Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:16:27 (3043)

1996-02-15 11:16:27# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:16]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti von á því að þarna væru viðkvæm mál á ferðinni, þessi tvö litlu dæmi sem ég nefndi. Ég er ekki farinn að nefna raðsmíðaskipin. Ég gæti haldið áfram í langan tíma. Ég ætlaði mér einmitt eins og hæstv. fjmrh. kom inn á, að geyma þá umræðu fram að ríkisreikningi. En það var sérstök ástæða til að ég nefndi þessi dæmi. Ég tel að frv. sem liggur núna fyrir og er til afgreiðslu væri ekki í því formi sem það er, ef einmitt þessi sláandi dæmi sem ég var að nefna væru ekki til staðar m.a. Auðvitað verðum við að færa ríkisbókhaldið í samræmi við þau lög sem við höfum sjálf sett og nýlega samþykkt hér á þingi. Mér er það alveg ljóst. En ég mun ekki skorast undan því og lýsi því hér með yfir að ég mun ræða um ríkisreikning 1994 og þær athugasemdir sem fram hafa komið þá.

Ég tel af því að ég var með í að samþykkja þessa 50 millj. kr. fjárveitingu til Silfurlax að ég hafi gert mistök þegar ég samþykkti hana. Ég viðurkenni það hreinlega og tel mig vera mann að meiri að viðurkenna það. Ég ætla bara að vona að með betri framsetningu ríkisreiknings og betri umfjöllun um fjárreiður ríkisins komi svona lagað ekki fyrir.