Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:45:53 (3084)

1996-02-15 16:45:53# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:45]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það síðastnefnda sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan um skaðsemi fínkorna neftóbaks kemur það best fram í mæli hans vegna þess að hann var sífellt stíflaður í nefninu og gat varla komið upp nokkru orði meðan hann tók svo stíft í nefið sem hann gerði fyrir nokkrum mánuðum. Nú er hann bara hreinn sem sveinn.

Það er nefnilega þannig að þetta fínkorna neftóbak eyðileggur slímhúðina í nefi og munni. Ég get sýnt honum ýmsar skýrslur þar að lútandi sem sýna fram á það að þetta er ekki aðeins krabbameinsvaldur heldur brennir það slímhúðina. Þetta eru vísindalega sönnuð rök, hv. þm., og heyri hver sem vill.

Hv. þm. sagðist ætla að berjast fyrir því í heilbrn. að hærra hlutfall af brúttósölu tóbaks yrði nýtt til forvarna. Ég segi bara: Gangi honum vel með það því að ég tel mikilvægt að ná sem mestum fjármunum til forvarna. Ég vil samt ná verulegum árangri með því að tvöfalda þessa upphæð í þessu frv. og ég tel að mjög gott skref.