Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:01:17 (3078)

1996-02-15 16:01:17# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil fagna fram komnu frv. sem unnið hefur verið að allt frá árinu 1988. Það er því löngu tímabært að það fái afgreiðslu í þinginu. Að vísu kom fram eldra frv. á 118. löggjafarþingi sem ekki hlaut afgreiðslu.

Þessi nýja mynd frv. tekur réttilega mið af þeirri óheillaþróun sem orðið hefur varðandi reykingar ungs fólks og endurspeglast víðast hvar þar sem ungt fólk kemur saman, svo og í tiltækum könnunum. Það er alveg ljóst að það virðist aftur að vera komast í tísku meðal ungs fólks að reykja og það er verulegt umhugsunarefni hvað veldur. M.a. held ég að það hafi verið slakað á þeim heilsufarsáróðri sem áður tíðkaðist og þarna þurfi verulega að bæta ástandið. Ég vil heils hugar taka undir það fjórþætta markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem sett er fram í greinargerð. Þar kemur fram að það beri að stefna að því að ungt fólk byrji ekki að reykja og að stefnt sé að því að reykingamenn hætti að reykja og fái til þess hvatningu og aðstoð, að þeir sem hætta ekki að reykja fái sem minnst af skaðlegum efnum úr reyknum og þeir sem ekki reykja njóti verndar gegn tóbaksreyk frá öðrum. Það er ekki síst þetta síðasta markmið sem ég tel ákaflega mikilvægt og mjög langt í land með hér á landi.

Ég tek fyllilega undir þau rök sem styðja það að allt skuli gert til að seinka því að ungt fólk hefji reykingar því rannsóknir sýna alveg ótvírætt, og það kemur reyndar fram í grg., að því fyrr sem fólk byrjar að reykja, því meiri líkur eru á heilsutjóni, þar á meðal krabbameini. En boð og bönn eru alltaf viðkvæm. Ég tel því að almennt eigi að fara forvarnastarfsleiðina þegar verið er að koma þeim skilaboðum til fólks að það eigi ekki að reykja og ekki síst til barna og unglinga. Þó hér sé mælt með auknu fé til tóbaksvarna, hefði ég gjarnan viljað sjá meiri aukningu þar og tek því undir gagnrýni sem komið hefur á það ákvæði. En þrátt fyrir ákvæðið um aukið fé er mjög lítið útfært hvernig á að verja því, hvernig á að fjármagna aukna fræðslu um áhrif tóbaksneyslu eða t.d. námskeið til að aðstoða fólk við að hætta að reykja. Það er gert ráð fyrir því að frv. valdi tekjuskerðingu ríkissjóðs upp á 16--18 millj. kr. og ekki verður séð að heilbrigðisstofnanir séu aflögufærar til að sjá um námskeið og annað sem þeim er ætlað samkvæmt frv. Ég hefði því viljað sjá mun betri útfærslu á því hvernig tóbaksvarnafræðsla eigi að beinast að ungu fólki og vil gjarnan heyra hugmyndir hæstv. ráðherra um það hvort hún telur að heilsugæslustöðvar hafi núna fé til þessa fræðsluátaks eða fé til þessara mála. Það segir ekkert um það í frv. að þeim sé ætlað sérstakt fé til þessa þáttar.

Ef ég kem ögn nánar að nýmælum frv. eru þar nokkur ákvæði sem eru óumdeild að mínu mati, eins og merkingar á sígarettupökkum og ég tek heils hugar undir bann á munntóbaki. En það eru önnur atriði þarna sem mér finnst ekki nægilega vel rökstudd. Þar vil ég sérstaklega nefna bann við framleiðslu á tónlistarmyndböndum þar sem tóbak er áberandi. Mér finnst vanta allan rökstuðning sem vissulega er mögulegur varðandi þetta ákvæði. Hér virðast tónlistarmyndbönd skilin eins og hver önnur auglýsing sem þau eru auðvitað að hluta en ekki alfarið, því að þau eru ákveðið listform líka. Ég sakna einhvers konar rökstuðnings sem tengir þetta við fyrirmyndir eða eitthvað slíkt, samanber það að vitað er að tóbaksfyrirtæki hafa beint athygli sinni að Hollywood og kvikmyndagerð til að koma þeirri öfugímynd á framfæri að það sé flott að reykja. Þessi rök eru ekki notuð. Það er ekki sagt hvers vegna banna á reykingar í myndböndum. Ég tel að það hafi ekki verið sannað vísindalega að auknar reykingar í myndböndum eða í kvikmyndum valdi auknum reykingum, þó að þetta hafi farið saman undanfarin 5--10 ár, rétt eins og þó að aukið ofbeldi í sjónvarpi og aukin ofbeldishneigð fólks fari saman, þá er ekki sannað með fullnægjandi vísindalegum hætti að þarna sé um orsakasamband að ræða. Mér finnst þó mjög líklegt að þarna sé um ákveðin tengsl að ræða. En þar sem það hefur ekki verið sannað og þar sem myndbönd eru ákveðið listform þó þau séu einnig auglýsing, tel ég vafasamt að banna þau. Ég get því tekið undir það með Össuri Skarphéðinssyni að þarna séum við komin út á hálan ís og það sé kannski stutt yfir í að fara að banna reykingar í leikhúsum eða í kvikmyndagerð eða við aðra menningarstarfsemi. Það þarf a.m.k. að rökstyðja þetta ákvæði mun betur til að ég geti stutt það.

