Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:33:29 (2941)

1996-02-13 14:33:29# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:33]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, spurði hvernig á því stæði að svo mikið væri skorið niður af framkvæmdaátaki sem raun ber vitni eða um 36--37%. Skýringin er sú sem ég sagði í frumræðu minni að það er ekki gert ráð fyrir því að taka á þessu ári lán til framkvæmdaátaksins eins og áður hafði verð gert, heldur að tekjurnar rynnu til framkvæmda jafnóðum og þær féllu til. Þetta er skýringin á því.

Það eru um 1.672 millj. kr. sem bókað er að Vegagerðin skuldi ríkissjóði og eins og ég sagði er gert ráð fyrir því að þau framlög sem renna nú í ríkissjóð fram yfir það sem áður var muni renna til greiðslu á þessum fjármunum. Finnst mér sjálfsagt vegna ummæla hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér áður að það mál verði tekið fyrir í samgn. og ekki nema augljóst að það er bæði rétt og sjálfsagt að það verði gert.

Um hina sérstöku skuld til Reykjavíkur, 193 millj. kr. á ári, þá er gert ráð fyrir því að hún greiðist upp á árinu 1998, en það fé er tekið af óskiptu þannig að það er ekki tekið af fé höfuðborgarsvæðisins. Á hinn bóginn hefur höfuðborgarsvæðið ekki í annan tíma fengið hlutfallslega meira til gatnagerðar eða vegagerðar á þessu svæði en eftir að ég varð samgrh.