Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 13:50:47 (3004)

1996-02-14 13:50:47# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[13:50]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Eins og heyra hefur mátt í umræðu eru hér á ferðinni afskaplega merkileg tíðindi og eiginlega fyrir tvennar sakir. Það er annars vegar að hér er um viðkvæmt grundvallarmál að ræða og hins vegar framgangur sem fylgir í kjölfarið. Í rauninni eru hér á ferðinni ekki aðeins þrjú frumvörp heldur fjögur þó eitt þeirra sé ekki formlega komið á dagskrá, þ.e. frv. hæstv. viðskrh. um erlendar fjárfestingar, og í kjölfar þess frv. hæstv. sjútvrh. um stjórn fiskveiða sem dreift hefur verið en ekki er komið á dagskrá. Síðan koma frumvörp frá stjórnarandstöðu og síðan fjórða frv. frá áðurnefndum fjórum hv. þm. Sjálfstfl.

Nú er boðin bein eignaraðild, óbein eignaraðild 20%, 25% upp í 49%. Umræðan minnir orðið á uppboð á fiskmörkuðum nema það sem skapar henni kannski meiri alvarleika er að hér er um að ræða auðlind þjóðarinnar og yfirráðarétt yfir henni.

Það sem gerir þetta mál einnig mjög merkilegt er að það skuli skeiða fram fjórir þingmenn Sjálfstfl. sem kjósa að ganga mun lengra en hæstv. viðskrh. og þeir kjósa að ganga lengra en eigin ráðherra. Það sem gerir þeirra framgang merkilegan er að þetta skuli gerast samtímis því sem tveir ráðherrar úr ríkisstjórn sem þeir styðja leggja fram frumvörp. En málið snýst um grundvallarafstöðu til auðlinda þjóðarinnar. Málið snýst líka um nýjan veruleika í viðskiptum og málið snýst að auki um kröfu Evrópska efnahagssvæðisins. Ég hygg að enginn hér inni sé andsnúinn samstarfi við útlendinga. Rekstrarumhverfi allt er að breytast og verða alþjóðlegra á öllum sviðum. Útlendingar leita hingað og ekki síður er útrás okkar í viðskiptum að verða veruleg. Þá tel ég að það frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt, eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh., uppfylla kröfu Evrópska efnahagssvæðisins. Eftir stendur það grundvallaratriði hvort við sjálf viljum stýra atburðarás þeirri sem verður í hinum alþjóðlegu viðskiptum eða viljum við gefa útlendingum lausan tauminn. Ég hygg að meginatriði í báðum frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem áður hefur verið minnst á byggi á því grundvallarviðhorfi að Íslendingar sjálfir hafi tök á málinu og því að verja eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindinni. Eftir stendur þá hin pólitíska afstaða, hvort menn vilja ganga enn lengra en hæstv. ríkisstjórn boðar og um það er tekist. En það er mjög merkilegt eins og áður hefur komið fram að fjórir þingmenn Sjálfstfl. skuli samtímis fara fram gegn eigin ráðherrum með þeim hætti sem hér hefur gerst. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. forsrh., um að hér hafi átt sér stað mistök. Það er göfugt að fyrirgefa þannig að ég lít svo á að það mál sé eiginlega dottið um sjálft sig.

En þar sem málið hefur komið á dagskrá og fleiri en þessir hv. fjórir þingmenn Sjálfstfl. hafa lýst yfir skoðun til hás hlutfalls í beinni eignaraðild útlendinga, a.m.k. einn til viðbótar hefur lýst sig sama sinnis í fjölmiðlum, þá er ástæða til þess að fara yfir nokkur af þeim rökum sem fylgja í greinargerð með frv. hv. fjögurra þingmanna.

