Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:28:08 (3011)

1996-02-14 14:28:08# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:28]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn., Ágúst Einarsson, segir að frv. Þjóðvaka sé allt annars eðlis heldur en frv. ríkisstjórnarinnar. Það sem ég átti við er þetta: Eitthvert fyrirtæki, sem í dag rekur útgerð og fiskvinnslu, við skulum gefa okkur ÚA, stofnar dótturfyrirtæki sem heitir Rekstur ÚA ehf. og er 100% dótturfyrirtæki. Þá mega útlendingar eiga 25% í ÚA því það stundar ekki útgerð. Það á eingöngu dótturfyrirtækið 100% sem er í útgerð. Og menn eru uppfinningasamir í sjávarútveginum, sem betur fer, og þeir munu nota þessa leið. Þannig að frv. Þjóðvaka gengur skemmst.

Varðandi það hvort 49% eignaraðild er ráðandi. Vissulega getur það verið. Það getur líka verið að 16% sé ráðandi eins og í stórfyrirtækjunum Flugleiðum og Eimskip. Þar geta 16% verið virkilega ráðandi hlutur og meira en það. Þannig koma hv. þm. ekkert í veg fyrir að útlendingar geti orðið ráðandi á þennan hátt.

Varðandi það að frv. okkar fjórmenninganna gangi þvert á frv. ríkisstjórnarinnar. Það gerir það ekki. Það gengur lengra og við viljum fá að ræða þann möguleika jafnframt hinu þannig að menn geti rætt þessa hluti. Ég held að umræðan sé alltaf af hinu góða.