Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 13:47:45 (3002)

1996-02-14 13:47:45# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[13:47]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson hefur sennilega ekki gert athyglisverðari hlut á þessu þingi heldur en umræddan flutning frv. því að ég sé ekki betur heldur en menn a.m.k. í stjórnarandstöðunni farnir að telja að hann sé líklegur sem næsti forsrh. af hálfu Sjálfstfl. En látum það nú vera.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið við fyrri spurningu minni, en ég beindi annarri spurningu til hæstv. ráðherra líka. Hún er sú að til þess að fylgja fram þeirri stefnu sem kemur fram í þeim frumvörpum sem hér er verið að ræða, þá þarf einnig að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Það hefur hæstv. sjútvrh. nú þegar gert til þess að festa þar í sessi þá stefnu sem verið er að marka af hálfu ríkisstjórnarinnar í frv. því sem hér er til umræðu. Ég spurði hæstv. forsrh.: Verður það svo að til þess að framfylgja tillöguflutningi sínum á Alþingi muni þingmenn Sjálfstfl. einnig leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands? Eða getur hæstv. forsrh. upplýst þingið um að það verði ekki gert þannig að mistök þingflokks Sjálfstfl. eða þessara fjögurra þingmanna í þeim efnum séu þó ekki nema hálfgerð og menn hafi verið stoppaðir á miðri leið? Getur hæstv. forsrh. upplýst þingið um þetta?