Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:15:31 (3079)

1996-02-15 16:15:31# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við þá ágætu umræðu sem hefur farið fram um þetta frv. Það eru nokkur áhersluatriði af minni hálfu. Í fyrsta lagi vil ég almennt hvetja menn til dáða í þessum efnum og ráða mönnum frá því að vera með einhverja viðkvæmni eða tepruskap gagnvart því að beita sér af hörku gegn tóbaksreykingum. Ég sé ekki annað en til þess standi fullgild rök að taka mjög fast á þeim málum og gef satt best að segja ekki mikið fyrir málflutning af því tagi sem stundum heyrist að það flokkist undir einhvern helgan rétt borgaranna að menga umhverfið og andrúmsloftið, skaða sjálfan sig en þó einkum og sér í lagi aðra sem í kringum þá eru.

Það er mikill misskilningur að í ljósi þeirra upplýsinga sem sífellt eru að hlaðast upp um skaðsemi óbeinna reykinga að það sé á valdi hvers og eins að ákveða hvernig hann hegðar sér í þessum efnum. Það er ekki svo. Frelsi einstaklingsins nær að þeim mörkum að það skaði ekki aðra. Hér gilda þau rök að menn hafa ekki leyfi til þess að menga það loft sem aðrir draga ofan í lungu sín og spilla umhverfinu. Þetta þarf hv. þm. og fyrrv. neftóbaksmaður, Össur Skarphéðinsson, m.a. að athuga. (Gripið fram í: Og fyrrv. reykingamaður.) Og gildir það hvort sem er um andrúmsloft innan veggja Háskóla Íslands eða annars staðar í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi, herra forseti, er ekki hægt annað en að ræða þetta frv. í ljósi þeirra alvarlegu staðreynda að yfirgnæfandi vísbendingar eru um að reykingar séu vaxandi á nýjan leik og í raun þarf engum blöðum um það að fletta. Það er alveg nóg að þekkja sæmilega til t.d. í grunnskólum og framhaldsskólum landsins til þess að vita að þar stefnir í hreinasta óefni á nýjan leik með verulega auknum reykingum ungmenna, manni liggur við að segja barna, frá því sem var þegar mestum árangri hafði verið náð í kjölfar mikils áróðurs og fræðslu á áttunda áratugnum og jafnvel fram á þann níunda. En nú hefur þarna, því miður, af einhverjum ástæðum slaknað verulega á. Sennilega hafa menn að nokkru leyti sofnað á verðinum og ekki sinnt sínum skyldum sem vert væri á þessu sviði og afleiðingarnar eru alveg ótvíræðar og hrikalegar.

Í þriðja lagi, herra forseti, finnst mér rétt að nefna til sögunnar í þessari umræðu þá staðreynd, því miður, að vaxandi fjöldi fólks stríðir við sjúkdóma af ýmsu tagi sem gera tóbaksreykingar enn þá skaðlegri og meira óþolandi en ella í umhverfinu. Þá á ég við allan þann mikla fjölda fólks sem er að berjast við ofnæmi og öndunarsjúkdóma af ýmsu tagi og reykingar, ég tala nú ekki um beinar, en jafnvel óbeinar reykingar fara með mjög illa með. Af þeirri ástæðu einni er ástæða til að taka enn fastar á í þessum efnum heldur en hingað til hefur verið gert. Það er viðurkennd staðreynd, ég hef ekki undir höndum í augnablikinu tölfræðilegar staðreyndir í þeim efnum, en ég þykist geta fullyrt það og fara rétt með að það liggi fyrir tölfræðilega sannað að ýmsir slíkir ofnæmis- og öndunarfærasjúkdómar gerast því miður æ algengari. Kenna þar margir um ýmis konar óhollustu í nútímalifnaðarháttum, mengun andrúmslofts og fleiri slíkum hlutum. Þessu fylgir mikill kostnaður, geysilegur lyfjakostnaður og útgjöld í heilbrigðiskerfinu vegna þessa fólks. Veigamest er þó sú röksemd sem lýtur að velferð þessa fólks og vellíðan. Staðreyndin er sú að þetta fólk er í vaxandi mæli útlagar í þjóðfélaginu að svo miklu leyti sem reykingar eru látnar líðast og viðgangast.

