Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:25:34 (3010)

1996-02-14 14:25:34# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:25]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem þurfa leiðréttingar við í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hann nefndi áðan í ræðu sinni að frv. þingmanna Þjóðvaka gengi skemmst af þessum frv. Það er rangt hjá honum. Það er grundvallarmunur á beinni fjárfestingu og óbeinni fjárfestingu. Það er rangt hjá honum líka þegar hann talaði um að útlendir aðilar gætu stofnað 100% dótturfyrirtæki sem ættu í sjávarútvegsfyrirtæki. Ég þarf ekki að kenna þingmanninum það að dótturfyrirtæki verður að vera í meirihlutaeigu. Það sem erlendir aðilar geta gert er að þeir geta átt 25% í íslensku fyrirtæki. Það getur síðan átt í sjávarútvegsfyrirtæki allt að 100% ef því er að skipta, í undantekningartilfellum farið upp með eignaraðild 33% og þá átt innan við 5% í viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki. Það er grundvallarmunur. Það þarf ekki að reikna út prósentur varðandi þennan þátt um eignaraðildina. Það er grundvallarmunur á beinni og óbeinni eignaraðild eins og við höfum dregið hér fram í umræðunni.

Annað sem ég vil spyrja hv. þm. um. Hann gerir ráð fyrir og styður frv. um 49% eignaraðild. Er ekki 49% eignaraðild ráðandi eignarhluti? Getur hv. þm. nefnt mér mjög mörg dæmi um það þar sem aðili sem á 49% fari ekki með gerðina í viðkomandi hlutafélagi? Þetta er grundvallarmunurinn á okkar frv. með 20% takmarkaðri eignaraðild og frv. sjálfstæðismanna. Þar er gert ráð fyrir að í reynd fari hinn erlendi aðili með fullt forræði. Og ég spyr hv. þm. sem þekkir vel til rekstrar: Er það ekki svo að 49% eignaraðildin, eins og er í hans frv., þýðir í reynd yfirráð útlends fyrirtækis að okkar sjávarútvegsfyrirtækjum? Er það það sem hann vill í þessu máli?

Ég vil líka leiðrétta annað atriði. Hann segir að frv. fjórmenninganna gangi ekki þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Vitaskuld gerir það það. Þetta er allt annað mál, frv. fjórmenninganna og frv. ríkisstjórnarinnar. Og menn eiga þá bara að kannast við það ef menn vilja tala fyrir annarri stefnu og gera það beint og heiðarlega.