Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 12:55:07 (3059)

1996-02-15 12:55:07# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[12:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrír hv. þingmenn hafa rætt um 41. gr. stjórnarskrárinnar og skilning á henni. Tveir þeirra hafa gert athugasemdir, að vísu ekki síðasti ræðumaður, um skilning fjmrn. á ákvæðinu sem birtist í þessu frv. Ég vil benda á að fjmrh. verður að geta borgað skaðabætur eftir dómsniðurstöðu og ýmislegt sem upp kemur þrátt fyrir hin svokölluðu fortakslausu ákvæði stjórnarskrárinnar. Á bls. 313 í Stjórnskipun Íslands segir mjög rækilega frá því hvernig þetta ákvæði hefur verið skilið. Þar stendur að það sé orðin löghelguð venja að ganga frá málum eins og þessum með fjáraukalögum og eins og segir orðrétt á bls. 313: ,,Framlagning fjáraukalagafrv. eftir á, er oftast í reyndinni aðeins skýrslugerð um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, en samþykkt fjáraukalaganna felur auðvitað í sér syndakvittun ríkisstjórninni til handa.``

Þetta þekkja nú lögfræðingarnir sem hafa farið í gegnum skóla hjá Ólafi Jóhannessyni, fyrrv. ráðherra og prófessor, og þannig hefur þetta verið tíðkað þannig að menn eru taldir hafa stöðuumboð rétt eins og bráðabirgðalöggjafarvaldið sem er hjá ríkisstjórn þegar þing situr ekki. Það sem hins vegar er verið að gera með þessu frv. og kom mjög vel fram hjá síðasta hv. ræðumanni, er að það er verið að skilgreina betur við hvaða skilyrði hægt er að greiða úr ríkissjóði. Ég vil því undirstrika að þetta er ekki eitthvað nýtt sem hefur komið upp hjá núverandi ríkisstjórn heldur hefur ákvæðið í 41. gr. stjórnarskrárinnar verið skilið áratugum saman þannig að nægilegt sé að biðja um fjárfestuheimildir eftir á í fjáraukalögum.