Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 17:22:48 (2995)

1996-02-13 17:22:48# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[17:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hvarflaði nú ekki að mér að umræðunni væri að ljúka vegna þess að hæstv. ráðherra hafði boðað í andsvörum fyrr í umræðunni að hann hygðist svara í ítarlegra máli ýmsu þegar kæmi að lokum umræðunnar. Hann vísaði beinlínis til þess um frekari skýringar þannig að ég gef mér nú að hæstv. ráðherra hljóti að ætla að standa við þetta fagra loforð sem gladdi okkur mikið um að fá að heyra í honum hér enn einu sinni á þessum degi.

Í fyrsta lagi vil ég, herra forseti, aðeins koma inn á það sem hv. síðasti ræðumaður var að fjalla um. Hann fór út í samanburðarfræði sem alltaf er nú skemmtileg en þar er líka ýmislegt að varast. Í fyrsta lagi tel ég að það sé ekki rétt fullyrðing hjá hv. þm., varaformanni fjárln., Sturlu Böðvarssyni að á síðasta kjörtímabili hafi verið varið meiri fjármunum til uppbyggingar í vegamálum en nokkru sinni áður. Ég man ekki betur en að þau ár sem upp úr standi í þessum efnum séu á 8. áratugnum, um miðbik 8. áratugarins, í kjölfar þess að vinstri stjórnin sem sat að völdum árin 1971--1974 stórjók framkvæmdir í vegamálum eins og menn eiga að muna. Ég hygg að þá hafi að raungildi einna mestum fjárhæðum, í öllu falli hæsta hlutfalli af þjóðartekjum verið ráðstafað til beinna framkvæmda og uppbygginga í samgöngumálum. Ég leyfi mér nú eftir minni, herra forseti, að fullyrða að þessu sé svo farið.

Í öðru lagi sagði hv. þm., sem vonandi er nú ekki hlaupinn --- nú, hann er bara sestur í forsetastólinn, það er ekkert annað. Þá er ekki von að ég sæi hv. þm. sem var hér rétt áðan í umræðum en hefur brugðið sér í gervi forseta, --- að framkvæmdirnar, útgjöld til vegamála eins og hann taldi þau upp, heildarútgjöld til vegamála hefðu verið til muna meiri á síðasta kjörtímabili en áður var. Það má til sanns vegar færa þegar litið er á bókhaldið eitt en í því sambandi er tvennt að athuga. Á árinu 1993 og eftirleiðis voru öll útgjöld vegna reksturs ferja og flóabáta færð yfir á Vegagerðina henni að bótalausu. Með öðrum orðum, þessar byrðar voru lagðar yfir á Vegagerðina og hina mörkuðu tekjustofna hennar. Á hverju ári síðan hefur farið hátt í hálfur milljarður kr. í þessi útgjöld. Þessi tala er einnig hækkuð með lántökum þannig að þegar skoðað er hvað nettó var af eigin aflafé Vegagerðarinnar til framkvæmda á hverju ári, þá er það ekki til muna hærri fjárhæð en verið hafði undanfarin ár.

Varðandi glæsta fortíð Sjálfstfl. í þessum málum, þá skulum við, herra forseti, staldra við t.d. frammistöðuna á fyrri kjörtímabilum. Hvernig skildi Sjálfstfl. við þessi mál á árinu 1987? Það er langlægsta talan til nýbygginga vega, brúa og fjárveitinga til landsvega sem við finnum í töflunni á bls. 5 í frv., herra forseti. Það beið þar af leiðandi þess samgönguráðherra sem tók við því þrotabúi að reyna að ná þessari tölu upp á við og það tókst. Árin 1989, 1990 og 1991 hækkaði þessi tala öll árin. Hún hækkaði verulega sem hlutfall af þjóðartekjum því þær voru að dragast saman á þessu árabili. Og ég vek athygli á því, herra forseti, að til raunverulegra framkvæmda á árinu 1991 samkvæmt vegaáætlun sem fyrri ríkisstjórn afgreiddi í febrúar 1991 voru tæpar 2.900 millj. til nýbygginga en á þessu ári eiga þær ekki að vera nema 2.800 rúmar. Þannig að talan í ár er lægri en hún var á árinu 1991 þegar sú ríkisstjórn skildi við. Það er nú veruleikinn í málinu. Það er nú allur glæsileikinn, herra forseti. Þannig að ef við viljum vera þreyta okkur og aðra viðstadda á því að fara út í þessa samanburðarfræði þá er ég alveg óhræddur við það. Ég held að sagan tali alveg sínu máli í þessum efnum.

Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég til þess sem ég sagði í minni fyrri ræðu, þ.e. þeirra æfinga sem staðið hafa yfir í tíð hæstv. samgrh. Nú er spilaborgin meira og minna að hrynja, því miður. Það er komið að skuldadögunum og veislunni er lokið. Það hefur verið dregið rækilega fram hér í dag að það ríkir stefnuleysi í þessum málum. Hæstv. ráðherra hefur ekki sinnt lagaskyldu sinni um að leggja fram langtímaáætlun í vegamálum og móta þannig stefnu til lengri tíma. Meðferð þessara mála hefur einkennst af handahófskenndum upphlaupum og niðurskurði og ýmiss konar æfingum sem satt best að segja eru hvorki trúverðugar né vel til þess fallnar að halda einhverri festu eða skapa pólitíska samstöðu um þessi mál. Því miður verður að harma það hvernig hæstv. ráðherra hefur meira og minna tekist að glutra niður þeirri tiltölulega breiðu, þverpólitísku samstöðu og jákvæða andrúmslofti sem var í kringum þennan málaflokk lengi vel hér á þingi í kjölfar þess að menn fóru að vinna samkvæmt vegaáætlunum og langtímaáætlun upp úr 1980.