Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:33:15 (3016)

1996-02-14 14:33:15# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:33]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hefur komið fram í þessum umræðum eru þrjú frumvörp á dagskrá um sama efni, fjárfestingar útlendinga á Íslandi. Eins og öllum er kunnugt hefur afstaða atvinnurekenda í sjávarútvegi verið að mæla mjög gegn því að erlendir fjárfestar séu eignaraðilar að sjávarútvegi. Ég hef löngum verið í þeim hópi og er reyndar enn. Ég hef tekið þátt í því að andmæla því að slíkt fyrirkomulag yrði sett á laggirnar. Ég held að ekki þurfi að rifja það upp. Það eru ákveðnar ástæður á bak við það að Íslendingar hafa leitast eftir því að vera eigendur atvinnufyrirtækja sinna og þá ekki hvað síst sjávarútvegsins, þeirrar auðlindar, sem er sú eina sem við eigum. Við eigum enga aðra auðlind en hafið í kringum landið.

Þó hefur verið bent á að við erum á breyttum tímum. Mikið hefur breyst í efnahagsumhverfi Íslands á síðustu 5--6 árum, meira en sumir virðast gera sér grein fyrir þannig að landið er mjög opið. Við erum orðnir þátttakendur í Evrópsku efnahagssvæði og nú erum við að ganga frá frv. til laga sem heimila næstum alla þátttöku útlendinga eða a.m.k. ríkisborgara í EES-löndum í íslenskum atvinnurekstri öðrum en sjávarútvegi.

Enda þótt ég hafi í gegnum tíðina verið ákaflega andsnúinn því að útlendingar fái að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi skal ég ekki neita því að á undanförnum missirum hef ég velt því mikið fyrir mér hvort það sé rétt stefna hjá okkur öllum að halda svona fast og fortakslaust í það að hér skuli eingöngu vera Íslendingar sem reka þessi fyrirtæki. Niðurstaða mín er sú að ég er ekki viss um að það sé rétt hjá okkur að flokka íslenskan sjávarútveg í einn flokk.

Ég hef velt því fyrir mér í því efnahagsumhverfi sem við lifum í, þ.e. hér er frjáls verðmyndun á fiski, hvort þátttaka útlendinga og eignaraðild þeirra í fiskiðnaði sé nokkuð öðruvísi en þátttaka útlendinga í almennum iðnaði. Ég kem ekki auga á að það sé neinn munur. Það er frjáls verðmyndun. Ef fyrirtækin eiga fortakslaust engar aflaheimildir hvað kemur það þá að sök þó útlendingar eigi þar í? Þá er ég ekki að tala um einhver 20% eða 49% heldur að þeir eigi það sem þeir vilja. Það má þess vegna vera 100% því að ég er alveg sammála því sem kom fram áðan að auðvitað er 49% eignaraðild að fyrirtækjum meira en nóg til að stjórna því og reka það og 20% er jafnvel nóg. Ég held að við ættum að velta því nokkuð vel fyrir okkur þegar þessi frumvörp koma til meðferðar hjá efh.- og viðskn. þingsins hvort ekki sé hægt að ná samstöðu. Þá á ég við breiða samstöðu í þinginu og meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi um að breyta til.

Ég er áfram þeirrar skoðunar eins og ég hef verið að við eigum að hafa þá meginreglu að leyfa útlendingum ekki að eiga hlut í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum sem eru eigendur aflakvóta. Sama hvað hver segir þá er það svo að við höfum útdeilt aflaheimildum á Íslandi og höfum þann hátt á. Við höfum útdeilt þeim séreignarrétti hvað svo sem menn vilja segja um þann sykurmola sem er efstur í frv. um stjórn fiskveiða að fiskarnir séu sameign þjóðarinnar o.s.frv. Vegna þessa er ég ekki tilbúinn til þess að taka þátt í því að setja lög þar sem útlendingum er heimilað að taka þátt í þessari starfsemi. Það gæti kannski verið nauðsynlegt til hagræðingar að hafa einhverjar undantekingar sem væru þá í formi þess að viðskrh. væri veitt heimild til þess. Það gæti verið að einhverju mjög litlu leyti, t.d. að hlutir gætu gengið í arf, það gæti valdið vandræðum í rekstri fyrirtækisins, það gæti verið af einhverjum öðrum ókunnum ástæðum sem við sjáum ekki fyrir í dag. En þá er ég að tala um mjög lítinn hlut, miklu minni hlut en lagt er til í hinum frumvörpunum, alls ekki 20%. Eins og fram hefur komið getur 20% hlutur verið ráðandi hlutur í fyrirtækjum. Meira að segja miklu minni hlutur getur verið ráðandi þannig að ég er ekki tilbúinn til þess að fylgja þessum frumvörpum, hvorki Þjóðvaka né félaga minna í Sjálfstfl. Að sjálfsögðu styð ég fram komið frv. ríkisstjórnarinnar.