Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 13:36:25 (2996)

1996-02-14 13:36:25# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[13:36]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar umræður hófust eða áttu að hefjast um þessi mál í gær þá óskuðum við eftir því nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar að það yrði tryggt að forsrh. og helst utanrrh. líka, formenn tveggja stjórnarflokkanna, yrðu viðstaddir umræðuna. Ástæðan er sú að þetta mál ber að með mjög sérkennilegum hætti þar sem fjórir af þingmönnum Sjálfstfl. hafa kosið að flytja frv. sem gengur þvert á stjfrv. Nú tek ég eftir því, gagnstætt því sem okkur hafði verið heitið í gær, að forsrh. og utanrrh. eru ekki komnir í salinn enn þá og vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta að umræðan hefjist ekki fyrr en hæstv. forsrh., ef kostur er, væri kominn í salinn til þess að svara fyrir um það hver er afstaða Sjálfstfl. til þeirra frumvarpa sem hér eru á dagskrá, því okkur duga auðvitað ekki yfirlýsingar hæstv. forsrh. í fjölmiðlum þó að mikilvægar séu. Ég vil með öðrum orðum fara fram á það við hæstv. forseta að hann tryggi að annar hvor þessara ráðherra verði viðstaddur upphaf umræðunnar.