Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:02:33 (2953)

1996-02-13 15:02:33# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:02]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst úr af síðustu orðum hv. 12. þm. Reykn., þá er það þannig að samgn. Alþingis barst bréf frá Kvennalistanum rétt fyrir áramótin. Strax á fyrsta fundi eftir áramót var þetta bréf tekið fyrir og þar samþykkt að eins og verið hafði á síðasta þingi ætti Kvennalistinn áheyrnaraðild að samgn. Vona ég að tilkynning um það hafi borist þingflokki Kvennalistans nú þegar.

Varðandi spurninguna um með hvaða hætti sé farið með höfuðborgarsvæðið í þeirri tillögu að vegáætlun sem hér liggur fyrir þá er það þannig eins og menn vita að það var gerður sérstakur samningur milli fjmrn. og Reykjavíkurborgar og þar gert ráð fyrir tilteknum greiðslum á tilteknu ári. Við það verður staðið að sjálfsögðu. Síðan er það þannig að það sem eftir stendur af fjárveitingum til höfuðborgarsvæðisins samkvæmt liðnum 2.3.1.2. er skorið niður með nákvæmlega sama hætti og aðrir liðir í þeirri þáltill. sem er hér til umræðu. Þetta er raunar útskýrt á bls. 5 þar sem segir, með leyfir virðulegs forseta:

,,Í liðnum 2.3.1.2 Höfuðborgarsvæðið er innifalin greiðsla skuldar við Reykjavíkurborg samkvæmt samningi frá 1991. Upphæðin er bundin og því ekki skorin niður, en aðrar fjárveitingar í liðnum lækka um rúmlega 18% eins og annað.``

Þetta held ég að sé mjög skýrt. Það er fyrst tekin út fyrir sviga, getum við sagt, sú upphæð sem samningurinn milli Reykjavíkurborgar og ríkisins gerir ráð fyrir. Síðan er það sem eftir stendur skorið niður um 18% sem er hið sama og aðrir framkvæmdaliðir verða að lúta í þessari tillögu til þingsályktunar um vegáætlun.