Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 14:35:50 (3071)

1996-02-15 14:35:50# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[14:35]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir. Ég vil, með leyfi forseta, hefja þessa umræðu á því að lesa upp fyrir hv. þingmenn nokkrar þær viðvörunarmerkingar sem samkvæmt alþjóðlegum samþykktum eru birtar á tóbaksvarningi. Merkingarnar eru byggðar á læknisfræðilegum staðreyndum:

,,Reykingar valda krabbameini. Reykingar valda hjartasjúkdómum. Reykingar valda banvænum sjúkdómum. Reykingar þínar eru heilsuspillandi fyrir þá sem nálægt þér eru. Ef þú hættir að reykja dregur þú úr líkum á alvarlegum sjúkdómum. Reykingar valda fíkn. Verndið börnin. Látið þau ekki anda að sér tóbaksreyk.``

Framangreind orð eru rituð á tóbaksvörur sem dreift er um alla Evrópu samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins. Þeir sem flytja inn og dreifa tóbaki hér á landi hafa undirgengist að þær séu prentaðar á þeirra kostnað á viðkomandi vörur, sbr. reglugerð nr. 433/1994, um viðvörunarmerkingar á tóbaki.

Það er fullyrt af vísindamönnum að enginn einn utanaðkomandi þáttur sé jafnmikill sjúkdómsvaldur og reykingar. Meðal sérfræðinga sem starfa á þessu sviði hefur verið áætlað að yfir 300 Íslendingar deyi á hverju ári úr sjúkdómum sem rekja má til reykinga. Ég endurtek, að yfir 300 Íslendingar deyja á ári hverju úr sjúkdómum sem eru afleiðingar reykinga. Rannsóknir sýna að a.m.k. 18--19% dánartilfella hér á landi á ári hverju eru af völdum reykinga. Ef miðað er við heildardánartíðni hér á landi má áætla að fjöldi þeirra Íslendinga sem árlega deyja af völdum reykinga sé 315--330. Virtir vísindamenn á alþjóðavettvangi fullyrða að af hverjum fjórum reykingamönnum deyi tveir af völdum reykinga, þar af einn verulega fyrir aldur fram og missi 25--30 ár af ævi sinni. Ég bið hv. þingmenn að hafa framangreint í huga þegar þeir fjalla um það frv. sem hér er mælt fyrir.

Ég bið hv. þm. að hafa einnig í huga þann mikla kostnað sem afleiðingar reykinga hafa í för með sér innan heilbrigðiskerfisins. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands reiknaði árið 1992 út þjóðfélagslegan kostnað vegna reykinga. Þar kemur fram að árið 1990 var almennur sjúkrahúskostnaður vegna reykinga um 470 millj. kr., vegna lyfja 70 millj., kostnaður vegna heilsugæslu og heimilislækna um 40 millj. kr. og sérfræðinga 25--50 millj. kr. Hér hefur aðeins verið nefndur beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins, en að viðbættum ýmsum óbeinum kostnaði telur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að kostnaður Íslendinga vegna reykinga hafi árið 1990 numið allt að 3,8 milljörðum kr.

Ég vil benda á að það er viðurkennt af sérfræðingum hvarvetna í heiminum að hert löggjöf á sviði tóbaksvarna hafi áhrif og dragi úr reykingum.

Frv. til nýrra heildarlaga um tóbaksvarnir var lagt fram á 118. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Frv. þetta er að hluta til byggt á því frv. en í ljósi óhagstæðrar þróunar varðandi auknar reykingar unglinga er nú lögð áhersla á að breyta verði ákvæðum um aðgengi að tóbaki, um auglýsingar og um reykingar á ýmsum stöðum svo sem í skólum, með það að markmiði að styrkja baráttuna gegn reykingum þessa aldurshóps. Nýjar kannanir sýna t.d. að reykingar í yngstu aldurshópunum í Reykjavík, þ.e. 10--16 ára barna og unglinga, jukust á árunum 1990--1994. Þá sýna sömu kannanir auknar reykingar á meðal 12--16 ára barna og unglinga víðast hvar á landsbyggðinni. Sem dæmi má nefna að á Norðurlandi e. hafa reykingar meðal þessa aldurshóps aukist úr 2,1% í 4,4% eða liðlega tvöfaldast á tímabilinu.

