Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 13:54:31 (2932)

1996-02-13 13:54:31# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Lítið var og lokið er, má nú segja um þessa framsöguræðu hæstv. ráðherra, held ég, enda tilefnið kannski ekki svo geðfellt ráðherranum sem áður hefur verið þegar hann hefur státinn undanfarin ár farið mikinn og lýst afreksskap sínum í vegamálum og samgöngumálum. Nú var ræðan stutt og öll hin hógværasta og fór lítið fyrir hetjulegum yfirlýsingum nema þá helst að ráðherrann reyndi með furðulegum kúnstum að sýna fram á að nú hlytu stjórnarandstæðingar að gleðjast yfir niðurskurði í vegamálum miðað við þeirra fyrri málflutning og veit ég ekki hvert hæstv. ráðherra sækir þá speki.

Það sem hér er að gerast, herra forseti, er að samgrh. hefur mælt fyrir, ég hygg nánast einstakri vegáætlun. Þetta er sérstök niðurskurðaráætlun innan ársins. Það er ekki á ferðinni endurskoðun á vegáætlun sem slíkri þannig að nýtt tveggja ára tímabil bætist við, heldur er hér fyrst og fremst um það að ræða að hin glæsta vegáætlun sem hæstv. ráðherra kynnti og fékk afgreidda á þingi fyrir síðustu alþingiskosningar er nú skorin niður við trog með þessum ræfilslega pappír sem hún er flutt á, afar þunn örk og þó var framsöguræðan enn efnisminni en þingskjalið og er það nokkuð vel að verki staðið að takast það.

Það er ekki aldeilis fylgiskjölunum eða upplýsingunum fyrir að fara. Það er ekki mikið verið að gefa út um það hvaða afleiðingar það muni hafa að skera niður framkvæmdafé til almennra vegamála um hartnær 1 milljarð kr. frá því sem áætlað hafði verið. Það er auðvitað sérstaklega athyglisvert að þessi hæstv. ráðherra, sem hældi sér öðrum mönnum meira af vasklegri frammistöðu á síðasta kjörtímabili í samgöngumálum og gerði þær að mikilli uppistöðu í sínum áróðri fyrir síðustu alþingiskosningar, skuli nú standa í þessum dapurlegu sporum. Um þetta var ekki mikið fjallað á framboðsfundum í Norðurl. e. að það stæði til að slátra vegáætlun eða þess vegna flugmálaáætlun eða öðru slíku með þessum hætti.

Reyndar rifjast það upp, herra forseti, að þessi hæstv. ráðherra sagði snemma á síðasta kjörtímabili að það hefði verið alveg óvenjulegt siðleysi af forvera sínum að leggja yfirleitt fram og láta afgreiða vegáætlun á kosningaári. Þessi ummæli eru til á prenti. Það væri alls ekki við hæfi yfirleitt að menn væru að afgreiða vegáætlanir á kosningaári. Ég spurði þá hæstv. ráðherra að því hvort hann hygðist ekki afgreiða neina vegáætlun á vetri 1994/1995 og á daginn kom auðvitað að hæstv. ráðherra var með vegáætlun og meira en það. Hann var með mikla bjartsýnisáætlun með glæstum loforðum um miklar framkvæmdir á komandi árum, en þetta eru efndirnar. Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég draga athyglina að því að í raun og veru hefur ríkt algert stefnuleysi í þessum málum allan þann tíma sem núv. hæstv. samgrh. hefur farið með þetta mál. Hvers vegna segi ég það? Ég segi það m.a. vegna þess að hæstv. ráðherra hefur aldrei framkvæmt vegalögin. Og ég hygg að það sé næsta einstætt að ráðherra málaflokks, sem hefur til þess að byggja á tiltölulega skýra löggjöf, eins og bæði núgildandi og áður gildandi vegalög voru, þau sem giltu fram til þess að lög nr. 45 6. maí 1994 tóku við, hafa ekki verið framkvæmd, m.a. vegna þess að ráðherrann tók til við það að skipta vegafé sjálfur án eðlilegs farvegs í gegnum þingið, en líka vegna þess að í þau fimm ár sem hæstv. núv. samgrh. hefur farið með vegamál hefur ekki örlað á viðleitni til þess að standa við það ákvæði vegalaga að það liggi fyrir langtímastefnumótun í samgöngumálum. Hæstv. ráðherra hefur enga tilburði haft uppi til þess að leggja fyrir þingið eða hafa hér afgreidda langtímaáætlun í vegamálum eða mig rekur ekki minni til þess að slíkt plagg hafi birst á síðasta kjörtímabili og hafði þó hæstv. ráðherra fjögur ár til að uppfylla þá skýru lagaskyldu að fyrir liggi á hverjum tíma langtímaáætlun í vegamálum til 12 ára, í þremur fjögurra ára tímabilum sem endurskoðuð séu reglulega. Og það bólar ekki á slíku enn. Nei. Við fáum hins vegar plagg sem er niðurskurður á eins árs vegáætlun, án nokkurrar vísbendingar um það hvað við eigi að taka nema þá það sem maður hlýtur að álykta að framtíðin sé jafndapurleg og nútíðin gefur vísbendingar um.