Önnur atriði sem ég vil gera að umtalsefni eru að í þessu nýja frv. er mælt með að aldursmörk við sölu á tóbaki séu 17 ár í stað 16. Ég vil taka undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þarna er of stutt skref stigið. Mér fyndist eðlilegra að miða tóbakskaup við 18 ár. Einnig hef ég mælt með því að sjálfræðisaldur verði hækkaður og ég tel mun eðlilegra að öll þessi mörk, áfengið, tóbakið og sjálfræðisaldurinn, miðist við 18 ár. Ég tel því að þarna sé of skammt gengið.

Þá er í frv. ákvæði sem kveður á um bann við reykingum í grunnskólum, leikskólum og framhaldsskólum. Nýmælið þarna er fyrst og fremst framhaldsskólinn þar sem í núgildandi lögum er bannað að reykja í grunnskólum og í dagvistun barna. Þarna er hugtakið leikskóli komið inn sem vissulega ber að fagna. En þó það hafi verið bannað að reykja í grunnskólum hefur verið heimilt að setja upp reykingakompu eða einhverja sérstaka aðstöðu fyrir reykingafólk. Í frv. er tekið fyrir það. Það er því ljóst að ef þetta verður að lögum þarf að gera ráðstafanir til að starfsfólk og aðrir geti aðlagast að þessu því þetta er veruleg breyting frá núgildandi lögum, einkum og sér í lagi fyrir framhaldsskólana.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi háskólann í ræðu sinni og hvers vegna ekki sé tekið á honum í þessu frv. Ég tel að það sé erfiðara að fást við háskólann þar sem um fullorðið fólk er að ræða. En ég þekki vel hvernig núgildandi lög hafa reynst í praxís í Háskóla Íslands. Ég tel að það sé algjörlega óviðunandi hvernig reynslan er þar og það þurfi því að koma skýrari ákvæði inn í lög sem t.d. ná til Háskóla Íslands. Ég vil nefna tvö dæmi um framkvæmd í háskólanum sem hefur valdið vandamálum. Í einu húsi sem ég þekki mjög vel til í háskólanum, í Odda, voru reykingar bannaðar alfarið nema í setustofu kennara. Það varð til þess að nemar þyrptust út til að reykja þannig að þeir kennarar og aðrir sem hafa herbergi á neðstu hæðum hússins geta ekki haft opinn glugga hjá sér. Skrifstofur þeirra fyllast af reyk. Sömuleiðis flykkist allt starfsfólk hússins yfir í setustofu kennara í Odda þar sem örfáir reyktu fyrir með þeim afleiðingum að þar varð gjörsamlega ólíft. Ég tel að í núgildandi lögum sé ekki tryggt hvernig fólk á almennum vinnustöðum getur verið án reyks og ekki sé tekið á því í þessu frv. og því verði að bregðast við með einhverjum hætti.

Síðast en ekki síst vil ég gera að umræðuefni það nýmæli að banna eigi reykingar í húsakynnum þar sem félags- og tómstundastarf barna á sér stað. Þarna finnst mér grg. alls ekki nógu skýr. Við hvaða aldur er t.d. miðað? Er þarna miðað við að börn séu börn til 16 ára aldurs og hvað eru þau þá unglingar lengi? Á þetta t.d. bara við fram að 16 ára aldri eða á þetta við starfsemi félagsmiðstöðva almennt? Þetta er mjög óskýrt í lagatextanum þar sem hugtakið unglingur hefur ekki lagalega merkingu og það er ekkert skýrt í grg.

Í stuttu máli fagna ég að þetta frv. er fram komið. En ég tel að fræðsluþátturinn sé ekki nægilega skýr og ekki nógu tryggur til að auknar forvarnir fari í gang og fræðsla og hjálpartæki til að hætta að reykingum verði á færi allra. Ég get ekki séð að það sé tryggt með þessu frv.

Þá vil ég að sala á tóbaki sé miðuð við 18 ár. Það á að beina auknum forvörnum að ungu fólki og það er nóg að beina vinsamlegum tilmælum til myndbandaframleiðenda fremur en banni því annars er skammur vegur yfir í bann í öðrum listformum. Ég tel einnig eins og ég sagði áðan að það þurfi sérstaklega að fara yfir þetta frv. í heilbr.- og trn. með tilliti til þess markmiðs að fólk sem ekki reykir geti verið án reyks. Ég tel að það sé alls ekki nægilega tryggt í frv. Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra sem og hv. þm. Hjörleif Guttormsson vegna fyrri ummæla hans í dag. Hvaða frekari skref sjá þau möguleg eða raunhæf á þessu stigi? Þótt þetta frv. hljóti að vera ákveðin pólitísk málamiðlun, tel ég að það sé svo margt að að þessu leyti í okkar þjóðfélagi að það verði að ganga lengra. En auðvitað verði að fara með gát og ekki neinar ofstækisleiðir.