Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 16:00:54 (3037)

1996-02-14 16:00:54# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[16:00]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hafi misskilið eitthvað af því sem ég var að segja. Ég hélt að ég hefði sagt það nægilega hátt a.m.k. að ég teldi að það væri af varfærnisástæðum að við fórum ekki nema í 49%. Það væri til þess að gæta þess að við hefðum ávallt meiri hluta yfir þeirri auðlind sem sjávarútvegurinn er. Við treystum okkur ekki til að hleypa erlendum aðilum inn í að stærri hluta að svo stöddu. Ég tel að það sé fyrst og fremst af varfærnisástæðum sem við viljum ekki ganga lengra.

Hvað ráðandi eignaraðild varðar nær viðkomandi aldrei meira en 49% ráðandi eignaraðild. Fyrirtækið verður alltaf íslenskt og undir íslenskum yfirráðum og lögum. Það fær ekki úthlutun nema eftir íslenskum reglum. Íslendingar hafa lengi stundað fiskvinnslu og útgerðarmenn hafa átt samskipti við útlönd í áratugi. Við höfum siglt með óunninn afla síðan löngu fyrir stríð. Aflinn hefur verið unninn og verkaður samkvæmt óskum erlendra aðila. Við höfum lagað okkur að markaðnum og erum því ekki í neinum vandræðum með samskipti okkar við útlendinga hvað þetta varðar. Við eigum einungis að tryggja það sem mestu skiptir. Ég tek undir það með öðrum þingmönnum að það er mjög mikilvægt að við höfum meiri hluta yfir þeim fyrirtækjum sem fá leyfi til að veiða í íslenskri landhelgi. Það er grundvallaratriði.