Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 12:18:13 (3057)

1996-02-15 12:18:13# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[12:18]

Kristín Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 11. þm. Reykn., nefndi það í sínu máli að hann saknaði ýmissa upplýsinga í athugasemdum með þessu frv. Það er kannski ekki mitt hlutverk, hefði frekar átt að vera hlutverk hæstv. fjmrh. að minna á þessa ágætu bók, Fjárreiður ríkisins, sem ég hygg að flestir þingmenn hafi fengið og hefði kallast á mínum menntaskólaárum geysihagleg geit eða á mæltu máli mjög gagnlegt fylgiskjal því að það er hreinlega smekkfullt af upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig sú nefnd sem að þessu vann hafði hugsað sér uppsetningu fjárlaga, flutning ýmissa sjóða og fyrirtækja úr B-hluta yfir í A-hluta, um tillögur að flokkun núverandi B-hluta aðila o.s.frv. Ég vil því taka hér með ómakið af hæstv. ráðherra og benda á þessa ágætu bók sem er mjög þægileg til þess að leiðbeina mönnum í gegnum þetta frv. og ég fagna því að það skyldi ekki allt vera prentað sem fylgiskjal núna sökum áhuga míns á því að pappír sé sparaður eftir fremsta megni.

Þetta frv. til laga um fjárreiður ríkisins á sér langan aðdraganda og er byggt á mikilli og vandaðri vinnu. Það hefur að geyma mörg atriði sem eiga sér samsvörun í eldri lögum og það byggir líka að nokkru á frv. um fjárgreiðslur ríkisins sem fjárln. vann að síðustu árin og lagði ítrekað fram, það ég best veit, hér á Alþingi, sennilega síðast árið 1994, nema það hafi eingöngu verið til umfjöllunar í nefndinni það ár. Ég er ekki alveg með það á hreinu. En hér er þó um miklu víðtækara frv. að ræða sem miðar að heildstæðari löggjöf um fjárreiður ríkisins, um ríkisreikning, um uppsetningu fjárlaga og framkvæmd þeirra, um fjáraukalög og lokafjárlög eins og þau eru kölluð hér, svo og lántökur ríkisins og sú uppsetning mundi þá koma í stað sérstakra lánsfjárlaga eins og hér hefur komið fram. Hér er um allviðamiklar breytingar að ræða sem tekur tíma að átta sig á í smáatriðum. Ég er ekki slíkur bókhaldari í mér að þetta liggi allt ljóst fyrir eftir eina yfirferð, en ég treysti mér þó til að segja það að hér sé um mjög miklar og merkilegar úrbætur að ræða.

Helstu kostirnir eru þeir að með þessu er verið að gera alla uppsetningu skýrari og skiljanlegri og færa nær því sem gerist í reikningshaldi almennt. Það virðist til þess fallið að miklu auðveldara verði með eftirlit með fjárreiðum ríkisins og einstakra stofnana og auðveldara að hafa yfirsýn yfir öll fjármál ríkisins. Það eru meginkostirnir.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að víkja því til forseta hvort ég mætti bíða eftir hæstv. ráðherra, meðan hann lýkur símtalinu. (Fjmrh.: Ráðherrann hlustar.) Ráðherrann er greinilega mjög fjölhæfur og getur bæði talað í síma og hlustað á mál mitt og ég verð bara að treysta því. En það sem ég ætlaði mér að segja er að það er aftur annað mál hvort með þessu tekst nokkuð betur en hingað til að koma böndum á fjárveitingagleði hæstv. ráðherra sem hefur svo oft verið gagnrýnisatriði í gegnum árin.