Í þriðja lagi, herra forseti, halda áfram í þessu þingskjali sem ég bið menn að líta á, á forsíðunni, kostulegar æfingar í bókhaldi þar sem annars vegar eru færðir í ríkissjóð umtalsverðir fjármunir af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar, en hins vegar er framlag úr ríkissjóði til annarra verkefna í vegamálum. Ég veit að venjulegir menn botna ekkert í þessum kúnstum og það eru í ekki nema fáeinir innvígðir sem hugsanlega átta sig á því hvað hér er á ferðinni. Þetta er hluti af æfingum hæstv. ráðherra til þess að færa til fjármuni milli verkefna innan vegamálanna þannig að hann hafi meira sjálfræði um það í hvað verkefnin fara. Þetta er hluti af kúnstunum sem tengdust bókhaldi tengdum framkvæmdaátakinu í vegamálum. Eða finnst mönnum þetta ekkert merkilegt, t.d. hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sem er vanur maður í fjármálabókhaldinu hjá ríkinu, fyrrv. formaður fjárln.? Það hefur undrað mig að enginn skuli gera við þetta athugasemdir í raun og veru af hálfu opinberra eftirlitsaðila sem hæstv. ráðherra er settur undir.

[14:00]

Niðurskurðurinn á vegáætluninni er mjög þungbær og það sem að mínu mati er hvað alvarlegast, herra forseti, er að þessi niðurskurður er vegna aðstæðna sérstaklega grimmilegur á sérstökum framkvæmdaflokkum. Niðurskurðurinn kemur þannig til að framlag úr ríkissjóði sem átti að vera á þessu ári lækkar um 11 millj. kr. Lánsfé sem átti að vera inni í framkvæmdaátakinu upp á 310 millj. er fellt niður og ætti það þó ekki að íþyngja ríkissjóði þó að haldið yrði við áður áformaðar lántökur til framkvæmda með svo öllum þeim fyrirvörum sem um það má hafa. Það er hafin endurgreiðsla lána sem ekki stóð til að hefja fyrr en að þremur árum liðnum upp á 50 millj. og síðast en ekki síst er upphæðin sem tekin er af mörkuðu tekjustofnunum og færð í ríkissjóð hækkuð úr 144 millj. í 637 millj. Þetta gera hátt í 900 millj. kr. og með þeirri óvissu til eða frá sem á þessu er lætur nærri að niðurskurðurinn sé af stærðargráðunni 1 milljarður kr.

Varðandi ráðstöfunina og það hvernig þessi niðurskurður kemur út, þá liggur það nokkuð í hlutarins eðli vegna þess hve margir útgjaldaliðir eru fastir að niðurskurðurinn bitnar fyrst og fremst á hinum almennu verkefnum í vegamálum þar sem reksturinn, viðhald og þjónusta, vetrarviðhald og annað slíkt, er tiltölulega föst stærð sem lítið er hægt að hrófla við og mörg stórverkefni eru þegar boðin út undir framkvæmdaflokknum stórverkefni í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv. Það verða hin almennu minni og miðlungsstóru verkefni sem fyrst og fremst taka á sig niðurskurðinn. Ég spái því að þingmenn einstakra kjördæma eigi eftir að sjá framan í býsna ljóta mynd þegar niðurskurðurinn er kominn til gjalda, þegar búið er að taka frá öll stóru verkefnin sem búið er að bjóða út og festa, þar á meðal af miklum móði núna síðustu vikurnar og eftir standa leifarnar í almennar framkvæmdir í vegagerð. Það eru þær framkvæmdir sem minni verktakar úti um landið hafa haft til þess að starfa við. Hér er því á ferðinni að mínu mati afar þungbær niðurskurður.

Þannig er t.d. framlagið til almennra verkefna og bundinna slitlaga lækkað samkvæmt tillögunni úr 957 millj. í 782 millj. og framlag til tengivega, sem eru mikilvægir hliðarvegir við aðalvegakerfið, er lækkað úr 336 millj. í 275 millj. og er það þó ekki merkileg upphæð til þess að standa undir öllum framkvæmdum á því mikla vegakerfi sem liggur út frá stofnbrautunum eða þjóðvegunum hringinn í kringum landið. Framlag til sýsluveganna gömlu, sem nú heita safnvegir, er enn skorið niður og þar eru á ferðinni að mínu mati hrein og klár svik, hreinar og klárar vanefndir ríkisvaldsins á loforðum sem sveitarfélögunum voru gefin þegar ríkið yfirtók þetta verkefni í tengslum við verkaskiptabreytinguna 1990. Þá var gert ráð fyrir og reiknað inn í þann pakka tiltekin upphæð til framkvæmda í sýsluvegum sem þá hétu svo og sveitarfélögin höfðu áður borgað. Hér halda áfram svik fyrri ríkisstjórnar og nú þessarar ríkisstjórnar á þeim loforðum og ég óttast að þær vanefndir nemi nú orðið mörg hundruð millj. kr. Það liggur fyrir þinginu, herra forseti, fyrirspurn frá ræðumanni um þetta efni og henni verður vonandi svarað innan skamms.

