Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:45:50 (2964)

1996-02-13 15:45:50# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:45]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. flutti um margt athyglisverða ræðu. Út af fyrir sig er það merkilegt að þingmaður sem hér hefur setið um langt árabil á Alþingi skuli segja frá því að hann hafi ekki talað um vegáætlun fyrr. Það er mergurinn málsins varðandi það efni sem hann talaði hér sérstaklega um, þ.e. þátt höfuðborgarsvæðisins í vegáætlun að þingmenn Reykjavíkurkjördæmis hafa ekki þurft að hafa svo mjög miklar áhyggjur af þessu vegna þess að þeir komast bærilega á milli bæja og bæjarhluta.

En það sem ég vildi segja um þetta, herra forseti, er það að ég tel að Reykjavíkurþingmenn verði að sýna nokkra sanngirni og ég tel að þeir hafi gert það. Það er ástæða til að undirstrika að þeir hafa sýnt sanngirni og víðsýni þegar þeir hafa áttað sig á því og unnið í samræmi við það að það er allt annar hlutur þegar verið er að tala um innanbæjarvegakerfi annars vegar, sem er grundvallað á tekjum sveitarfélags --- sveitarfélagið Reykjavíkurborg hefur auðvitað tekjur sem það notar til uppbyggingar vegakerfisins innan höfuðborgarinnar --- það er með allt öðrum hætti litið á það þegar við erum að fjalla um aðalsamgöngukerfi landsins á milli byggða. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hafa nokkuð aðra skiptingu á vegafé en eftir íbúatölu. Ég tek undir það. Hv. þm. talaði um að það þyrfti að samþætta og tengja saman vegáætlun, hafnaáætlun o.s.frv. Ég er sammála því. Það þarf að gera og er auðvitað öðrum þræði gert. En ég tel að það þurfi að gera líka innan höfuðborgarsvæðisins. Ég hefði t.d. talið að vegna þeirra miklu landflutninga sem kalla á auknar vegaframkvæmdir, m.a. á Vesturlandi, til Reykjavíkurhafnar sem leiða af sér stórfelldar tekjur hafnarinnar í Reykjavík vegna flutninganna sem fara um vegina sem Vesturland þarf að byggja upp t.d., þá ætti Reykjavíkurhöfn hreinlega að taka þátt í uppbyggingu vegakerfisins innan höfuðborgarsvæðisins. Með þeim hætti væri þetta samþætt. Ég hefði talið að vegna þeirrar miklu umferðar sem fer inn í borgina hefði Reykjavíkurhöfn átt að kosta framkvæmdir, hún hefði átt að kosta framkvæmdir í Ártúnsbrekkunni. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt. Á það er að líta þegar hv. þm. nefnir mótmæli bæjarstjórans í Kópavogi. Það má minna á það að húsagatan Nýbýlavegur hefur verið þjóðvegur í þéttbýli og kostaður af vegafé árum saman.