Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 12:09:01 (3052)

1996-02-15 12:09:01# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[12:09]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að vísa til áðan í umfjöllun minni varðar þá skilgreiningu, eins og getið er um í frv., að tekjur ríkisins eru flokkaðar í nokkra þætti. Þetta er í 9. gr. frv. þar sem er fjallað um ríkistekjur. Þar er þeim skipt í nokkra flokka, talað um skatttekjur sem eru lögbundin gjöld sem ríkið krefur einstaklinga eða lögaðila um án þess að komi á móti samsvarandi bein framlög eða þjónusta. Síðan er talað um rekstrartekjur sem eru greiðslur fyrir tiltekna þjónustu sem ríkið veitir hlutaðeigandi aðila. Undir þetta mundi veiðileyfagjald falla. Það væru þá rekstrartekjur því að ríkisvaldið, eins og hæstv. fjmrh. hefur reyndar oft bent á, hið opinbera er með kostnað varðandi sjávarútveg í kringum 3 milljarða. Ef lögð yrði á gjaldtaka fyrir hluta af þessari þjónustu, hvaða upphæð svo sem sem menn mundu þar nefna, þá væri hér um rekstrartekjur að ræða sem menn mundu færa undir þeim lið hér bæði í fjárlögum og ríkisreikningi. Og það er samkvæmt þessari skilgreiningu sem hér er uppi. En það miðar náttúrlega þá að því að sú uppsetning er svo lengi rekstrartekjur sem þetta eru greiðslur fyrir einstaklinga eða lögaðila, í þessu tilfelli útgerðarfyrirtæki, fyrir tiltekna þjónustu ríkisins sem það veitir hlutaðeigandi aðila. Þá værum við að líta svo á að greiðslan fyrir úthlutun veiðiheimilda væri endurgjald fyrir þá þjónustu sem ríkið veitir á öðrum sviðum gagnvart sjávarútvegi. En um leið og þessi gjaldtaka væri komin umfram veitta þjónustu, raunverulega orðin nettótekjuöflun í ríkissjóð, þá værum við í sjálfu sér að breyta skilgreiningu á þessu veiðileyfagjaldi. Ef við höldum okkur við þetta, þá er farið úr rekstrartekjum yfir í skatttekjur. En öll umræða um veiðileyfagjaldið eins og hún hefur verið hér á hausti gengur raunverulega út frá þeirri hugsun sem er lýst ágætlega í greinargerð með frv. á bls. 21 og mundi þá flokkast undir rekstrartekjur.