Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:06:02 (2956)

1996-02-13 15:06:02# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þáltill. sú sem hér er til umræðu er lögð fram til að breyta þingsályktun um vegáætlun fyrir árin 1995--1998. Ástæðan er 863 millj. kr. niðurskurður á vegafé sem gert var ráð fyrir við gerð vegáætlunar sem samþykkt var hér á Alþingi í fyrravetur.

Eins og fram hefur komið í umræðunni um þessa þáltill. virðist sú áætlun vera brostin. Ég get ekki séð annað en að það þurfi að fara í nýja áætlunargerð alveg frá grunni. Ég furða mig einnig á því hvernig þessi niðurskurður er látin bitna misjanflega á landsvæðum. Ég vil mótmæla þeirri aðferð sem beitt er, ég get ekki sætt mig við hana, að mesti niðurskurðurinn skuli bitna á höfuðborgarsvæðinu. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skera mest niður fé til framkvæmdaátaks, sem er fé sem skiptist eftir höfðatölu, er alls óviðunandi, framkvæmdaátaks sem samið var um fyrir aðeins einu ári síðan. Fé undir þessum lið er aðalfé til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þetta fé er skorið niður um 37% á meðan fjármagn sem skipt er eftir kjördæmum er aðeins skorið niður um 18% eins og kemur fram í greinargerð með þáltill. Þetta er nokkuð sem ég get ekki sætt mig við sem Reykjavíkurþingmaður og spyr því hæstv. samgrh.: Hvaða pólitísku rök eru fyrir því að láta mesta niðurskurð lenda á þessu fjölmenna svæði sem höfuðborgarsvæðið er? Ég skil ekki almennilega þá skýringu hæstv. ráðherra sem kom fram í svari við spurningu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að niðurskurðurinn sé látinn bitna harðast á þessu svæði vegna þess að það eigi ekki að taka lán til vegaframkvæmda. Ég vil gjarnan fá nánari skýringu á því.

Ég vil einnig spyrja: Er þetta með vitund og vilja framsóknarmanna í ríkisstjórninni? Reyndar er nú ekki hér neinn ráðherra frá Framsfl. í ríkisstjórninni en ég vildi einnig gjarnan fá svör við því hvort það er vilji framsóknarmanna að skera svona mikið niður á höfuðborgarsvæðinu? Og einnig hvort það sé með vitund og vilja borgarfulltrúa þeirra hér í Reykjavík.

Nú rétt fyrir jólin barst okkur þingmönnum Reykv. og Reykn. bréf frá forsvarsmönnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þeir höfðu komið saman til fundar 19. des. sl. til að mótmæla þeim niðurskurði sem höfuðborgarsvæðið yrði fyrir í fjárlögum. Þeir samþykktu eftirfarandi ályktun, sem þeir sendu okkur þingmönnum Reykv. og Reykn. Ég ætla að fá að lesa hana, með leyfi forseta:

,,Forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lýsa vonbrigðum sínum með þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi um að draga úr framlögum til framkvæmda við þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu. Mörg aðkallandi verkefni hafa setið á hakanum um árabil þannig að nú stefnir í óefni. Fyrirhugaður er niðurskurður á nauðsynlegu framkvæmdaátaki um þriðjung aðeins ári eftir að um átakið var samið. Það mun leiða til röskunar á framkvæmdaáætlun og valda drætti á brýnum úrbótum. Einnig er það áhyggjuefni að slíkur niðurskurður kann að grafa undan þeirri víðtæku samstöðu sem náðist um forgangsröðun framkvæmda við þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi þessa beina forsvarsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar svo og þingmanna Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis að staðið verði við ákvarðanir um tímasteningu framkvæmda við þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu.

Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin í samráði við aðila vinnumarkaðarins að beita sér fyrir sérstöku framkvæmdaátaki í vegamálum. Áætlað var að framkvæma fyrir 3.500 millj. kr. á fjórum árum og áttu fjárveitingar að skiptast eftir fólksfjölda milli landsvæða. Samkvæmt því var áformað að verja samtals 2.052 millj. kr. til þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1995--1998.``

Þetta er það átak sem verið hefur til umræðu í dag og verður fyrir hvað mestum niðurskurði samkvæmt þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir. Það vekur óneitanlega nokkra furðu að það skuli vera 18% niðurskurður á öllum liðum nema framkvæmdafénu sem er 37% og það sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ég vil gjarnan kalla aftur eftir rökum fyrir því og þeim áherslum sem þar eru lagðar.

