Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:58:57 (2969)

1996-02-13 15:58:57# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:58]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki ágætlega þennan geðvonskustíl hæstv. samgrh., hann er ekkert nýr. Það sem ég var að gagnrýna var ekki hinn fallegi staður Akureyri og ekki einu sinni Matthías Jochumsson. Ég var ekkert að gagnrýna hann en það væri eftir ráðherranum að taka það upp í næstu ræðu sinni að ég hefði ráðist af heift á Matthías Jochumsson en til að fyrirbyggja misskilning þá er það misskilningur. Ég gerði það ekki.

Það sem ég var að segja áðan var það að mér finnst asnalega að þessum hlutum staðið hjá hæstv. ráðherra. Mér finnst það undarlegt að hann tilkynni það á kjördæmisþingi íhaldsins í Norðurl. e. að það séu allt í einu til meiri peningar í Akureyrarflugvöll. Og að gera ekki grein fyrir því í samhengi við eitthvað annað. Mér finnst það líka sérkennilegt að tilkynna það og ákveða það með þeim hætti sem hann gerði að slippurinn á Akureyri sé betri slippur en allar aðrar slippstöðvar í landinu. Mér finnst það óeðlileg vinnubrögð. Þar með er ég ekki að segja að það sé ekki fallegt á Akureyri. Það er alveg á hreinu að það er afskaplega fallegt á Akureyri. Einkum vetrarfallegt, alveg ótrúlega vetrarfallegt eins og hæstv. ráðherra þekkir. En þessir útúrsnúningar hans voru satt að segja ómerkilegir en ótrúlega líkir honum, hæstv. forseti, ótrúlega líkir ráðherranum.

Varðandi langtímaáætlunina þá er það alveg rétt hjá honum að forveri hans lagði ekki fram tillögu um langtímaáætlun á sínum fjögurra ára ferli, það er alveg rétt, enda sat hann bara í tvö og hálft ár. Á sínum tveggja og hálfs árs ferli lagði forveri hans fram tillögu til langtímaáætlunar í vegamálum. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar núna loksins að láta sér segjast og hætta að brjóta vegalög og fara að leggja hér fram langtímaáætlun í vegamálum, kannski á þessu þingi eða hvað? Er það ætlunin, hæstv. ráðherra? Væri fróðlegt að fá það gagn inn núna í tengslum við þessa niðurskurðaráætlun sem ráðherrann er hér að tala fyrir.

Síðan að það sé ekki niðurskurður í þessu skjali. Hvað er hér á bls. 4 í þessu þingskjali annað en niðurskurður? Auðvitað er þetta niðurskurður. Það er bara útúrsnúningur að kalla þetta einhverju öðru nafni. Það er niðurskurður til allra meginþátta vegamála. Það liggur hér fyrir. Niðurskurður í kringum 900--1.000 millj. kr. Það stendur hér á blaðinu frá hæstv. ráðherra. Þetta heitir niðurskurður, samdráttur, lækkun. Það á ekki að skjóta sér á bak við orð eins og frestun. Enda hefði það dugað honum skammt í kosningabaráttunni í Norðurl. e. trúi ég fyrir síðustu kosningar ef hann hefði talað um frestun í málum af þessu tagi. (Gripið fram í.)