Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:09:49 (3006)

1996-02-14 14:09:49# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:09]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í umræðu um þetta mál hafa komið fram mörg og mismunandi sjónarmið sem varpað hafa ljósi á málið. Eins og alltaf er umræðan af hinu góða. Ég skil vel ótta fólks við breytingu á aðgangi að fiskimiðum okkar. Fólk veit hvað það hefur en ekki hvað tekur við. Þetta á jafnt við um hv. alþingismenn sem almenning.

Íslenska þjóðin hefur háð harða baráttu fyrir þessari auðlind sinni og hún er mjög háð henni. Það er skiljanlegt að fólk vilji fara varlega. Í umræðunni á hinu háa Alþingi hefur komið fram að margir telji hættulegt að útlendingar eignist hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þannig komist þeir inn um bakdyrnar, inn í landhelgina og öll barátta okkar sé fyrir bí. Þessi sjónarmið ber að virða og meta þau rök sem færð eru fram. Að mínu mati byggir þessi afstaða á nokkrum misskilningi. Það skiptir mestu máli fyrir okkur Íslendinga að þeir aðilar sem aðgang hafa að auðlindinni lúti íslenskum lögum, borgi íslenska skatta og fari að fyrirmælum íslenskra yfirvalda um vernd auðlindarinnar.

Herra forseti. Í umræðum um þetta mál, fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, hefur mikið verið rætt um gildi formlegs eignarhlutar. Algerlega er litið fram hjá krafti lánsfjár og ætti fólk þó að þekkja vandamál skuldara að fenginni reynslu og vita hversu ofurseldur skuldarinn getur verið lánardrottnum sínum. Ef hjón kaupa íbúð með 100% lánum, þá eru þau formlegir eigendur að íbúðinni. Raunverulegir eigendur eru þeir sem lána fyrir íbúðinni. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kom inn á þetta atriði fyrr í þessari umræðu.

Við Íslendingar höfum fjármagnað mestallan fiskiskipaflota okkar og frystihús með erlendu lánsfé og hefur lítið verið varað við því. Þetta lánsfé hefur meira að segja verið tekið að stærstum hluta með ríkisábyrgð í gegnum Fiskveiðisjóð og ríkisbanka. Þannig hefur erlendu fjármagni verið hleypt inn í þessa atvinnugrein sem lánsfé. Greinin er of skuldsett og með allt of lítið eigið fé. Hvar halda hv. þm. að þjóðin yrði stödd með allar sínar erlendu skuldir ef fiskur hyrfi af miðunum í áratug eða svo? Betra væri að það erlenda fé sem við veitum í atvinnugreinina hvort sem er taki áhættu af rekstrinum en krefjist ekki bæði greiðslu vaxta og afborgana óháð afkomu. Ef hv. þm. vilja raunverulega takmarka áhrif útlendinga á fiskveiðar hér á landi ættu þeir að takmarka heimildir útgerðarmanna til að taka lán af erlendum toga. Þá er hætt við að sá aðdáunarverði kraftur og dugnaður sem við erum vitni að hverfi úr greininni. Því miður hefur ekki tekist að byggja upp þann sparnað innan lands að unnt sé að fjármagna sjávarútveginn með innlendu lánsfé eða áhættufé.

Herra forseti. Það er talið mikilvægt að fyrirtæki búi yfir miklu eigin fé þannig að þau geti brúað erfiðleikaskeið og haldið upp jafnri atvinnu þegar á móti blæs. Eigið fé, áhættufé, gerir ekki kröfu til greiðslu arðs nema þegar vel gengur. Það hvetur auk þess til gróða öllum til hagsbóta. Lánsfé er hins vegar miklu hættulegra. Þeir sem standa í rekstri þekkja það hvernig er að borga bæði vexti og afborganir þegar illa árar. Þetta á sérstaklega við þegar reskturinn er jafnsveiflukenndur og útgerð er. Mín skoðun er sú að það erlenda fjármagn sem við veitum til íslensks sjávarútvegs eigi frekar að vera í formi áhættufjár en lánsfjár. Vegna ríkisbyrgðar, erlendra lána útgerðarinnar og mikilvægis hennar hefur hagur þjóðarinnar verið látinn sveiflast upp og niður með hag sjávarútvegsins undanfarna áratugi með hörmulegum afleiðingum fyrir iðnfyrirtæki og einstaklinga.

Herra forseti. Í umræðunni hefur verið bent á að útlendir aðilar, hafnir, stórfyrirtæki muni kaupa sig inn í íslenska útgerð. Hafa sumir hv. þm. bent á þessa hættu. Ég sé meiri hættu við núverandi kerfi. Mér sýnist að ef þessir erlendu aðilar vildu virkilega ná ítökum í fiskveiðum okkar væri miklu einfaldara að lána innlendum aðilum mikið fé til að kaupa upp kvóta og gera jafnframt við hann samning um afhendingu hráefnisins. Innlendi aðilinn getur ekki sagt upp hráefnissamningnum því þá gjaldfellur lánið. Þetta er löglegt í dag.

