Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:29:58 (3081)

1996-02-15 16:29:58# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að svara spurningu sem hv. þm. beindi til hæstv. heilbrrh. í andsvari við mig heldur ætla ég í fyrra laginu að þakka hv. þm., formanni heilbr.- og trn. fyrir loforðið um það að taka myndarlega á í meðferð þessa máls, fara yfir það í hv. þingnefnd og kanna það meðal þingmanna hvort ekki sé unnt að ná samstöðu um miklu róttækari aðgerðir í sambandi við fjáröflun til forvarna á þessu sviði. Ég fagna því og ítreka brýningu mína í því sambandi. En að hinu leytinu til er ég mun nær skoðunum hv. 4. þm. Austurl. en hv. 15. þm. Reykv., Össurar Skarphéðinssonar. Ég sé ekki að það sé mikil ástæða til þess að vorkenna mönnum í Háskóla Íslands meira en í öðrum skólum og öðru opinberu húsnæði. Ég er meira og minna þeirrar skoðunar að það eigi að koma reykingum út úr t.d. heilbrigðisstofnunum og út úr opinberu húsnæði og eiginlega útrýma þeim alls staðar sem nokkur kostur er, ganga eins langt í því næstum því, liggur mér við að segja, og friðhelgi einkalífs og heimila leyfir. Þar verða menn auðvitað að ráða sínu framferði sjálfir. En ég sé enga ástæðu til þess að ríkið sé að byggja hús yfir fólk til þess að reykja í. Menn geta bara leyst þau vandamál einhvers staðar annars staðar. Úti á túni eða heima hjá sér ef ekki vill betur til og ég er tilbúinn til að ganga alveg feiknarlega langt í því. Auðvitað er það gert meðvitað með það í huga að það eitt með öðru hjálpi til að sigrast á þessum vágesti. Það er alveg ljóst að þetta kemur við einhverja og verður ekki vinsælt hjá öllum að þurfa að norpa úti í kuldanum en menn verða að þora að taka á einhverju í þessum efnum og það eru ærin rök fyrir því.