Vissulega eru ákvæði í IV. kafla frv. sem eiga að taka á slíku, en ég hef satt að segja ekki minnstu trú á að þau reynist neitt haldbetri en 41. gr. stjórnarskrárinnar sem vitnað er til í almennum athugasemdum á bls. 16. Þar er minnt á að það hefur lengi verið rætt um hvar mörk heimilda framkvæmdarvaldsins til fjárráðstöfunar liggja og það er vitnað til 41. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``

Einfaldara og skýrara getur það nú varla verið að mínum dómi, en í athugasemdum á bls. 16 segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þetta ákvæði setur framkvæmdarvaldinu ákveðnar skorður, þar sem gert er ráð fyrir að Alþingi veiti fyrir fram heimildir til greiðslna úr ríkissjóði.`` Síðan kemur mjög athyglisverð setning sem hljóðar svo: ,,Almennt hefur ákvæðið verið skilið á þá leið að þar sé ekki lagt ófrávíkjanlegt bann við því að greiða úr ríkissjóði nema að fenginni heimild fjárveitingavaldsins heldur hafi það að geyma meginreglu sem fara beri eftir nema sérstakar aðstæður heimili annað.``

Það er eiginlega alveg ótrúlegt og fáránlegt hvernig menn hafa leyft sér að túlka ákvæði eins og þetta sem manni finnst satt að segja ósköp einfalt og skiljanlegt og algjör óþarfi að túlka á þann veg sem gert hefur verið. Um þetta atriði segir í 33. gr., á bls. 7 í frv., þ.e. í IV. kafla, þar sem fjallað er um A-hluta fjárlaga og um ófyrirséða greiðsluskyldu A-hluta, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði er fjármálaráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum og leita heimilda til þeirra með frv. til fjáraukalaga.``

Ég sé ekki, herra forseti, hvernig þetta tryggir að það verði mikil breyting hér á. Ég held að við megum búast við því í ljósi reynslunnar að mönnum takist að túlka þetta rúmt: ,,enda þoli hún ekki bið``, og leyfir sér hreinlega að inna af hendi greiðslur af ýmsu tagi sem sannanlega þyldu bið ef að væri gáð. Sú hefur verið raunin til þessa. Ráðherrar hafa samþykkt fjárútlát af ýmsum toga og vissulega sótt um heimild til Alþingis, en oftast löngu eftir að greiðslur hafa átt sér stað og þannig hafa alþingismenn staðið frammi fyrir orðnum hlut og í rauninni ekki haft annað með málið að gera en að skrifa upp á fyrir ráðherra.

Það eru áreiðanlega ekki mörg dæmi þess að ekki sé þegar búið að eyða þeim fjárhæðum sem verið er að biðja um heimildir fyrir í fjáraukalögum. Þannig hefur þetta verið og þannig verður þetta sjálfsagt í stórum dráttum áfram svo að ég sé jafnsvartsýn og maðurinn sem sagði: Það mun sjálfsagt allt fara úrskeiðis sem farið getur úrskeiðis og hitt líka. En sá maður var reyndar afskaplega svartsýnn.

Þessi ákvæði hafa verið túlkuð afskaplega vítt og ég á alla vega eftir að sjá það hvernig menn munu túlka þessi orð ,,ófyrirséð atvik``. Það gætu þess vegna verið sundlaug í garði sendiherra eins og dæmi eru um reyndar fyrir allmörgum árum eða að kaupa lóð undir sendiráð í Berlín í félagi við hin Norðurlöndin sem ekki væri álitið þola nokkra bið. Ég verð að endurtaka það að ég fæ ekki séð að þessi vinnubrögð batni nokkurn skapaðan hlut þótt þetta frv. yrði að lögum.

Nú væri alveg hægt að breyta þessu ef vilji væri til þess, t.d. með mánaðarlegri umfjöllun eða oftar ef brýna nauðsyn bæri til. Til þess er Alþingi að koma saman til fundar og taka á málum eftir þörfum. Með því móti einu væri hægt að ná tökum á þessu vandamáli og veita ráðherrunum meira aðhald.