[14:15]

Dæmi: Erlendur matvælahringur lánar einhverjum litlum útgerðarmanni 1 milljarð kr. til að kaupa kvóta. Lánið yrði veitt gegn sjálfskuldarábyrgð útgerðarmannsins. Jafnframt gerir hann samning um sölu á óunnum fiski til erlenda matvælahringsins. Útgerðarmaðurinn gæti aldrei sagt upp sölusamningnum, hann gæti aldrei borgað upp lánið, hann yrði háðari erlenda aðilanum sem kröfuhafa en sem hugsanlegum meðeiganda eða hluthafa.

Mikið hefur verið rætt um þá ógn sem stafað getur af beinni þátttöku erlendra aðila í sjávarútvegi. Mér segir svo hugur að útlendingar standi ekki í biðröð eftir því að leggja fé sitt í íslenska útgerð eða fiskvinnslu. Vegna skattalaga er fjárfesting yfirleitt óskynsamleg hér á landi auk þess sem þessi atvinnurekstur hefur ekki sýnt þann hagnað á undangengnum áratugum að hægt sé að hrópa húrra fyrir. En vonandi stendur hvort tveggja til bóta.

Ef þau þrjú frv. sem hér eru til umræðu eru borin saman sést að frv. Þjóðvaka gengur skemmst. Það gengur skemmst í því hvað varðar fjárfestingu í útgerð og fiskvinnslu. Að samþykktu frv. ríkisstjórnarinnar gætu öll hlutafélög í útgerð og fiskvinnslu stofnað 100% dótturfyrirtæki um reksturinn. Þá mættu erlendir aðilar eiga 25% í þeim en ekki nema 20% samkvæmt frv. Þjóðvaka. Þau gætu sem sagt stofnað 100% dótturfyrirtæki eingöngu um reksturinn. Og þá mega útlendingar eiga 25% í þeim.

Herra forseti. Hvað er Íslendingur? Maður, sem búið hefur með foreldrum sínum erlendis alla tíð og kann ekki íslensku, er hann íslenskur? Er dóttir útlendings, sem búið hefur alla sína ævi hér á landi og gengið hefur í íslenskan skóla, talar íslensku jafn vel og ég og þekkir allar aðstæður hér á landi, erlend? Hvað með fólk sem hefur tvöfaldan ríkisborgararétt sem er þó nokkuð algengt? Hvað með fólk sem öðlast ríkisborgararétt samkvæmt lögum frá Alþingi? Breytist eitthvað í þessu fólki? Í núgildandi lögum sem og í frv. ríkisstjórnarinnar er sett skilyrði að eigandinn sé íslenskur ríkisborgari sem hafi lögheimili hér á landi. Hvað með ungan mann eða unga konu sem erfir stóran hlut í útgerðarfyrirtæki? Mega þau ekki fara til útlanda til náms? Þetta er vandamálið í hnotskurn.

Herra forseti. Niðurstaða mín er sú að æskilegt sé að erlent fjármagn sem veitt er til útgerðar komi í auknum mæli sem áhættufé og síður sem lánsfé. Því stend ég að frv. því sem ég er meðflutningsmaður að ásamt hv. alþm. Kristjáni Pálssyni, Vilhjálmi Egilssyni og Guðjóni Guðmundssyni.

Mikilvægt er að íslensk lög og reglur gildi um þessa starfsemi og að hún greiði hingað skatta og skyldur. Auðvitað væri best að örva Íslendinga til þátttöku í þessum atvinnurekstri með því að breyta skattareglum og úthlutunarreglum á kvóta en það er annað mál.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að svara spurningum nokkurra hv. þm. um afstöðu mína til frv. ríkisstjórnarinnar og þess frv. sem ég er meðflutningsmaður að. Ég styð að sjálfsögðu frv. ríkisstjórnarinnar en mér finnst skynsamlegt að ganga lengra og vil að það verði rætt hér á hinu háa Alþingi. Það er trúa mín að hv. alþm. vilji finna þá lausn í hverju máli sem kemur þjóðinni best. Til þess höfum við umræður. Í umræðum koma fram margs konar sjónarmið og rök. Að loknum umræðum eru hv. þm. betur í stakk búnir til þess að velja bestu lausnina. Menn greinir að sjálfsögðu um leiðir að marki, það er eðlilegt.

Mér þykir mjög miður að láðst hefur að láta þingflokk framsóknarmanna, samstarfsflokk okkar sjálfstæðismanna, vita af þessu frv. En það er sjálfsögð kurteisi. Upphrópanir í þá veru að þetta frv. gangi þvert á stjórnarfrv. og að þingflokkur sjálfstæðismanna sé klofinn eiga ekki við. Hv. þm. mega ekki gleyma því að þeir eru bundnir einungis af sannfæringu sinni og hér á landi ríkir þingræði en ekki flokksræði. Auk þess eru mörg dæmi þess að stjórnarfrv. taki breytingum í meðförum Alþingis án þess að menn tali um erfiðleika á stjórnarheimilinu. Það ber eilítinn keim af málefnafátækt að belgja sig yfir ímynduðum ágreiningi á stjórnarheimilinu í stað þess að ræða málefnalega um þau mál sem hér eru á dagskrá.