Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:40:20 (3017)

1996-02-14 14:40:20# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:40]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Full ástæða er til þess að óska eftir því að sá ræðumaður sem talaði á undan útskýri örlítið betur hvað hann var að fara með ræðu sinni. Ég heyri ekki betur en að þingmaðurinn sé að mæla með aðskilnaði veiða og vinnslu, þ.e. að til þess að við getum haldið áfram að þróa sjávarútveg okkar við þær aðstæður sem hann býr nú og þau erlendu áhrif sem óhjákvæmileg eru þyrftum við að aðskilja veiðar og vinnslu.

Miðað við það frv. sem liggur fyrir af hendi ríkisstjórnarinnar er vinnslunni í rauninni skipt í tvennt. Annars vegar er talað um þá vinnslu sem við höfum hingað til kallað fiskvinnslu og felst aðallega í því að verjast fisk skemmdum og síðan er aftur tekið frá og útlendingum leyft að fjárfesta í frekari vinnslu, þ.e. pökkun í umbúðir þar sem virðisaukinn verður mestur í dag.

Ég dró í efa í máli mínu í fyrradag að nákvæmlega sú skipting mundi henta miðað við þær aðstæður og þá þróun sem hefur verið í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum í dag vegna þess að þau hafa verið að búa sér til þessa framleiðslulínu ef svo má segja til þess að auka virði vinnslu sinnar. Nú kemur þingmaðurinn upp og stingur upp á algerum aðskilnaði veiða og vinnslu eða a.m.k. löggjöf sem hvetti til þess. Ég vildi gjarnan heyra frekari rök fyrir því vegna þess að það sem hann leggur til er í fyrsta lagi í blóra við það sem menn í sjávarútvegi hafa viljað á undanförnum árum. Það hefur ekki verið til umræðu að aðskilja þetta tvennt og í öðru lagi í enn meiri blóra við þá þróun sem hefur verið undanfarið.