Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:17:55 (2957)

1996-02-13 15:17:55# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:17]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði að því hvort það væri með vitund og vilja ráðherra Framsfl. í ríkisstjórn að þessi þáltill. hefði verið flutt og svo er að sjálfsögðu.

Það var athyglisvert að hv. þm., sem bauð sig fram fyrir Þjóðvaka sérstaklega og skírskotaði mjög til þjóðarinnar, skuli í ræðu sinni áðan tala eins og niðurskurðinn bitni eingöngu á höfuðborgarsvæðinu og raunar í þeim anda að það eigi að skera enn meir af öðrum kjördæmum til þess að höfuðborgarsvæðið geti haldið hlut. Eins og hv. þm. talaði þykir honum sjálfsagt að sveitarfélög úti á landi eigi ekki í erfiðleikum með að forgangsraða verkefnum hjá sér þó að skorið sé niður en sá vandi sé einungis bundinn við höfuðborgarsvæðið. Ég hef satt að segja aldrei heyrt nokkurn hv. þm. tala af jafnmikilli þröngsýni um vegáætlun eins og hv. þm. gerði með hliðsjón af því að hann talar fyrir heilan stjórnmálaflokk. Raunar er einn af þingmönnum flokksins ekki af höfuðborgarsvæðinu heldur af öðru svæði sem er að sínu leyti fallegt og myndarlegt og heitir Dalvíkursvæði.

Óhjákvæmilegt er að minnast aðeins á flugmálaáætlun þar sem tveir hv. þm. hafa mjög rætt um Akureyri, höfuðborg Norðurlands, í því sambandi. Samkvæmt fjárlögum var gert ráð fyrir því að mjög verulegur niðurskurður yrði á flugmálaáætlun enda hefur flugráð fjallað um flugmálaáætlun á nýjum grundvelli þar sem virðist sem meiri tekjur séu til ráðstöfunar en áður var ætlað en flugráði ber lögum samkvæmt að gera tillögur um það hvert fé samkvæmt flugmálaáætlun rennur. Þar á meðal er fyrrv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir sem m.a. hefur mjög lagt á ráðin um það hvert þetta fé skuli renna og ýmsir aðrir mætir þingmenn sem ekki koma beint við þeim manni sem hér stendur. Gamall þingmaður Alþfl. Karvel Pálmason og ýmsir ágætir menn. En ég hygg að svo muni fara að ekki verði gert ráð fyrir því að taka inn í flugmálaáætlun verkefni sem þar hafi ekki verið áður heldur eru menn að velta því fyrir sér hversu mikið sé hægt að standa að þeirri flugmálaáætlun sem er nú í gildi.