Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 16:17:46 (2973)

1996-02-13 16:17:46# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[16:17]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er að sjálfsögðu ljúft að svara spurningu hv. 5. þm. Vesturl. um það hvort ætlunin sé að afgreiða frá hv. samgn. þáltill. sem hann er 1. flm. að og varðar aukna notkun á steinsteypu við vegagerð. Það er að sjálfsögðu ætlun mín sem form. nefndarinnar að þetta mál fái eðlilega, efnislega meðferð og þeirri meðferð ljúki í nefndinni þannig að við afgreiðum málið frá okkur. Á þessu stigi get ég að sjálfsögðu ekki lýst því nákvæmlega hvernig sú afgreiðsla verður eða hver niðurstaða nefndarinnar verður vegna þess að efnisleg umræða um málið hefur ekki farið fram innan nefndarinnar að öðru leyti en því að við höfum fengið það til umræðu. Málið hefur verið rætt lauslega á einum fundi. Við söfnuðum saman þeim umsögnum sem þegar lágu fyrir. Það er ljóst að þær standast flestar tímans tönn eins og steinsteypan. Við kölluðum síðan eftir viðbótarupplýsingum þar sem við töldum þörf á því og hv. þm. hefur einnig kynnt mér frekari gögn í því máli sem ég tel eðlilegt að við kynnum okkur, m.a. myndbandsspólu sem hv. þm. hefur afhent nefndinni. Allt þetta verður að skoða þegar kemur að því að við förum að taka þetta mál til efnislegrar meðhöndlunar. Það verður metnaðarmál okkar sem erum í nefndinni að geta afgreitt þetta mál. Ég get svarað því hreint og klárt að ég stefni að því að afgreiða þetta mál efnislega frá þessari nefnd. En eins og hv. þm. skilur get ég að sjálfsögðu ekki greint frá eða veit það ekki á þessari stundu réttara sagt, hver sú efnislega niðurstaða verður vegna þess að við höfum ekki haft tök á því enn þá að fara yfir þetta mál. En það verður að sjálfsögðu gert og stefnt að því að ljúka því fyrir lok þingsins í vor.