Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:03:24 (3041)

1996-02-15 11:03:24# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:03]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp til laga um fjárreiður ríkisins er komið til um ræðu og afgreiðslu hér á Alþingi. Í umræðu um frumvarp til fjárlaga 1996, við 2. og 3. umr., ræddi undirritaður ítrekað um þörf á skýrari og skilvirkari framkvæmd fjárlaga og betri og ljósari uppsetningu ríkisreiknings. Ég vitna þar í álit minni hluta fjárln. um fjárlög, fjáraukalög og ríkisreikning fyrir 1993 og 1994. Ég vitna einnig í álit skoðunarmanna ríkisreiknings þar sem segir eftirfarandi, með leyfi forseta, að auk hinna óglöggu skila milli A- og B-hluta megi, þrátt fyrir ákvæði 63. gr. ríkisbókhaldslaga, finna dæmi um ósamræmi á milli fjárlaga og ríkisreiknings. Þannig hefur oft verið gerð grein fyrir fjárreiðum aðila í ríkisreikningi þótt þeirra sé að engu getið í fjárlögum. Hér nægir að nefna marga sjóði, eins og hér stendur, sem einkum heyra undir landbúnaðar-, sjávarútvegs-, félagsmála-, menntamála-, heilbr.- og trmrn. sem ekki koma fram í fjárlögum þó að gerð sé grein fyrir þeim í ríkisreikningi.

Umræða hefur verið um að skipa sérstaka nefnd til umfjöllunar um þetta frv. Venjuleg meðferð hefði að sjálfsögðu verið að vísa frv. til umfjöllunar í fjárln. og hún e.t.v. vísað ákveðnum liðum þess til efh.- og viðskn. Ég vil láta það koma hér fram að minn skilningur á brýnni nauðsyn þess að þetta mál fái skjóta afgreiðslu leiðir til þess að ég mun taka undir það að kjörin verði sérnefnd til afgreiðslu þessa frv. og að þar eigi allir stjórnmálaflokkar á Alþingi fulltrúa.

Mín skoðun er sú að það eigi að vera auðvelt að ljúka umfjöllun og afgreiðslu frv. fyrir þinglok nú í vor og að unnið verði samkvæmt þeirri afgreiðslu að uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og meðferð fjármuna ríkisins verði samkvæmt því sem frv. kveður á um þar að lútandi.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um aðgengilega uppsetningu bókhalds. Það sem hér er verið að taka á er að bókhald og uppsetning reikninga ríkisins verði unnið á þann hátt að skiljanlegt sé, í samræmi við það sem gerist hjá fyrirtækjum landsins og í takt við nýja tíma og í samræmi við tiltölulega nýsett lög um ársreikninga og bókhald. Það er einnig verið að vinna að því með þessu frv. að hafa alþjóðlega staðla leiðandi við túlkun og framkvæmd laga um fjárreiður ríkisins.

Herra forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni vandað og vel unnið frv. sem góð sátt ætti að ríkja um. Það er nauðsynlegt að fela nefnd eða nefndum umfjöllum um frv., það verður ekki nema til góðs, í samráði við höfunda þess.

Ríkisendurskoðun hefur ekki hvað síst lagt sitt lóð á vogarskálar í umfjöllun og ábendingum um breytta og skilvirkari meðferð á fjárreiðum ríkisins.

Ég vil, herra forseti, sýna þessa mynd sem birtist í Morgunblaðinu 7. febr. 1996 sem sýnir ríkisendurskoðanda vera að taka helstu stjórnendur okkar fjármálakerfis í gegn og veita þeim árlega áminningu. Ég ætla að vona að svona myndir verði óþarfar í framtíðinni þar sem verið er að taka helstu frammámenn þjóðarinnar og veita þeim áminningu fyrir slaklega stýringu. Ég ætla að vona að það verði úr sögunni með þessum nýju vinnubrögðum.

Ég vil vitna sérstaklega til athugasemda frá Ríkisendurskoðun þar sem bent er á mjög alvarlega ágalla í fjárreiðum ríkisins og sem gerir það að brýnni nauðsyn að setja ný lög um fjárreiður ríkisins. Ábending kemur fram í endurskoðun ríkisreiknings frá Ríkisendurskoðun um að nettóskuldir íslenska ríkisins séu um 195 milljarðar kr. sem nemur tveggja ára skattheimtu ríkisins. Það er líka ástæða til að nefna það að skuldir hafa aukist um 54% að raungildi frá árinu 1990. Í þessari skýrslu er getið um það að halli ríkissjóðs hafi verið stöðugur um 14 milljarða á ári sl. ár. Það hefur engin breyting orðið á fyrr en þá e.t.v. nú ef svo horfir sem menn gera kannski ráð fyrir.

Í ábendingum frá Ríkisendurskoðun koma áminningar sem ég vil kalla mjög varlegar og ég vitna í, með leyfi forseta, hvað varðar skuldir Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar sem mikið hefur verið rætt um í fjölmiðlum að undanförnu. Ég vil meina að hér sé farið mjög varlegum orðum um þær misfellur sem orðið hafa. Hér vitna ég beint til þess, með leyfi forseta, að að mati Ríkisendurskoðunar sýna þessi mál að umsýsla Seðlabanka Íslands með endurlánum ríkisins --- en bankinn annaðist þau á þeim tíma sem þetta var gert --- hefur ekki verið sem skyldi. Ég tel að umrædd stofnun hafi staðið sig ákaflega illa og ætti að fá miklu harðari ábendingar um það sem miður hefur farið varðandi ýmis mál. Ef ég vitna enn til fjármálaaðgerða sem ætti að vera hægt að koma í veg fyrir með nýjum lögum þá á ég við t.d. það sem hefur gerst í fiskeldisfyrirtækjum og loðdýrarækt og nægir að vitna til lánveitinga til ríkisfyrirtækja sem getið er um í þessari skýrslu frá Ríkisendurskoðun. Þar segir, með leyfi forseta, að af þeim 18 fiskeldisfyrirtækjum sem ábyrgðadeild gekkst í ábyrgð fyrir hafa 16 fyrirtæki verið lýst gjaldþrota eða hætt rekstri. Af 20 fyrirtækjum sem fengu sérstök rekstrarlán samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar urðu átta gjaldþrota eða hafa hætt starfsemi. Hér er sérstaklega vitnað til ákveðinnar aðgerðar, að Silfurlax hf. varð gjaldþrota sama ár og ríkissjóður lánaði því fyrirtæki um 50 millj. kr. Það liðu fjórir til fimm mánuðir frá því að ríkissjóður lánaði 50 millj. kr. til Silfurlax hf. þangað til fyrirtækið fór á hausinn. Þetta sýnir að ógætilega hefur verið farið með fé ríkisins og það er þörf á að breyta því. Ég geri mér sterkar vonir um að með breyttum starfsháttum og með betra reikningshaldi, bókhaldi og meðferð fjármuna, þá fari þetta til betri vegar.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég hóf mál mitt á að ég fagna fram komnu frv. og vonast eindregið til þess að það verði afgreitt hið fyrsta. Ég ítreka það einnig að ég tel að hér hafi menn lagt sig fram um að leggja fram sérstaklega vel unnið plagg.