Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:37:38 (2944)

1996-02-13 14:37:38# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:37]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki meiningin að fara efnislega yfir ræðu hv. þm. Guðmundar Árna hér, en það var eitt sem fram kom í máli hv. þm. sem er alrangt og mér þykir ástæða til þess að halda til haga og segja sannleikann í því. Hv. þm. sagði að fylgi Framsfl. væri aðallega úti á landsbyggðinni. Það er alrangt og algjör della. Fylgið er nánast eins á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni og það ættu hv. þm. að þekkja að í atkvæðum er þetta nánast jafnt. Það er hins vegar þannig að vegna kosningalöggjafarinnar eru einungis fjórir þingmenn Framsfl. af höfuðborgarsvæðinu en 11 af landsbyggðinni og ég hef einmitt látið kosningalöggjöfina mikið til mín taka á þessu þingi af því að mér þykir hún mjög óréttlát. Hv. þm. ætti að þekkja þetta mál mjög vel af því að hv. þm. er í kjördæmi mínu, í Reykjanesi en þar fengum við 8.809 atkvæði í síðustu kosningum sem er besti árangur Framsfl. í þessum kosningum. Næst kom Norðurl. v. (SJS: Eru ekki vegamál á dagskrá?) Mér þykir rétt að halda þessu til haga af því að mér finnst það mjög alvarlegt ef hv. þm. fara með ósannindi. Hið rétta er að Framsfl. er með jafnt fylgi á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.