Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:42:32 (3047)

1996-02-15 11:42:32# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sumt mun ég geyma til síðari tíma en tel ástæðu til að koma á framfæri nokkrum athugasemdum án tafar. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir stuðninginn við frv. Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort ég treysti ekki samstarfsflokknum, en formaður fjárln. er á hans vegum. Auðvitað treysti ég samstarfsflokknum. En ég skil vel af hverju spurt er því að vinstri flokkarnir í stjórnarandstöðunni hafa verið að reyna að sameinast um að rjúfa friðinn eftir atvikum. Þar hlýtur auðvitað að reyna mikið á traust á samstarfsflokkum og það hefur sjálfsagt heltekið huga hv. þm. að undanförnu. En þetta á ekki við um samstarfið í ríkisstjórninni.

Það stendur þannig á að þessi mál heyra undir tvær nefndir. Það þótti eðlilegt að gefa kost á sérstakri nefnd þannig að hægt væri að blanda mönnum úr báðum nefndunum og gætu þá sjónarmiðin komið fram því að þetta snertir ekki einungis eina nefnd. Það væri rangt að mínu viti að fela aðeins fjárln. þetta mál vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir að málefni sem nú eru venjulega til umræðu í efh.- og viðskn. sé ætlað að fara yfir í fjárln. Ég tel fulla ástæðu til þess að gefa nefndarmönnum í efh.- og viðskn. færi á að ræða málið þegar í upphafi þegar því verður vísað til nefndar.

Ég vil svo eingöngu segja í lokin að ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að skila hallalausum fjárlögum á þeim grunni sem fjárlög eru núna, þ.e. á greiðslugrunninum. Annað hefur ekki staðið til. En okkur er auðvitað mætavel ljóst að halli á rekstrargrunni er meiri og hefur verið meiri í gegnum tíðina. Það kemur vandlega fram í ríkisreikningi eins og hv. þm. veit og skilur.