Frumvarpið er byggt á tillögum tóbaksvarnanefndar en í henni eiga sæti Halldóra Bjarnadóttir, formaður, Helgi Guðbergsson og Þorvarður Örnólfsson. Lög um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, sem tóku gildi í ársbyrjun 1985 mörkuðu tímamót hér á landi. Við setningu þeirra var tekið mið af löggjöf sem einna lengst gekk í nágrannalöndum okkar. Lögin vöktu á sínum tíma heimsathygli. Mikilvægast er þó að lögin hafa reynst árangursríkt vopn í baráttunni gegn reykingum.

Frá því að lögin voru sett hefur jafnt og þétt dregið úr sölu og neyslu tóbaks. Því til stuðnings má nefna að tóbakssala á hvern fullorðinn íbúa dróst saman um tæplega 32% eða þriðjung á tímabilinu 1984 til ársins 1995. Því miður benda rannsóknir eins og fyrr segir til þess að hægt hafi á þessari jákvæðu þróun nú allra síðustu ár. Ýmsar staðreyndir krefjast þess að hrundið sé af stað sérstöku átaki til að draga úr tóbaksneyslu. Reykingar skólabarna virðast vera að aukast eins og áður segir og tíðni lungnakrabbameins hefur farið vaxandi. Erlendir sérfræðingar hafa hvatt Íslendinga til að bregðast við þessari þróun. Varlega áætlaðar tölur sýna að árið 1990 greindust 135 Íslendingar með krabbamein sem rakið er til reykinga.

En víkjum þá að einstökum efnisatriðum frv. og helstu nýmælum sem í því felast. Aldurstakmörk til tóbakskaupa eru hækkuð úr 16 árum í 17 ár. Veigamikil rök fyrir því eru að sporna með öllum tiltækum ráðum gegn því að börn og unglingar hefji neyslu tóbaks. Kannanir sýna reyndar að almenningur er hlynntur því að hækka aldurstakmörkin enn frekar. Í könnun sem Hagvangur gerði árið 1991 kváðust 62% þeirra sem afstöðu tóku hlynntir því að aldurstakmörk væru hækkuð í 18 ár. Hér er farin sú leið að miða við 17 ár þannig að ná megi til allra grunnskólanema.

Í frv. er lagt til að bannað verði að flytja inn, framleiða og selja munntóbak og fínkorna neftóbak. Að því er varðar munntóbak er byggt á tilskipun Evrópusambandsins og er aðildarríkjum EES-samningsins skylt að hlíta slíku banni. Nokkur ríki hafa bannað hvers kyns reyklaust tóbak, m.a. vegna hvatningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Hér á landi hefur undanfarin ár talsvert borið á neyslu á reyklausu tóbaki meðal barna og unglinga, einkum fínkorna tóbaki. Þess má geta að talsverð brögð eru að því að fínkornasta neftóbakið sé jöfnum höndum notað í nef og munn. Nauðsynlegt er að bregðast við þessari neyslu af fullri einurð áður en hún nær að festa hér rætur. Merkja skal sígarettupakka með upplýsingum um tjöru- og níkotíninnihald í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins.

Bann er sett við framleiðslu tónlistarmyndbanda hér á landi þar sem tóbaksneysla er áberandi. Fyrir liggur að í auknum mæli hefur borið á að sýnd sé neysla tóbaks á slíkum myndböndum og er talið að það hafi hvetjandi áhrif á tóbaksneyslu unglinga. Ákvæðið á rætur sínar að rekja til breytingartillögu heilbr.- og trn. við frv. sem lagt var fram á 118. löggjafarþingi. Heyrst hafa þær raddir að um sé að ræða brot á tjáningarfrelsi. Það er tvennt sem ég vil benda á í því sambandi. Annars vegar vil ég benda á að Alþingi samþykkti 7. mars 1995 lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, lög nr. 47/1995. Þar segir m.a. í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Bannað er að framleiða í landinu eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir. Enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda.``

Hins vegar vil ég benda á að í ákvæði frv. þessa er ekki verið að banna fortakslaust að reykingar séu sýndar á myndböndum sem framleidd eru hér á landi. Markmiðið er að banna að reykingar séu sýndar áberandi og gerðar að nokkurs konar aðalatriði eða sýndar á jákvæðan hátt.

[14:45]

Okkur ber að berjast gegn því að þeir sem börn og unglingar líta upp til og taka sér til fyrirmyndar reyki svo að áberandi sé. Það er viðurkennt af þeim sérfræðingum sem fjalla um þessi mál að ímyndir af þessu tagi hafa mjög mikil áhrif á börn og unglinga.