Þetta er mjög alvarlegur niðurskurður sem lendir á höfuðborgarsvæðinu og raskar framkvæmdum sem þegar er hafinn undirbúningur að. Það má nefna að það er byrjað á tvöföldun Vesturlandsvegar í Ártúnsbrekku. Hér er á ferðinni verkefni sem búið er að bjóða út og verður þá að fjármagna með lántöku þannig að það sé hægt að standa við þær skuldbindingar sem gerðar hafa verið. Það mun þá að líkindum koma niður á framkvæmdum á næsta ári og það er fyrirsjáanlegt að verklok muni dragast verulega. Afleiðingar verða þær að frágangur við gatnamót við Sæbraut munu dragast og gatan verður lengur í uppnámi og slysahætta eykst í kjölfarið.

Með þessari forgangsröðun á niðurskurði er ríkisstjórnin í raun að ganga á bak skuldbindingum sínum gagnvart Reykjavíkurborg og raunar skuldbindingum gagnvart höfuðborgarsvæðinu öllu. Það er sérkennilegt að ríkisstjórnin skuli ákveða mestan niðurskurð á þessu svæði þar sem framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í vegamálum eru mjög arðsamar framkvæmdir, mun arðsamari heldur en á öðrum landsvæðum. Eins og ég kom að áðan mun þessi niðurskurður tefja margar framkvæmdir og gera það að verkum að þær munu verða mun dýrari fyrir vikið.

Það er einnig líklegt eins og kom fram í bréfi frá forsvarsmönnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að sú samstaða sem náðist um forgangsröðun á verkefnum muni raskast og það þurfi að taka hana upp að nýju þar sem allar forsendur virðast breyttar ef áherslur ríkisstjórnarinnar ganga eftir.

Ég vil einnig gagnrýna það að skera niður mest á þessu svæði sérstaklega þegar litið er til atvinnumála því hér á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi mikið og hafði nú í janúar aldrei mælst jafnmikið atvinnuleysi hér. Þá er aukning á atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu mun meiri heldur en á landsbyggðinni. Það ætti að vera næg ástæða til að láta höfuðborgarsvæðið ekki líða mest fyrir niðurskurðinn.

Það er fleira sem vekur upp spurningar þegar þessi mikli niðurskurður á vegafé er til umræðu. Það eru væntanleg Hvalfjarðargöng og hvernig staðið er að þeirri mannvirkjagerð. Það er ástæða til að velta fyrir sér hvernig ríkisstjórnin forgangsraðar í samgöngumálum. Nú fyrir jólin var einkafyrirtækinu Speli veitt milljarðs ríkisábyrgð vegna jarðgangagerðar undir Hvalfjörð. Hér er mjög vafasöm framkvæmd á ferðinni sem hefur verið gagnrýnd harðlega af ýmsum sérfræðingum og það eru uppi efasemdir um að fjárhagsáætlun og aðrir útreikningar varðandi þá framkvæmd standist. Fari svo að þetta fyrirtæki, sem búið er að veita milljarðs ábyrgð, verði gjaldþrota, þá sitja skattgreiðendur uppi með milljarðs útgjöld, þ.e. meiri útgjöld en nemur niðurskurðinum á vegafénu núna. Á hverju verður sá niðurskurður látinn bitna? Verður það á vegafé framtíðarinnar?

[15:15]

Ljóst er að það verður að fara í hefðbundna vegáætlunargerð að nýju. Eftir þennan mikla niðurskurð eru allar forsendur brostnar fyrir þeirri vegáætlun og sú vinna sem lögð var í hana var nánast unnin fyrir gýg. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ekki eigi að afmarka áætlunargerð aðeins við vegagerð heldur ættu menn að fara í gerð samgönguáætlunar þar sem framkvæmdir sem lúta að samgöngum í heild koma inn. Í því tilefni nefni ég sérstaklega flugvelli og minni enn á Reykjavíkurflugvöll sem hefur verið vanræktur og ekki fengið það viðhald sem hann hefur þurft nú undanfarinn áratug og jafnvel ártugi. Það kom fram í fréttum í gær og í umræðunni áðan að það er til viðbótarfé. Hæstv. samgrh. tilkynnti að hann hefði fundið viðbótarfé til flugvallargerðar og ætlar Akureyrarflugvelli það fé og er ánægjulegt að þar skyldi vera smuga.

Ég held að heildarsamgönguáætlun í stað vegáætlunar væri í anda þeirrar vinnu sem er nú þegar hafin í samgrn. við að sameina stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eins og sameining Siglingamálastofnunar og Vita- og hafnamálastofnunar. En ég held að við stöndum frammi fyrir því að eftir að þessi mikli niðurskurður er orðinn á vegafé verði að fara út í vegáætlunargerð að nýju þar sem forsendur virðast brostnar.