Þannig er staðan, herra forseti. Veislunni er lokið. Veislunni sem hæstv. samgrh. bauð til á síðasta kjörtímabili með lántökum og miklum lúðrablæstri og söng er lokið. Það er komi að skuldadögunum. Hér eru nú gjaldfærðar afborganir af þessum skuldum og stórfelldir fjármunir af mörkuðum tekjum vegamálanna renna í ríkissjóð. Og nú getur hæstv. ráðherra væntanlega farið að hvíla skærin eða gleraugun sem hann einhvern tíma notaði til að klippa á borða vestur á fjörðum og það verður sennilega minna um hátíðlegar veislur á næstu árum.

Auðvitað er þetta líka sérkennilegt vegna þess að hér er ekki síst verið að skera niður hið svonefnda framkvæmdaátak. Rökstuðningurinn fyrir því var vaxandi atvinnuleysi í landinu. Atvinnuleysið er ekki horfið. Þetta voru líka loforð til verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga. Er ríkisstjórnin komin með algert sjálfdæmi í því hvort hún efnir skuldbindingar og loforð sem gefin voru á sínum tíma í tengslum við kjarasamninga? Hér eru hrein og klár svik á ferðinni en auðvitað við þau loforð sem þá voru gefin.

Ég vil einnig nefna, herra forseti, að það er afar alvarlegt hvernig tekjustofnar Vegagerðarinnar eru í vaxandi mæli að renna í ríkissjóð. Það hefur engin ríkisstjórn komist með tærnar þar sem þessi hefur hælana og var þó sú sem sat á síðasta kjörtímabili slæm í því að til viðbótar öllum þeim sköttum og álögum sem lagðar eru á umferðina og renna beint í ríkissjóð er gengið inn á hina sérstöku tekjustofna Vegagerðarinnar og þeir eru teknir í ríkissjóð, reyndar með tvennum hætti. Annars vegar með því að kostnaði af rekstri ferja og flóabáta var velt yfir á Vegagerðina án þess að hún fengi það bætt í neinu og hins vegar eru fjármunir látnir renna beint inn í ríkissjóð. Og er það þá ekki þannig, herra forseti, að skattar af umferðinni sem renna til ríkisins séu ekki ærnir fyrir.

Ég hef um það upplýsingar frá Félagi ísl. bifreiðaeigenda sem aflað er í gegnum gögn frá efnahagsskrifstofu fjmrn. hverjar þessar tekjur eru áætlaðar á árinu 1996. Það eru tekjur af bifreiðakaupum upp á 4,9 milljarða sem renna í ríkissjóð. Það eru tekjur af notkun bifreiða í landinu upp á 12,6 milljarða. Og það eru aðrir skattar, fyrst og fremst bifreiðagjöldin, upp á 1.826 millj. Þetta gefur skatta af bifreiðum alls upp á 19.370 millj., tæpa 19,4 milljarða sem umferðin og bifreiðarnar eru skattlagðar. Þar af renna til ríkissjóðs, ef sá virðisaukaskattur sem af vegamálum sem aftur gengur inn í ríkissjóð í VASK-uppgjörinu er dreginn frá, aðeins 6.193 millj. nettó eða rétt 32%, minna en þriðjungurinn af álögum á bifreiðar og umferð upp á 19,4 milljarða, renna til eiginlegra framkvæmda í vegamálum, nettó. Þó að við tökum brúttótöluna og sleppum virðisaukaskattsuppgjörinu, notum niðurstöðutölu vegáætlunarinnar hér, þ.e. 6.763 millj., þá eru það rétt tæp 35% af 19,4 milljörðum. Þetta hlutfall lækkar úr 40% á síðasta ári í 35% á þessu eða sambærilega prósentu ef notuð er lægri talan miðað við nettóvirðisaukaskattsuppgjör. Þetta er eitthvert óhagstæðasta hlutfall sem umferðin hefur búið við í langan tíma og er þó skattbyrðin líklega meiri en nokkru sinni fyrr.

Herra forseti. Þjóðin hefur heyrt hæstv. samgrh. í gamanþáttum endurtaka í sífellu orð um það að hann sé að fljúga á stolnum fjöðrum Framsóknar. Ég óttast að flugið fari að daprast hjá hæstv. ráðherra og í vændum sé mikil brotlending hvaðan sem fjaðrirnar eru ættaðar sem hingað til hafa haldið hæstv. ráðherra uppi. Hvort þær eru lánaðar eða stolnar, um það hirði ég ekki, en hitt er ljóst að það horfir illa með hið glæsta flug hæstv. ráðherra í samgöngumálunum nú um stundir.