Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 13:39:07 (2998)

1996-02-14 13:39:07# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[13:39]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég lýsi mikilli ánægju minni með að hæstv. forsrh. sé mættur til leiks. Ég vænti þess að honum hafi verið gerð grein fyrir þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað um þessi mál þar sem fram kom í utandagskrárumræðum sl. mánudag að hæstv. viðskrh., sem mælir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fyrir frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á þskj. 425, hafi aldrei verið greint frá því að ekki virðist hafa verið tekin efnisleg afstaða til frv. í þingflokki Sjálfstfl. að öðru leyti en því að þingmenn Sjálfstfl. hafi ekkert haft á móti því að frv. væri lagt fram. Vegna þess að það gerist að jafnsnemma og þetta frv. er tekið til umræðu, frv. ríkisstjórnarinnar, þá er tekið til umræðu frv. fjögurra þingmanna Sjálfstfl. undir forustu hv. þm. Kristjáns Pálssonar, sem virðist hafa myndað eins konar útlagastjórn í flokknum, sem gengur þvert gegn frv. ríkisstjórnarinnar og hæstv. viðskrh. hafði ekki hugmynd um að þetta stæði til fyrr en þingdeginum skömmu áður en umræður áttu að hefjast um málið. Hæstv. viðskrh. lýsti því yfir að hann liti svo á að hér væru þingmenn Sjálfstfl. komnir í uppboðskapphlaup við þingmenn Þjóðvaka um að yfirbjóða stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég vildi þess vegna gjarnan fá að vita það hjá hæstv. forsrh. hver er afstaða Sjálfstfl. til þessara mála. Er Sjálfstfl., þingmenn Sjálfstfl., fylgjandi frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem hæstv. viðskrh. hefur lagt fram sem stjfrv. og hafa þeir skuldbundið sig til að styðja það frv.? Er það þá svo að þingflokkur Sjálfstfl. sé andvígur því frv. sem fjórir þingmenn hans bera fram?

Ég hef einnig aðra spurningu til hæstv. forsrh. Hún er sú að hæstv. sjútvrh. hefur í framhaldi af stjfrv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem er fylgifrv. með umræddu frv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og gerir ráð fyrir ákveðinni breytingu sem þar þarf að verða á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Munu þingmenn Sjálfstfl. með sama hætti fylgja fram því frv. sem þeir flytja um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri með því að leggja jafnframt fram frv. til laga sem gengur gegn stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún kemur fram í frv. á þskj. 328 eða mun þingflokkur Sjálfstfl. beita sér fyrir því að stöðva það að þessir fjórir þingmenn Sjálfstfl. verði sjálfum sér samkvæmir og leggi fram frv. til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þannig að þeir verði sér ekki frekar til skammar en orðið er?