Ég hef velt fyrir mér þeim áherslum sem fram koma í umræðum af þessu tagi. Hvort ber okkur að leggja ríkari áherslu á tjáningarfrelsi eða frelsi barna og unglinga til að lifa heilsusamlegu lífi um ókomna tíð? Í frv. er nánar kveðið á um takmarkanir á reykingum á veitingahúsum. Á veitingastöðum þar sem megináhersla er lögð á kaffiveitingar og matsölu skulu ávallt vera reyklaus svæði ekki síðri en þau svæði þar sem reykingar eru leyfðar. Tryggja skal að aðgangur að þeim liggi um reyklaust svæði. Reykingar eru með öllu bannaðar í leikskólum, í grunnskólum, framhaldsskólum, sérskólum, dagvistun barna og húsnæði til félags- og tómstundastarfa barna og unglinga. Ákvæðið er í samræmi við breytt viðhorf til mengunar af völdum tóbaksreyks en viðurkennt er af vísindamönnum að reykingar séu áhrifamesti mengunarþáttur í umhverfi okkar. Veita skal fræðslu á heilbrigðisstofnunum um áhrif tóbaksneyslu. Samkvæmt 6. gr. frv. er skylda til að aðstoða þá sem vilja hætta að reykja lögð á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús.

Fjárveitingar til tóbaksvarna eru auknar úr 0,2% af brúttósölu tóbaks í 0,4%. Með því má efla tóbaksvarnir til muna og flýta fyrir þeirri þróun sem er stefnt að með frv. Þannig fæst t.d. svigrúm til að auka styrki til einstakra forvarnaverkefna og rannsókna á þessu sviði. Miðað við núverandi tóbaksneyslu gefur ákvæðið tæplega 20 millj. kr. til tóbaksvarnastarfa.

Hert löggjöf á þessu sviði nægir ekki ein og sér. Mikilvægt er að stjórnvöld á hverjum tíma séu vakandi og tryggi að fram fari forvarnastarf og aðstoð við þá sem vilja hætta að reykja. Ég nefni í þessu sambandi að á morgun vill tóbaksvarnanefnd og heilsuefling á vegum heilbr.- og trmrn. formlega hefja sameiginlegt átak gegn reykingum. Leitað hefur verið eftir samstarfi við fulltrúa sem flestra hópa í þjóðfélaginu með það að markmiði að virkja nýja aðila til starfa á þessu sviði, auka áhuga þeirra og jafnframt frumkvæði þeirra sem þegar starfa að þessum málum. Áhersla verði m.a. lögð á aukið samstarf við skóla og foreldra, aukna ábyrgð íþróttahreyfingarinnar, fjölmiðla, sveitarfélaga og stéttarfélaga. Mikilvægt er að sem flestir þættir, svo sem hert löggjöf og öflugt forvarnastarf vinni saman að framgangi þeirra heilbrigðismarkmiða sem við sem upplýst þjóð viljum setja okkur.

Í upphafi máls míns sagði ég að núgildandi lög um tóbaksvarnir hefðu reynst árangursríkt vopn. Þó margt hafi áunnist virðast þó vera blikur á lofti og við erum enn langt frá því takmarki sem sett hefur verið að Ísland verði reyklaust land. Í íslenskri heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi 19. mars 1991 segir m.a., með leyfi forseta:

,,Draga skal úr og helst útrýma neyslu tóbaks með því að fá fólk til að byrja ekki að reykja og þá sem reykja að hætta. Til að ná þessu takmarki verður að auka bæði upplýsingar og áróður og athuga sérstaklega tengsl milli reykinga og annarra lífshátta. Koma þarf í veg fyrir að fólk sem ekki reykir þurfi að líða fyrir tóbaksreyk. Verð á tóbaksvörum ætti að hækka umfram almennar verðhækkanir. Útiloka ber áhrif innflytjenda á útsöluverð tóbaksvara.``

Ég vil að lokum ítreka að þær tillögur sem fram koma í frv. þessu eru byggðar á þekkingu þeirra sem hafa starfað að þessum málum um ártuga skeið. Þær eru byggðar á mati þess fólks sem best fylgist með því sem er að gerast á alþjóðavettvangi. Okkur ber að taka tillögur þeirra alvarlega.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.