Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 17:14:08 (2991)

1996-02-13 17:14:08# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[17:14]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. var ekki ánægður með niðurlag ræðu minnar þar sem ég nefndi það að menn töluðu e.t.v. mikið um niðurskurð hér vegna þess hversu miklar framkvæmdir, miklar fjárveitingar og mikil heildarútgjöld voru til vegamála á síðasta kjörtímabili. Ég rakti að vísu í ræðu minni hvers vegna okkur var nauðsynlegt að draga úr fjárveitingum til vegamála. En ég vil nefna þessar tölur til þess að halda því til haga hvað gerðist á síðasta kjörtímabili undir forustu hæstv. núv. samgrh. Á árinu 1991, sem var síðasta ár þeirrar stjórnar sem hv. þm. studdi væntanlega og þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. var samgrh., voru heildarútgjöld á verðlagi og vísitölu 5150 5,9 milljarðar til vegamála, 6,1 milljarður árið 1992, 7,9 milljarðar árið 1993, 7,7 milljarðar árið 1994, 7,8 milljarðar árið 1995 og nú er gert ráð fyrir 6,8 milljörðum á þessu ári. Það er náttúrlega ekki gott að þurfa að draga úr framkvæmdum vegna þess að þörfin blasir alls staðar við. Þetta er ákvörðun sem var tekin af efnahagslegum ástæðum en hróflar hvergi þeirri staðreynd að á síðasta kjörtímabili var mjög mikið lagt til vegamála. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, vegna þess að nýframkvæmdir eru náttúrlega það sem við höfum mikinn áhuga á, að ferjur og flóabátar voru settar inn í framlög til vegamála. Það eru nú nærri 500 millj. ætlaðar á þessu ári til að greiða rekstur og stofnframkvæmdir vegna ferja og flóabáta. Það er nauðsynlegt að hafa í huga.