Herra forseti. Ég sé svo sem ekki ástæðu til þess að fara yfir allt frv. í smáatriðum á þessu stigi málsins. Mér líst vel á það að mörgu leyti og hef trú á að það muni í flestum atriðum færa hlutina til betri vegar, uppsetning fjárlaga verði eðlilegri og greinilegri og auðveldara að ná heildarsýn yfir öll fjármálaumsvif ríkisins. Þar skipta máli ýmis atriði sem lúta að skilgreiningu ríkisaðila, stofnana og fyrirtækja og staðsetningu þeirra innan fjárlaga, svo og skarpari og víðfeðmari skilgreining ríkistekna. Einnig að fjárlög verði sett fram á rekstrargrunni með sama hætti og ríkisreikningur þannig að hægt verði að gera sér grein fyrir skuldbindingum en ekki aðeins greiðslum innan ársins og þá er til mikilla bóta að lántökur ríkisins verði felldar inn í fjárlög og þannig samræmd þinglegri meðferð ríkisfjármála.

Einnig vil ég nefna það sem mikilvægan lið í þessu máli að A-hluta stofnunum verður nú gert skylt að halda ,,sérstaka eignaskrá um varanlega rekstrarfjármuni ríkisins``, eins og það er orðað í 15. gr. frv. en þar er ekki aðeins átt við fasteignir, heldur einnig farartæki, vélar, húsgögn, tölvubúnað og skrifstofuvélar, tæki, áhöld o.fl. Það nýmæli mun gjörbreyta aðstöðu til að fylgjast með þróun mála og gera sér grein fyrir þörf, meta þörf fyrir eignakaup og viðhald rekstrarfjármuna ríkisins, eðlilegu viðhaldi þeirra. Allt þetta ætti að stuðla að því að betur verði náð utan um þetta sameiginlega heimilishald okkar allra. Ég hlakka satt að segja til að fara betur yfir þetta mál og glöggva mig betur á einstökum atriðum þess.

[12:30]

Hæstv. fjmrh. leggur til að þessu frv. verði vísað til sérstakrar nefndar og mér er kunnugt um þá umræðu sem fram fór milli forsn. þingsins og formanna þingflokkanna um það hvaða meðferð málið ætti að fá. Mér er hins vegar ekki kunnugt um neina sameiginlega niðurstöðu í því efni og ég get upplýst það hér að ég og minn þingflokkur erum eindregið þeirrar skoðunar að þessu máli beri að vísa til hv. fjárln. sem síðan myndi að sjálfsögðu leita umsagnar efh.- og viðskn. sem er málið að sjálfsögðu mjög skylt. Ég vona ég fari rétt með, mér sýnist koma undrunarsvipur á hv. 14. þm. Reykv. en hún verður þá að leiðrétta mig. Ég hafði skilið það svo að við værum sammála um það að þetta væri rétti mátinn. Mér er sjálfri a.m.k. ómögulegt að sjá rökin fyrir því að stofna til sérstakrar nefndar um þetta mál og sé raunar fyrst og fremt óhagræði og hugsanlega árekstra í því fyrirkomulagi.

Þingmenn eru almennt í fleiri en einni fastanefnd þingsins og sem dæmi má nefna að sú sem hér stendur er fulltrúi í tveimur mjög starfsömum nefndum og hefur áheyrnaraðild að tveimur öðrum nefndum og er nú þar á ofan í sérnefnd sem stofnuð var um þingmál sem fram hafa komið um breytingar á stjórnarskránni eins og vaninn er víst þegar slík mál koma fram. Sú nefnd hefur að vísu ekki enn þá komið saman, hverju sem þar er um að kenna, en starf sérnefndar við það þingmál sem við ræðum hér hlýtur að stangast á við störf í fastanefndum þingsins og rugla það kerfi allt. Ég minni á að í fjárln. eiga allir þingflokkar sæti nema Þjóðvaki, sem hefur takmarkaða áheyrnaraðild og hefði að mínu mati fullan rétt til slíkrar aðildar í umfjöllun um þetta þingmál í fjárln. Ég skil því ekki þau orð hæstv. ráðherra áðan að hér gæfist tilvalið tækifæri til þess að stofna sérnefnd. Ég sé ekki að það geti verið neitt áhugamál þingmanna almennt að það sé verið að fjölga nefndum, þeir hafa nóg með þær nefndir sem fyrir eru. Ég vil því vísa því mjög eindregið til hæstv. fjmrh. að endurskoða þessa tillögu um sérstaka nefnd.