Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 12:14:23 (3055)

1996-02-15 12:14:23# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[12:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir stuðninginn við meginatriði frv. Hann spurðist fyrir um fjármagnsútgjöld. Þannig verður farið með þau að þau verða færð utan ráðuneyta en á ábyrgð fjmrn. enda er það eðlilegt þar sem til þeirra er stofnað vegna skulda sem snerta flestöll ráðuneytin.

Í öðru lagi ræddi hv. þm. um frávik áætlana og niðurstaðna. Þetta hefur sem betur fer batnað á umliðnum árum. Það er minni munur en oftast áður. En ég tek undir það með honum að það þarf að gera grein fyrir þessu og það er hægt í greinargerð ráðherrans sem honum ber að koma með til þingsins.

Þá ræddi hv. þm. um áætlanir og fyrsta árið sem ætti að vera ítarlegra í því sambandi. Ég tek undir þetta en bendi á að líklega má búast við því að í framtíðinni, eftir svona fimm eða tíu ár, verði samþykkt fjárlög til tveggja ára og þau síðan löguð á árinu sem er á milli af því að það fer óheyrilegur tími í að samþykkja fjárlög á hverju einasta ári. Ég held að þróunin í framtíðinni verði í þá átt að samþykkja fjárlög til tveggja ára.

Þá var spurt í lokin hvort allt yrði tilbúið ef lögin tækju gildi í vor. Ég legg mikla áherslu á það að lagafrv. verði samþykkt í vor en mér finnst það hins vegar eiga að koma til skoðunar um það leyti, þ.e. þegar frv. verður til lokameðferðar, hvort gildistakan eigi að vera um næstu áramót eða þarnæstu. Það er ekki stærsta atriðið. Ég tek undir það með hv. þm. að það sem skiptir mestu máli er að vanda til verksins. Það hefur verið unnið að því í fimm ár og eitt ár til eða frá úr þessu skiptir ekki máli að mínu mati.