Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 17:16:36 (2992)

1996-02-13 17:16:36# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[17:16]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum vona að tröppugangurinn í sambandi við framlög til vegamála haldi ekki áfram í öfugu hlutfalli við þær tölur sem hv. þm. var að rekja varðandi fyrra kjörtímabil. Það var enginn ágreiningur um að verja auknu framlagi af mörkuðum tekjustofnum til framkvæmda í vegamálum. Það aukna fé sem var til ráðstöfunar átti að vera meira lögum samkvæmt ef ekki hefðu komið til skerðingar æ ofan í æ af hálfu ríkisstjórnar sem tók í vaxandi mæli markaða tekjustofna til vegagerðar inn í ríkissjóð. Þetta er ekkert fé sem er reitt af hendi skattgreiðenda í gegnum almenna tekjuöflun ríkisins heldur af mörkuðum tekjustofnum. Gagnrýnin er fyrst og fremst um það að hluti af þessum mörkuðu tekjustofnum var á síðasta kjörtímabili í vaxandi mæli tekinn inn í ríkissjóð á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat. Þessar auknu tekjur komu vegna vaxandi umferðar og vaxandi bílaeignar landsmanna. Þakkað sé það sem kom en við skulum ekki gleyma því sem tekið var á þeim tíma. Hinu skulum við heldur ekki gleyma hvernig hæstv. þáv. samgrh., sá er enn þá situr, breytti vinnulagi í sambandi við ráðstöfun vegafjár og tók upp þá hætti sem nú á að taka upp í flugmálum að því er virðist, að ætla að tilkynna það fyrir fram hvernig eigi að ráðstafa peningum sem Alþingi Íslendinga á að taka ákvarðanir um.