Ég vil sem dæmi taka veitingastaði. Það er staðreynd að það eru þúsundir Íslendinga sem ekki geta undir neinum kringumstæðum lifað af heilt kvöld á venjulegum veitingastöðum á Íslandi því þar er yfirleitt þoka niður í miðjar hlíðar, ef svo má að orði komast, sér ekki til lofts á kránum og búllunum. Og er þó ekki hátt til lofts víða í þeim kjallaraholum sem virðast vera vinsælastar sem ölstofur og veitingahús. Ég fullyrði það, herra forseti, að það eru þúsundir manna sem heilsu sinnar vegna geta ekki eytt kvöldstund á slíkum stöðum. Nú er ég ekki að segja að það sé eitthvert sáluhjálparatriði fyrir alla að geta verið þar en sjálfsagt er það nú svo að margir vildu gjarnan geta t.d. fylgt vinnufélögum eða fjölskyldu sinni o.s.frv. og vilja ekki vera sviptir þeim mannréttindum að geta af og til dvalið á slíkum stöðum. En þannig er nú ástandið í dag. Ég vil nota þetta tækifæri þó það sé sjálfsagt frekar óvenjulegt, herra forseti, að skora á einhverja framtakssama einstaklinga úti í þjóðfélaginu að drífa í gang reyklausa veitingastaði og reyklausar ölstofur hér í landinu. Ég fullyrði að það verði góður bisniss og ég skal leggja mitt af mörkum til þess, með óbeinum hætti að sjálfsögðu, að hvetja til þess að menn sýni slíku framtaki stuðning. (ÖS: Með hvaða hætti?) (Gripið fram í: Við bara mætum þar.) Með þeim einfalda hætti, hv. þm. og fyrrum neftóbaksmaður, að menn heiðri slíka staði með viðskiptum og verðlauni þá fyrir það framtak (Gripið fram í.) að útrýma reykingum. Ég er t.d. að tala um matsölustaði og almenna veitingastaði. (ÖS: Þingmaðurinn talaði um ölstofur.) Ölstofur eru líka þjónustustarfsemi sem við vitum að viðgengst hér í landinu og þær væru ekki til nema vegna þess að einhverjir nota sér þjónustu þeirra án þess að ég sé þar með að hvetja til eða auglýsa upp þann varning. (ÖS: Annað heyrist okkur bindindismönnum hér í salnum.) Ég bið menn nú að taka sjálfa sig ekki of alvarlega sem bindindismenn þó þeir hafi nýlega hætt að taka í nefið.

Mér er í sjálfu sér ekki hlátur í hug, herra forseti, út af þessu þó menn hafi verið að skjóta hér inn í einhverjum kátlegum athugasemdum. Ég tel þetta vera mikla alvöru. Það vill svo til að ég þekki til þessara mála af vissum ástæðum og veit við hvað þetta fólk á að glíma sem haldið er þessum sjúkdómum. Ég endurtek að það undrar mig að menn skuli ekki, þó ekki væri nema á hreinum viðskiptalegum forsendum, hafa kveikt á þeim möguleikum sem væntanlega liggja til ábatasamrar starfsemi að sinna þörfum þess fólks sem vill geta komist heim til sín eftir dvöl á veitingahúsi eina kvöldstund án þess að fötin séu svo til ónýt af reykjarsvælu og menn meira og minna farnir á heilsu jafnvel þó þeir séu sæmilega heilbrigðir að öðru leyti og séu ekki að berjast við sérstaka ofnæmis- eða öndunarfærasjúkdóma. Ég tel mig vera þokkalega heilsuhraustan og er sem betur fer ekki haldinn neinum slíkum kvillum en ég fullyrði að það er iðulega beinlínis heilsuspillandi að anda að sér stundinni lengur því lofti sem er á þessum stöðum.

Í fjórða lagi, herra forseti, þá held ég að það sé ekki umdeilt að tóbaksreykingar eru ef ekki stærsta þá a.m.k. eitt stærsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar og trúlega það sem einna útgjaldafrekast er nema ef frekast skyldi að ofnotkun áfengis kæmist í svipaðar hæðir í útgjöldum og er þá ekki allt mælanlegt sem þar á sér stað og verður aldrei því að sársaukafyllst er náttúrlega það tjón sem verður á heilsu fólks og heilbrigði og vellíðan og mannfórnirnar sem tóbaksreykingar hafa í för með sér. Eðlilega horfa menn til þeirra mannfórna sem eru samfara því að búa í landi eins og okkar. Fólk ferst í umferðinni og það verða slys á sjó o.s.frv. en þær mannfórnir eru smámunir, þær eru barnaleikur í vissum skilningi þess orðs borið saman við þær mannfórnir sem tóbakið hefur í för með sér og brúkun þess.

Þess vegna, herra forseti, hvet ég að lokum menn til að taka miklu fastar á í þessum efnum. Ég fullyrði það að þeir fjármunir sem settir eru í forvarnir á þessu sviði eru hreinasta hneisa. Þeir eru fáránlega litlir, þeir eru heimskulega litlir frá hreinu efnahagslegu sjónarmiði séð þó ekkert annað kæmi til. Þeir eru heimskulega litlir. Að leggja ekki til muna meiri fjármuni í forvarnir til málaflokks af þessu tagi þar sem útgjöldin hinum megin, gjaldamegin, eru jafngífurleg og raun ber vitni, það er heimskulegt. Og ég skora á þá hv. þingnefnd sem mun véla um málin að taka það til skoðunar að leita eftir þverpólitískri samstöðu um að stórauka tekjuöflun til forvarna á þessu sviði og sverja þess dýran eið að sá tekjustofn verði nú einu sinni látinn í friði ef menn sammælast t.d. um það að taka ríflegt gjald af tóbaki og setja það allt í forvarnir.

Ég heyrði einhvers staðar í fréttum það hneyksli að annar stjórnarflokkurinn hefði nuddað því fram í tengslum við þetta frv. að fá fellda út hugmynd um að hækka tóbak. Ég lýsi eftir upplýsingum um það hneyksli. Var það Framsfl. sem stóð fyrir því, herra forseti, ef hæstv. heilbrrh. vildi vera svo væn og svara því? Ef það er Sjálfstfl. megi það þá verða honum til langvinnrar skammar að hafa afrekað það að berjast sérstaklega fyrir því að lækka verðið á þessari vöru.

Ég hvet til þess að það verði a.m.k. ekki mikið gert með þá afstöðu hér í meðferð þingsins og kannað hvort ekki er hægt að ná þverpólitískri samstöðu um að taka betur á í þessum málum í tengslum við meðferð þessa frv.