Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 12:57:16 (3060)

1996-02-15 12:57:16# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[12:57]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekkert annað en tekið undir það sem hæstv. fjmrh. sagði en vil þó vitna til þess sem segir í Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjáraukalög eru jafnan samþykkt eftir á, og eru teknar upp í þau þær fjárveitingar, sem stjórnin hefur innt af hendi á liðnu fjárhagstímabili umfram fjárlagaheimild eða án heimildar í fjárlögum. Hefur þannig myndast sú venja, að heimild eftir á fyrir fjárveitingum væri nægileg, og oftlega eru þá af hendi inntar fjárgreiðslur umfram það, sem leyft er í fjárlögum, stundum í samráði við fjárveitinganefnd, en einnig oft án samráðs í því trausti, að Alþingi samþykki fjárveitinguna eftir á í fjáraukalögum. Framlagning fjáraukalagafrv. eftir á, er oftast í reyndinni aðeins skýrslugjöf um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, en samþykkt fjáraukalaganna felur auðvitað í sér syndakvittun ríkisstjórninni til handa.``

Þetta sagði sá merki fræðimaður Ólafur Jóhannesson. (KHG: Þá er um synd að ræða.) Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að tilteknar venjur hafa skapast í þessum efnum en stundum hefur verið farið langt út fyrir þær og lengra en kann að vera æskilegt. Þess vegna held ég að við eigum að sameinast um að skerpa og skýra þessi ákvæði. Ég tel t.d. að ef það kemur í ljós að það er svo gott veður tiltekinn vetur, að það megi byggja feiknalega mikið, t.d. hinum megin við Skerjafjörðinn, að þá verði farið langt fram úr fjárveitingum. Ég tel að það séu ekki þær aðstæður sem lög gera ráð fyrir. (Fjmrh.: En hinum megin við Kollafjörðinn?) Það má vel vera að það hafi skapast þær aðstæður hinum megin við Kollafjörðinn að þar sé alveg nauðsynlegt að byggja. En ég held að þingmönnum verði að vera þetta ljóst og ekki síst hæstv. ráðherrum. Það er aðalatriðið að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn viti að hverju gengið er þegar um þetta er fjallað.