er um svo sérkennilega uppákomu að ræða, hæstv. forseti, að það er algjörlega óhjákvæmilegt að vekja athygli þingsins á því, en í þessu ráðleysi liggur skýringin á því af hverju Alþingi hefur ekki komist að verkum með eðlilegum hætti á þessu þingi. Þess vegna tek ég eindregið undir þá ósk sem hér kom fram hjá hv. formanni sjútvn. og skora á hæstv. forseta að tryggja að ráðherrarnir verði hér viðstaddir, formaður Sjálfstfl. og Framsfl., þegar þessi mál ber á góma síðar á þessum fundi.