Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:51:26 (2966)

1996-02-13 15:51:26# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:51]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. flaug nú nokkuð frá þeirri umræðu sem ég hóf hér í andsvari því hann fór að ræða um flugmálaáætlun. Hér erum við að ræða vegáætlun. Við vorum hins vegar réttilega að tala um að það ætti að samþætta þessar áætlanir og reyna að tengja þetta saman til þess að ná árangri í að bæta samgöngur.

Það er rétt sem hv. þm. benti á að það eru feiknarlega kostnaðarsamar framkvæmdir sem liggja fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu og auðvitað þarf að taka tillit til þess enda var ég að ræða um það áðan. En ég vil minna hv. þm. á það að oft er talað um að þingmenn séu í kjördæmapoti. Það er oft tekið sem alveg afspyrnuslæmt dæmi um það sem menn telja slæmt varðandi kjördæmapot þegar þingmenn landsbyggðarinnar eru að reyna að ná árangri í því að framkvæmdir séu í vegamálum. Mér fannst örla á því hjá hv. þm. að hann teldi það nánast óeðlilegt að við hv. þm. landsbyggðarinnar sæjum nokkrum ofsjónum yfir því að fá ekki öflugri stuðningi af höfuðborgarsvæðinu við það mikilvæga hlutverk að byggja upp vegakerfið í landinu. Vegna þess að eins og hv. þm. nefndi þá er það grundvallaratriði til þess að byggja upp atvinnulífið í landinu að samgöngukerfið sé í bærilegu standi. Það yrði ekki blómleg byggð eða atvinnulíf hér á höfuðborgarsvæðinu frekar en í öðrum landshlutum ef ekki væru góðar samgöngur. Þess vegna er þetta eitt af allra mikilvægustu viðfangsefnum okkar þingmanna þegar litið er til opinberra framkvæmda að styrkja vegakerfið. Ég ítreka það að ég tel að við þingmenn þurfum að reyna að ná bærilegri sátt um vegáætlun þó auðvitað verði aldrei ein niðurstaða eða einn vilji sem næst fram í þeim efnum. En ég vil undirstrika það við hv. þm. að ég tel að höfuðborgarsvæðið megi bærilega við una ekki síst á síðasta kjörtímabili eins og hæstv. samgrh. benti rækilega á hér í umræðunni.