Í upphafi greinargerðarinnar er talað um að með því að auka beina eignaraðild útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum, þá muni laun verkafólks í fiskvinnslunni aukast og hækka. Það er svolítið merkilegur rökstuðningur, ekki síst í ljósi þess að aftarlega í sömu greinargerð er þess getið að það sem muni draga erlenda fjárfesta að sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi sé hagnaðarvonin. Þar eru með öðrum orðum mótsagnir og vert að vekja athygli á því að við erum ekki að ræða um kirkjuna eða alþjóðleg líknarsamtök, heldur erum við að ræða um erlenda fjárfesta og það er og á að vera tilgangur þeirra auðvitað að græða peninga, en það er ekki þeirra markmið að hækka laun verkafólks. Því tel ég að í rökstuðningi í greinargerð með frv. fjórmenninganna séu atriði sem stangast á, mótsagnir.

Í annan stað er talað um að ekki skuli mismuna fyrirtækjum, þ.e. að leyfa útlendingum að fjárfesta allt að 49% í flugrekstri en ekki í sjávarútvegi. Ég tel það mjög óeðlilegt að leggja rekstur af þessum toga að jöfnu þar sem í sjávarútvegi er verið að ræða um þetta grundvallaratriði, þ.e. afstöðuna til eignarréttar yfir auðlindum þjóðarinnar og að opna ekki fyrir þann möguleika að Íslendingar verði einföld og frumstæð hráefnisútflutningsþjóð.

Ég nefni í þriðja lagi að það kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar í gær að ástæðulaust væri að óttast ásókn erlendra fjárfesta í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vegna þess að sl. 70 ár hefðu þeir ekki sýnt því máli áhuga. Það ætti að vera óþarfi en er þó rétt að rifja upp aðeins nokkur mikilvæg atriði í sögu íslensku þjóðarinnar að einmitt á síðustu 70 árum hafa útlendingar ekki þurft að reyna að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum af þeirri einföldu ástæðu að við bjuggum hér lengi við fjögurra mílna landhelgi. Við stækkuðum hana í 12 mílur, 50 mílur og að lokum út í 200 mílur. Með öðrum orðum þurftu útlendinga ekki að hafa áhyggjur af því hvort þeir fjárfestu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum til þess að nálgast auðlindina, svo beinan aðgang höfðu þeir að henni. Og þá má spyrja: Til hvers lögðu Íslendingar út í það sem við kölluðum þorskastríðið og þjóðin stóð einhuga að því að stækka landhelgina? Tilgangur þess var að koma útlendingum út úr auðlindinni þannig að Íslendingar gætu einir og sjálfir staðið að og varðveitt sína auðlind. Ég tel að með því að gefa útlendingum, erlendum fjárfestum allt að 49% eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjum sé einmitt verið að opna bakdyrnar að íslenskri auðlind og þá sé spurningin hvort til góðs hafi verið gengið með útfærslu landhelginnar.

Á sömu rökum má minna á að meginástæða fyrir andstöðu Íslendinga við inngöngu í ESB og einnig Norðmanna er einmitt afstaða til þessara sömu atriða, þ.e. að hleypa ekki útlendingum óheft inn í auðlind okkar. Ég tel að með því að opna upp í 49% eignaraðild útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum sé verið að fara bakdyramegin að málinu.

Af framansögðu má ljóst vera, og ég trúi því eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh., að hér hafi orðið mistök. Ég tel samt ástæðu til að draga fram þessi rök og mótrök sem má finna í greinargerð fjórmenninganna, en ég lít eigi að síður svo á að það mál sé í rauninni dottið út af borðinu á grundvelli mistaka og þurfi e.t.v. ekki á þessu stigi a.m.k. að hafa áhyggjur af því. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. forsrh. og lýsi mig mjög fylgjandi þeim frumvörpum sem hæstv. ráðherrar viðskipta og sjávarútvegs leggja fram þar sem er miðað að því að opna fyrir erlenda fjárfesta hér, en þó þannig að Íslendingar sjálfir hafi stjórn á málinu og umfram allt hafi sjálfir yfirráðarétt yfir eigin auðlind.