Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:43:27 (3083)

1996-02-15 16:43:27# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er leitt að hlusta á það hvernig Sjálfstfl. hefur taumhald á hæstv. heilbrrh. í hverju málinu á fætur öðru. En ég kem upp til þess að drepa á örfá atriði.

Ég lít svo á að hæstv. heilbrrh. sé sammála því að innan heilbr.- og trn. muni menn reyna að hækka það hlutfall sem nefnt er í 7. gr. að eigi að verja af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs. Að mínu viti var ekki hægt að skilja mál hennar öðruvísi en svo að hún sé þess raunar fýsandi og hún leiðréttir mig þá ef hún er annarrar skoðunar.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum varðandi þann þátt sem lýtur að banni á framleiðslu tónlistarmyndbanda hér á landi þar sem tóbaksneysla er áberandi. Hvaða máli mun það skipta? Það mun skipta því einu að framleiðslan mun færast út úr landinu. Heldur hæstv. ráðherra að þær hljómsveitir sem innan lands hafa staðið í því að búa til slík myndbönd muni hætta að framleiða þau? Að sjálfsögðu ekki. Þær munu bara framleiða þau í öðru landi. Þetta mun þess vegna skaða Íslendinga en þar fyrir utan er þetta prinsippatriði. Þetta er óhugsað, órökvíst og ef menn væru þessarar skoðunar þá ættu þeir að fara yfir sviðið miklu víðar og banna myndir af tóbaksneyslu í blöðum, í dagblöðum, í öllum sjónvörpunum, í öllum kvikmyndum og öllum myndböndum sem framleidd eru á Íslandi.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri mér frá því hvaða gögn hún hefur undir höndum sem sýna það að fínkornótt neftóbak sé mjög skaðlegt. Ég er reiðubúinn til þess að taka þau góð og gild en ég hef enn ekki fengið þau. Hæstv. ráðherra gat þess að það væri miklu meira nikótín í neftóbaki heldur en í sígarettum, en er það ekki svo að það er ekki nikótínið sem veldur krabbameininu heldur eru það ýmis önnur efni eins og fjölhringuð kolefnissambönd og nítrósamín og fleiri slík en ekki nikótínið þannig að þetta eru ekki í sjálfu sér rök og ég lýsi enn eftir þessum rökum. Þegar ég hef þau fyrir framan mig, þá skal ég fallast á þetta ákvæði, en ekki fyrr.