Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:27:21 (3080)

1996-02-15 16:27:21# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki stal standa á mér sem formanni heilbr.- og trn. að hlutast til um að það myndist þverpólitísk samstaða um að hækka þann hluta af brúttósölu tóbaks sem verður varið til forvarnastarfa. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. um þetta. Í ræðu minni fyrr í dag lagði ég einmitt ríka áherslu á nauðsyn forvarnastarfs, benti á það að hæstv. ráðherra hefur sagt að það kosti hálfan milljarð einungis að bæta beint heilsutjón af völdum reykinga og við erum hérna að tala um skitnar 20 millj. Auðvitað er það hneisa.

Herra forseti. Ég tek líka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir um skaðsemi óbeinna reykinga. Menn eiga auðvitað að fá öll tækifæri til þess að vera lausir við það að þurfa að draga að sér loft með slíkum reyk. Ég er hins vegar ekki alveg sammála hv. þm. eða hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að það sé nauðsynlegt að ganga miklu lengra en þetta frv. gerir. Ég vek athygli á því að það er tóbaksvarnaráð sem gerir tillögurnar að þessu frv. og þar er að finna einhverja skeleggustu talsmenn tóbaksvarna sem ég hef enn þá komist í kast við.

En ég kem hér upp til þess, herra forseti, aðeins að leiðrétta sem mér fannst vera misskilningur í máli hv. þm. um efni ræðu minnar fyrr í dag. Ég var ekki að segja að það ætti ekki koma upp til að mynda reyklausum svæðum innan Háskóla Íslands. Hins vegar var ég að lýsa því yfir fyrr í dag að ég er algjörlega á móti því að banna reykingar fortakslaust í Háskóla Íslands en það lagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson til fyrr í dag. Ég er á móti því. Ég skal hins vegar vera fyrstur manna til þess að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það á að sjálfsögðu að gefa námsmönnum og starfsmönnum Háskóla Íslands kost á því að búa að reyklausum svæðum eins og sums staðar annars staðar.

Að lokum, herra forseti, langar mig til þess að varpa fram spurningu til hæstv. ráðherra sem varðar óbeinar reykingar. Hvað með reykingar á lóðum utan stofnana t.d. leikskóla og skóla? Verður það bannað eða á mönnum að leyfast að híma þar með vindling í munnvikinu og reykja og menga og skapa vont fordæmi?